Efnisyfirlit

4 milljarðar á ári fyrir kirkjujarðir

   12. desember 2022     2 mín lestur

Árið 1997 var gerður samningur milli ríkisins og íslensku þjóðkirkjunnar um yfirtöku ríkisins á kirkjujörðum í staðinn fyrir að greiða laun presta. Það er tvennt mjög ámælisvert við samninginn. Í fyrsta lagi er hann ótímabundinn og í öðru lagi, þó að allir myndu skrá sig úr kirkjunni þá væri ríkið samt skuldbundið til þess að greiða laun um 90 presta og 14 annara starfsmanna biskupsembættisins.

Frá því að samningurinn var gerður hefur skráðum meðlimum í þjóðkirkjunni fækkað um 15 þúsund á meðan Íslendingum hefur fjölgað um rúmlega 100 þúsund. Miðað við kirkjujarðasamkomulagið hefði það átt að þýða fækkun á fjölda stöðugilda sem ríkið greiðir fyrir en þegar viðbótarsamkomulag var gert við kirkjuna í desember 2019 kom fram að þessar greiðslur hefðu í rauninni ekkert breyst þrátt fyrir fækkun félagsmanna í þjóðkirkjunni. Núverandi samkomulag gerir ráð fyrir laun- og verðtryggðri upphæð.

Árið 2015 voru samþykkt ný lög um opinber fjármál sem flækja þetta mál mjög mikið. En í þessum nýju lögum segir að ekki sé heimilt að gera samninga um framkvæmdir, rekstur eða önnur afmörkuð verkefni til lengri tíma en 5 ára. Sérstaka undanþágu má veita frá því skilyrði ef það þarf að ráðast í stórar og kostnaðarsamar framkvæmdir og þarf slík undanþága að vera rökstudd.

Þetta þýðir að nýja viðbótarsamkomulagið, sem á að gilda í 15 ár, stenst ekki lög um opinber fjármál. Gamla kirkjujarðasamkomulagið, sem er ótímabundið, gerir það ekki heldur. Miðað við gildandi lög hlýtur það þá að vera skylda ríkisins að fella þessa samninga úr gildi og gera nýja samninga ef þarf. Enginn áhugi virðist vera fyrir því hins vegar, enda eru stjórnvöld tiltölulega nýbúin að gera þetta viðbótarsamkomulag sem stríðir á við lög um opinber fjármál.

Það er því ágætt að hafa það í huga þegar fólk hugsar nú til jóla og þeirrar hátíðar sem nokkurn vegin öll trúarbrögð hafa eignað sér á einn eða annan hátt, hversu vel það samræmist lífsskoðunum þjóðkirkjunnar að gera svona samkomulag. Þó að það sé vissulega stjórnvalda að fara eftir lögum um opinber fjármál, hefði það ekki verið heiðarlegt af þjóðkirkjunni að benda á að það er ólöglegt að gera samning til lengri tíma en fimm ára? Hefði kirkjan ekki átt að benda einnig á að það þurfi að skilgreina umfang og gæði þeirrar starfsemi sem samningurinn tekur til?

Um hátíðirnar þegar farið verður að predika um fórnir fyrir syndir manna, um kærleikann og ljósið sem fjármagnað er með ólöglegum samningi um óskilgreind störf þjóðkirkjunnar, er gott að muna siðferðisboðskapurinn kostar fjóra milljarða á ári ofan á hefðbundin sóknargjöld.

Er í lagi að nota skattfé svona bara af því að málefnið er gott eða er málefnið í alvörunni gott þegar það er styrkt svona?