Efnisyfirlit

Opnunarræða á hátíðarmálþingi vegna 10 ára afmælis Pírata

   25. nóvember 2022     2 mín lestur

Kæru gestir. Velkomin á hátíðarmálþing um gagnsæi gegn spillingu og aðhald með valdi í tilefni 10 ára afmælis Pírata.

Á þessum 10 árum frá stofnun Pírata hafa gagnsæis- og aðhaldsmál verið stór hluti af störfum Pírata, bæði á alþingi og í sveitarstjórnum, enda eru þau mál þungamiðja í grunnstefnu okkar um gagnsæi og ábyrgð.

Sem dæmi er hægt að nefna þingmál eins og upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra, hagsmunaárekstrar alþingismanna, afgerandi lagaleg sérstaða Íslands varðandi tjáningar- og upplýsingafrelsis og sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu. Og í Reykjavík er í gangi algjör gagnsæisbylting með umfangsmikilli stafrænni endurskipulagingu.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna var gefin út árið 2010. Þar lærðum við hversu djúpt græðgin hafði náð í íslensku samfélagi. En þrátt fyrir harðann skell var engan bilbug á fólki að finna og gerð var áætlun um að semja nýjan samfélagssáttmála. Nýja stjórnarskrá með áherslu á réttlátt samfélag.

Í miðri þeirri atburðarrás eru Píratar stofnaðir. Atburðarrás sem byrjaði á orðunum “Guð blessi Ísland” og lauk svo með ríkisstjórnarmyndun Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks árið 2013 þar sem meðal annars loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við ESB var svikið sem og niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá.

Blekkingarleikurinn var svo opinberaður alveg upp á nýtt árið 2016 með orðunum:

“It’s an unusual question for an Icelandic politician to get, it’s almost as being accused of something but I can confirm I have never hidden any of my assets” - Hver sagði þetta? (Sigmundur Davíð)

Þetta var svo afsakað með orðunum “Einhversstaðar verða peningarnir að vera” - munið þið hver sagði þessi orð? (Sigurður Ingi)

Síðan þá hafa spillingar- og aðhaldsmálin verið mörg. Rifjum upp fleiri mál. Munið þið hver sagði:

“Við eigum ekki endilega að setja mál eins og þetta ávallt í kosningasamhengi.” - Bjarni Benediktsson um skýrslu vegna eigna Íslendinga í skattaskjólum

Aðeins erfiðara dæmi: “Ég er líka sérfræðingur á þessu sviði” - Sigríður Á Andersen um Landsdómsmálið

Hvað með “Er saknæmt að gera mistök” - Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar á norðurlandi vestra.

Og svo síðasta dæmið: “Þetta eru ekki vinnubrögð sem við könnumst við” - yfirlýsing frá Samherja í kjölfar uppljóstrana um starfsemi Samherja í Namibíu.

Nú, 10 árum eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um að semja skuli nýja stjórnarskrá erum við enn með þá gömlu og 14 árum eftir bankahrunið enn að klúðra bankasölu. Kvótakerfið er enn að mala gull fyrir suma og dómararnir sem Sjálfstæðisflokkurinn skipaði ólöglega í Landsrétt enn að dæma þar. Næst á dagskrá hjá Flokknum er að búa til nýjar reglur um hvernig þau geta haldið áfram að selja banka.

Hvers vegna erum við enn að klúðra bankasölu? Af hverju er enginn að axla ábyrgð á því? Af hverju er búið að hunsa þjóðaratkvæðagreiðslu í heilan áratug? Kannski fáum við einhver svör við þeim spurningum frá okkar fróðu gestum í dag. Ég býð ykkur því velkomin aftur og opna þetta hátíðarmálþing í tilefni 10 ára afmælis Pírata.