Í ósamstæðum skóm
Oft er sagt – og sérstaklega í stjórnmálum – að við verðum öll að gera málamiðlanir. Það er í sjálfu sér alveg dagsatt, en það er hins vegar ekki algilt. Það er nefnilega ekki hægt að málamiðla um allt.
Tökum sem dæmi hjón á leið í veislu. Eiginmaðurinn vill fara í strigaskóm, en eiginmaður hans vill endilega að hann fari frekar í háhælaskóm. Hver væri málamiðlunin hér? Ætti maðurinn að fara í einum strigaskó og einum háhælaskó? Ætti hann kannski að skipta um skópar í miðri veislu? Nei, auðvitað ekki.
Málamiðlanir leiða því ekki alltaf til betri niðurstöðu fyrir allt samfélagið, því það er auðvelt að málamiðla illa. Núverandi stjórnarsamstarf er dæmi um slíka málamiðlun, því ef við skoðum hverju hún hefur skilað verður ekki komist að neinni góðri niðurstöðu.
Stjórnarliðar þreytast ekki á því að draga upp úr hattinum einhver mál sem þeim finnst lýsa lukkulegu hjónabandi flokkanna sem nú mynda ríkisstjórn. Flest mál fóru hins vegar í gegnum þingið með stuðningi minnihluta. Það segir okkur að þau mál hefðu hvort eð er farið í gegnum þingið þó ríkisstjórnin væri öðruvísi. Við þurfum að skoða öll hin málin til þess að skilja betur hvað þetta stjórnarsamstarf snýst um sem var ómögulegt að gera með nokkrum öðrum hætti.
Augljósasta dæmið er að fjármálaráðherra fékk að selja banka, þrátt fyrir allar vísbendingar um að það væri algerlega óboðleg málamiðlun. Ekki af því að ríkið þarf nauðsynlega að eiga tvo banka heldur af því að það var fyrirsjáanlegt að eitthvað færi úrskeiðis. Fyrst glataði ráðherra rúmlega 25 milljörðum af verðinu í vasa fjárfesta og svo tókst honum að selja hlut af bankanum til föður síns. Frábær málamiðlun fyrir forsætisráðherrastól.
Nú horfum við upp á stríðsyfirlýsingar gegn skipulagðri brotastarfsemi. Þessi frasi, eins og sá um málamiðlanirnar sem við verðum víst öll að gera, hljómar eins og eitthvað sem sé eðlilegt að gera. Skipulögð glæpastarfsemi er slæm, við verðum að berjast gegn henni. En stríð er líka slæmt og við verðum að koma í veg fyrir það með öllum ráðum.
Stríð gegn skipulagðri brotastarfsemi er stríð gegn fólki sem flest eru fórnarlömb ómanneskjulegs kerfis sem hafnar þeim á einn eða annan hátt. Fólk sem flosnar upp úr skóla af því að þau passa ekki í kassann. Erfiðar heimilisaðstæður af því að félagslega kerfið setur fólk í fátæktargildru. Geðheilbrigðismál sem fá enga lækningu.
En ríkisstjórnin heldur að lausnin sé stríð. Það virðist vera hægt að málamiðla um ýmislegt – eins og að það sé allt í góðu að selja pabba sínum smá banka – en það má ekki mæta fólki sem er hjálpar þurfi með öðru en ofbeldi. Þá eru góðar málamiðlanir skyndilega orðnar of dýrkeyptar fyrir stjórnarliða.