Efnisyfirlit

2022 11 15 Athugasemdir BR v skýrslu RE FINAL MEÐ LOGO.pdf

   14. nóvember 2022     16 mín lestur

Takk kærlega fyrir umsögnina þína um skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Mér fannst nafnið á skjalinu einstaklega uppljóstrandi; “2022 11 15 Athugasemdir BR v skýrslu RE FINAL MEÐ LOGO.pdf”.

brvrefinallogo.png

Eigið þið nokkuð drög af þessari skýrslu sem væri hægt að leka?

Umsögn ykkar er 46 blaðsíður af sjálfsvorkun sem ég þrælaði mér að lesa til enda, þrátt fyrir að það væri augljóslega tilgangslaust. Ég huggaði mig við það að þetta gæti að minnsta kosti verið skemmtilestur. Nafnið á skjalinu lofaði að minnsta kosti góðu.

1 Inngangur

Skemmtiefnið byrjar strax í inngangi umsagnar ykkar þegar þið segið:

Í fréttamiðlum hefur ríkisendurskoðandi lýst því yfir og verið skýr um að athugun Ríkisendurskoðunar hafi ekki leitt í ljós nein lögbrot í söluferlinu og engar athugasemdir þess efnis séu í skýrslunni.

Þar vísið þið í nokkrar fréttir máli ykkar til stuðnings. Það er eins og þið hafið ekki lesið skýrslu Ríkisendurskoðanda en þar stendur skýrt:

Það fellur utan hlutverks Ríkisendurskoðunar að taka afstöðu til ágreiningsefna um lagatúlkun og ber embættinu að gæta varúðar að álykta almennt um túlkun og skýringu laga, enda er öðrum aðilum falið það hlutverk að lögum

Allir sem lesa skýrsluna ættu að hafa séð þennan texta sem og öll þau atriði sem Ríkisendurskoðandi bendi á að samræmdist ekki lögum, án þess þó að fullyrt væri að um lögbrot væri að ræða. Í stuttu máli er lokaniðurstaða skýrslunnar: “Annmarkar söluferlisins sem Ríkisendurskoðun fjallar um í þessari úttekt eru fjölþættir og lúta bæði að undirbúningi og framkvæmd sölunnar”.

Þið vitið alveg jafn vel og ég að annmarkar við undirbúning og framkvæmd eru slæmir. Kannski munið þið eftir annmörkum við undirbúning og framkvæmd talningar atkvæða í Borgarnesi í síðustu kosningum. Þó niðurstaðan þar hafi verið að engin lög hafi verið brotin þá er enginn neitt rosalega sáttur við hvernig það mál fór.

Svo segið þið:

Þótt vissulega megi ráða af lestri skýrslunnar í heild að hún feli ekki í sér niðurstöðu um lögbrot af hálfu Bankasýslu ríkisins eða ráðherra, er það ekki beinlínis sagt berum orðum; á nokkrum stöðum er jafnvel látið að því liggja að önnur sé raunin. Það er óheppilegt og síst til þess fallið að stuðla að upplýstri umræðu um málið.

Nei, það er bara ekkert óheppilegt við það. Það er bókstaflega starf Ríkisendurskoðanda. Lögin um Ríkisendurskoðanda segja:

Ríkisendurskoðandi skal upplýsa Alþingi og stjórnvöld um málefni sem varða rekstur og fjárreiður ríkisins, leiða í ljós frávik frá lögum og reglum á því sviði og gera tillögur að úrbótum, bættri stjórnsýslu, skýrari ábyrgð og betri nýtingu ríkisfjár

Það sem er óheppilegt er að klúðra undirbúningi og framkvæmd 50 milljarða króna sölu á ríkiseign.

Meira frá ykkur:

Við yfirferðina kom í ljós að verulega skorti á að Ríkisendurskoðun hefði óskað eftir og byggt vinnu sína á fullnægjandi upplýsingum og gögnum og kom Bankasýsla ríkisins ítarlegum athugasemdum á framfæri af þessu tilefni.

Þetta er rosalega kaldhæðnislegt. Sjá í skýrslu Ríkisendurskoðunar:

Hugtakanotkun og upplýsingagjöf í þeim gögnum sem Bankasýslan og fjármála- og efnahagsráðuneyti lögðu fyrir Alþingi voru ekki til þess fallin að draga upp skýra mynd af tilhögun söluferlisins.

Og meira:

Ekkert í kynningargögnum Bankasýslunnar eða fjármála- og efnahagsráðuneytis í aðdraganda sölunnar gaf til kynna að aðkoma erlendra fjárfesta að kaupunum myndi hafa slíkt vægi við ákvörðun um endanlegt söluverð.

Og enn ítarlegri gögn:

Engar athugasemdir bárust frá Bankasýslunni í umsagnarferli Ríkisendurskoðunar þess efnis að skjalið sem stofnunin sendi embættinu í maí 2022 endurspeglaði ekki þá tilboðabók sem ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð og magn byggði á.

Og svo framvegis.

Ég var á fundum fjárlaganefndar þar sem þið kynntuð væntanlega sölu og ég get auðveldlega fullyrt að það var verulegur skortur á gögnum. Þessi umsögn ykkar er innihaldsríkari en kynningin sem við fengum fyrir söluna og þá er mikið sagt.

2 Fjárhagsleg niðurstaða ríkissjóði hagfelld

En nóg um innganginn. Skoðum umfjöllun ykkar um fjárhagslega niðurstöðu sölunnar. “Söluverð hlutanna var ríkinu ákaflega hagstætt”. Til að byrja með er það engin afsökun fyrir því að klúðra jafnræði, hlutlægni og gagnsæi ferlisins. Það er alveg hægt að klúðra framkvæmdinni en ná samt nokkurn vegin réttu verði. Sjá aftur framkvæmd kosninga í Borgarnesi. Verðið var auðveldi hlutinn í þessu þar sem það var hvort eð er komið markaðsvirði og það er svo sem alveg hægt að rífast um nokkrar krónur á hlut til eða frá en það er í rauninni tilgangslaust. Sérstaklega miðað við hversu mikið klúður var á verðinu í frumútboðinu. Þar erum við jafnvel að tala um 25 milljarða króna tapaðar tekjur. Það er því mjög skrítið að hrósa sér fyrir að ná markaðsvirði sem var þegar þekkt stærð. 7 ára dóttir mín hefði getað náð því verði.

Þannig er það mat Bankasýslu ríkisins að við undirbúning og framkvæmd sölumeðferðarinnar hafi meginreglum 3. gr. laga nr. 155/2012 um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum verið fylgt í hvívetna með opnu söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni, svo og sanngjörnum skilyrðum og jafnræði meðal tilboðsgjafa.

Til að byrja með þá var þetta ekki opið söluferli. Ykkar eigið minnisblað segir “lokað”

tilbodsfyrirkomulag.png

Í frumvarpi að lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum er fjallað um tilboðssölu:

Ýmsar leiðir koma til greina við sölu á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum, t.d. almennt útboð verðbréfa, skráning bréfa fjármálafyrirtækis á skipulegum verðbréfamarkaði eða tilboðssala. Sala hluta með útboði eða skráning bréfa í kauphöll er ferli sem er frábrugðið hefðbundinni tilboðssölu. Sem dæmi er ekki um mat á einstaka tilboðum eða eiginlegar samningaviðræður við einstaka kaupendur að ræða þegar almennt útboð eða skráning bréfa fer fram.

Með öðrum orðum, þegar tilboðssala er notuð er gert ráð fyrir mati á einstaka tilboðum eða jafnvel samningaviðræður við einstaka kaupendur.

Hvítbókin um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið er með enn eina lýsinguna á þessu söluferli, en þá hvítbók skrifaði meðal annars Lárus L. Blöndal. Þar segir:

Í minnisblaði Bankasýslu ríkisins til starfshópsins um mögulega fjárfesta á eignarhlutum ríkisins er komið inn á möguleikann á beinni sölu á öllum eða verulegum hluta í viðskiptabönkunum til eins eða hóps af fagfjárfestum/framtakssjóðum. Nefnd hafa verið dæmi um slíka sjóði fyrr í þessum IV. hluta Hvítbókarinnar. Sala Símans til fagfjárfesta á árinu 2005, er dæmi um þannig ferli hér á landi. Þannig mætti ekki útiloka að eitt einstakt félag, íslenskt eða erlent, hefði áhuga á að kaupa banka. Erlendis er orðið að alþekkt að flugfélög, matvörukeðjur eða önnur stór fyrirtæki eigi banka. Bankasýslan bendir þó á að aðrar söluaðferðir rími betur við markmið í eigendastefnu og lögum þar sem slíkir fagfjárfestar geri oft háa ávöxtunarkröfu sem endurspeglist í lágu kaupverði. Þá telur stofnunin að slíkir fjárfestir einblíni um þessar mundir fremur á fyrirtæki á sviði fjártækni og greiðslumiðlunar en hefðbundna banka. Í ljósi áskilnaðar um að söluferlið skuli vera opið og jafnfræði meðal kaupenda er heldur ekki jafn fýsilegt að ráðast í lokað söluferli til valdra fjárfesta. Slíkt sala yrði þá ávallt að vera í opnu ferli, í samræmi við lög um sölumeðferð eignarhlutar ríkisins í fjármálafyrirtækjum

Í svörum við fyrirspurn fjárlaganefndar segir svo enn fremur:

Það er samdóma álit allra ráðgjafa og Bankasýslu ríkisins að tilboðsfyrirkomulag sé ákjósanlegasta leiðin að því markmiði. Framangreint fyrirkomulag er því heimilt skv. lögum nr. 155/2012. Það er þó ljóst að slíkt fyrirkomulag er ekki að fullu í anda meginregla laga nr. 155/2012 um opið söluferli og gagnsæi.

Eða eins og Ríkisendurskoðandi kemst að:

Bankasýsla ríkisins var meðvituð um að fyrirkomulagið væri ekki að fullu í anda meginreglna laga nr. 155/2012 um opið söluferli og gagnsæi, en í minnisblaðinu kom fram að ákveðnir fjárfestar nytu betri réttinda umfram aðra auk þess sem almenningur gæti ekki tekið beinan þátt. Þar með væri fullt jafnræði bjóðenda ekki tryggt.

Að lokum vitnið þið í ykkur sjálf, en á bls. 10 í þessari umsögn ykkar segið þið:

Segir að slík sala fari fram með lokuðu útboði til hæfra fjárfesta.

Það er kannski hægt að reyna að halda því fram að útboðið hafi verið opið meðal hæfra fjárfesta en það stenst heldur enga skoðun. Einmitt af því að jafnræði milli bjóðenda var ekki tryggt, það var ekkert hlutlægt mat sem var hægt að styðjast við. List, ekki vísindi, eins og fram hefur komið

3 Athugasemdir við stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar

Hérna byrjið þið að fjalla um muninn á reglum stjórnsýslunnar og einkaréttar og vísið í stjórnsýslulög og vísið í bls. 11 í frumvarpi til laga sem heimild með orðunum “Þannig gilda stjórnsýslulög almennt ekki um ákvarðanir stjórnvalda sem teljast einkaréttarlegs eðlis svo sem samninga á sviði einkaréttar.” Samt er ekkert fjallað um þetta álitaefni á þeirri blaðsíðu. Á bls. 15 er hins vegar að finna þennan texta:

Lögin taka ekki til þeirra ákvarðana stjórnvalda sem teljast einkaréttar eðlis. Má þar nefna kaup á vörum og þjónustu, þar með talda gerð samninga við verktaka. Þó er tekið fram í niðurlagi 1. gr. að ákvæði II. kafla um sérstakt hæfi gildi einnig um gerð samninga einkaréttar eðlis.

Fullyrðing ykkar um að stjórnsýslulög gildi ekki um samninga á sviði einkaréttar er því ekki rétt, ákvæði um sérstakt hæfi skiptir máli. Einnig ættuð þið að hafa lesið skýrslu starfshóps forsætisráðuneytisins um sölu ríkisins á eignarhlutum í fyrirtækjum frá árinu 2012 þar sem segir:

Til þess að tryggja réttaröryggi er mikilvægt að ljóst sé frá upphafi að reglur stjórnsýsluréttarins gildi um málsmeðferð við undirbúning að ráðstöfun eigna, þ.e. ákvörðun þeirra skilyrða sem sala skal bundin og um frágang á samningi um sölu eignarhluta. Rétt er að taka fram að um samninginn sjálfan geta auk þess gilt reglur samninga- og kröfuréttar.

Í lögum um Bankasýslu ríkisins þar sem segir einnig skýrum stöfum:

Bankasýsla ríkisins fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, í samræmi við lög, góða stjórnsýslu- og viðskiptahætti og eigendastefnu ríkisins á hverjum tíma, og leggur þeim til fé fyrir hönd ríkisins á grundvelli heimildar í fjárlögum.

Ríkisendurskoðun kemst að þeirri niðurstöðu einmitt að:

Bankasýslan hefði þurft að ákveða áður en söluferlið hófst með hvaða hætti skyldi leggja mat á tilboð ef önnur atriði en hæsta verð áttu að ráða. Æskilegt hefði verið að slík viðmið væru skráð og að fyrir lægi hvernig ætti að beita þeim. Undirbúningur af því tagi var nauðsynlegur í ljósi fjölbreytileika þeirra viðmiða sem stofnuninni var falið að taka tillit til, fjölda tilboðsgjafa í söluferlinu og þess skamma tíma sem gafst við úthlutun hlutabréfanna eftir að söfnun tilboða lauk. Slíkur undirbúningur hefði verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti og til þess fallinn að skapa traust á framkvæmd sölunnar.

Þessi niðurstaða er nákvæmlega í takt við fyrirmæli stjórnsýslulaga.

Að mati Bankasýslu ríkisins er það

alvarlegur galli á athugun Ríkisendurskoðunar, einkum í ljósi þess að hvergi kemur fram að ákvarðanir stjórnvalda í ferlinu hafi ekki samrýmst lögum og reglum sem um störf þeirra gilda þótt Ríkisendurskoðandi hafi nú staðfest að engin lög hafi verið brotin að hans mati.

Það þarf greinilega að stafa þetta fyrir ykkur, ríkisendurskoðun segir:

Bankasýslan hefði þurft að ákveða áður en söluferlið hófst með hvaða hætti skyldi leggja mat á tilboð ef önnur atriði en hæsta verð áttu að ráða.”

Ég skal segja það upphátt. Þetta þýðir að þið fóruð ekki eftir stjórnsýslulögum í undirbúningi sölunnar.

Þið vísið í evrópureglugerð til þess að rökstyðja að tilboðsfyrirkomulag falli undir skilgreiningu almenns útboðs:

enda fellur tilboðsfyrirkomulag undir skilgreiningu almenns útboðs samkvæmt lögum nr. 14/2020, sbr. einnig d. lið 1. mgr. 2. gr. lýsingarreglugerðarinnar,

Þessi d. liður reglugerðarinnar hljómar svona:

d) „almennt útboð“: hvers kyns boð til aðila, í hvaða formi og með hvaða hætti sem er, þar sem fram koma nægjanlegar upplýsingar um skilmála útboðs og verðbréfin sem eru boðin til kaups til að fjárfesti sé kleift að ákveða að kaupa eða að láta skrá sig fyrir þeim verðbréfum. Undir þetta falla einnig verðbréf sem eru markaðssett og/eða seld fyrir tilstilli fjármálamilliliða,

Ríkisendurskoðun svaraði þessu skýrt í skýrslu sinni á blaðsíðum 46 og 47 og kemst að eftirfarandi niðurstöðu og vísar nánari athugun til Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands:

Ríkisendurskoðun telur að ekki hafi verið nægilega vel vandað til gerðar sölusamnings þess sem Bankasýslan gerði við umsjónaraðila, söluráðgjafa og söluaðila sína hvað 3. viðauka varðar.

Varðandi val á söluaðferð fullyrðið þið svo að

Svo virðist sem Ríkisendurskoðun hafi hins vegar yfirsést þetta atriði. Allavega er ábending stofnunarinnar að þessu leyti illa ígrunduð að mati Bankasýslu ríkisins. Yrði henni fylgt yrði um of þrengt að svigrúmi ríkisins til að hámarka afrakstur af sölu eigna af því tagi sem hér um ræðir.

Nei, það sem var illa ígrundað var undirbúningur ykkar á framkvæmd sölunnar með tilboðsfyrirkomulagi. Eins og Ríkisendurskoðun bendir á:

Ekki var fjallað um skilyrði eða frekari skilgreiningu á mögulegum kaupendahópi. Greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra vegna framhalds á sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka innihélt sömuleiðis enga frekari skilgreiningu á mögulegum kaupendahópi. Á einum stað var þó vísað til hans sem „hæfra fagfjárfesta“. Hugtakið hæfur fagfjárfestir er hvergi að finna í lögum.

Ástæðan fyrir því að þetta er ámælisvert, útskýrir Ríkisendurskoðun síðan svona:

Bankasýsla ríkisins var meðvituð um að fyrirkomulagið væri ekki að fullu í anda meginreglna laga nr. 155/2012 um opið söluferli og gagnsæi, en í minnisblaðinu kom fram að ákveðnir fjárfestar nytu betri réttinda umfram aðra auk þess sem almenningur gæti ekki tekið beinan þátt. Þar með væri fullt jafnræði bjóðenda ekki tryggt.

Þrátt fyrir að þið vissuð að ákveðnir fjárfestar nytu betri réttinda umfram aðra þá gerðuð þið ekkert til þess að tryggja jafnræði miðað við þær aðstæður. Stjórnvöld hafa meira að segja viðurkennt þessi mistök:

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 19. apríl 2022 kom jafnframt fram að framkvæmd sölunnar hafi ekki staðið að öllu leyti undir væntingum stjórnvalda, m.a. um gagnsæi og skýra upplýsingagjöf.

Það er enginn að efast um að það mætti selja með tilboðsaðferð. Það þarf bara að gera það rétt og ykkur mistókst það. Klúður á framkvæmd, eins og áður hefur komið fram.

Þegar þið fjallið um misræmið á hugtakanotkuninni “hæfur fjárfestir” og “hæfur fagfjárfestir” segið þið:

Á bls. 33 dregur Ríkisendurskoðun þó þær víðtæku ályktanir að með þessu hafi verið „hætta á að meðlimir þingnefndanna tveggja sem fjölluðu um málið, og aðrir sem vildu kynna sér áform um söluferlið, stæðu í þeirri trú að þar væri eingöngu um að ræða fjárfesta sem hafa að aðalstarfi að fjárfesta í fjármálagerningum“. Ekki hefur verið sýnt fram á að forsendur séu til að draga svo víðtækar ályktanir af ferlinu og skortir á að það sé skoðað heildstætt.

Ég var á þessum nefndarfundum og get svo sannarlega tekið undir þessar ályktanir. Enda segir í minnisblaði ykkar:

Ef fyrst er vikið að innlendum fjárfestum, þá telur Bankasýsla ríkisins að eftirlitsskyldir aðilar eins og lífeyrisssjóðir, sjóðir rekstrarfélaga og tryggingarfélög hafi bolmagn og áhuga. Þá telur stofnunin að sama gildi um einstaklinga, sem teljast til hæfra fjárfesta.

Lykilorðið hérna er bolmagn. Það gefur það í skyn að þetta séu aðilar sem geti keypt mikið magn hluta og að það sama gildi um einstaklinga, sem teljast til hæfra fjárfesta. Að þessir hæfu fjárfestar hafi einnig bolmagn og áhuga. Þetta er lýsing ykkar á tilvonandi fjárfestum.

Önnur lýsing á tilvonandi fjárfestum er að finna í framtíðarstefnu Bankasýslunnar. Þar er kafli sem heitir “sala til fagfjárfesta” þar sem segir meðal annars:

Bankasýsla ríkisins mun vega og meta kosti þess að selja eignarhluti til innlendra lífeyrissjóða, annarra fagfjárfesta, eða sérhæfðra alþjóðlegra fjárfesta í fjármálafyrirtækjum. Sala til slíkra aðila færi einnig fram að undangengnu opnu söluferli. Þess ber að geta, að allir fjárfestar, sem vilja eignast ráðandi hlut í fjármálafyrirtæki, þurfa að vera metnir hæfir eigendur af FME, sbr. lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Framtíðarstefnan rímar vel við notkun ykkar á orðinu bolmagn í minnisblaðinu. Fjárfestar sem eiga mikinn pening eins og lífeyrissjóðir, sérhæfðir alþjóðlegir fjárfestar í fjármálafyrirtækjum, tryggingarfélög, sjóðir. Allir fjárfestar sem vilja eignast ráðandi hlut í fjármálafyrirtæki.

Samt segið þið:

Minnisblaðið er þannig skýrt af hálfu Bankasýslu ríkisins um að hugtakið „hæfir fjárfestar“ næði til víðari hóps en lífeyrissjóða og stofnanafjárfesta. Er því varla sanngjörn sú ábending Ríkisendurskoðunar að hætta hafi verið á að nefndarmenn sem fjölluðu um málið stæðu í þeirri trú að þar væri eingöngu um að ræða fjárfesta sem hafa að aðalstarfi að fjárfesta í fjármálagerningum.

Því að jú, það er nákvæmlega það sem fólk hélt. “Bolmagn og áhugi” og að það sama gildi um einstaklinga sem teljast til hæfra fjárfesta. Það kom nákvæmlega ekkert fram í kynningum ykkar eða ráðuneytisins sem gefur til kynna að fjárfestar sem þið þekkið ekki myndu bjóða milljónir hér og þar í þessu útboði. Enda kom það ykkur á óvart.

Enn fremur segið þið

Að minnsta kosti er ljóst að hér eru ekki ríkar kröfur gerðar til nefndarmanna þingsins um að viðkomandi kynni sér þau gögn sem til umfjöllunar eru hverju sinni.

Ég ætla að vera dónalegur þegar ég svara þessari fullyrðingu. Ég las framtíðarstefnu Bankasýslunnar. Ég skoðaði gögnin, margoft. Ég viðurkenni að ég las ekki evrópureglugerðirnar um skilgreiningu hæfra fagfjárfesta fyrr en eftir söluna ENDA Á ÞAÐ AÐ VERA ÓÞARFI AF ÞVÍ AÐ ÞIÐ EIGIÐ AÐ SINNA UPPLÝSINGASKYLDU YKKAR! Jafnvel eftir að ég las evrópureglugerðirnar skildi ég ekki hvernig þessir litlu tilboðsgjafar gætu flokkast sem hæfir fjárfestar þar sem gerðar eru kröfur um:

Eftirfarandi aðilar teljast fagfjárfestar:
a. Aðilar, hér á landi eða erlendis, sem hafa starfsleyfi eða sinna lögbundinni starfsemi á fjármálamörkuðum, þ.m.t. lánastofnanir, verðbréfafyrirtæki, fjármálastofnanir, vátryggingafélög, sjóðir um sameiginlega fjárfestingu og rekstrarfélög þeirra, lífeyrissjóðir og rekstrarfélög þeirra eftir því sem við á, seljendur hrávöru og hrávöruafleiðna, staðbundnir aðilar og aðrir stofnanafjárfestar.
b. Stór fyrirtæki sem uppfylla a.m.k. tvö eftirfarandi skilyrða hvað varðar fjárhæðir, sem miða skal við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni:

  1. Heildartala efnahagsreiknings er jafnvirði 20 millj. evra í íslenskum krónum eða hærri.
  2. Hrein ársvelta er jafnvirði 40 millj. evra í íslenskum krónum eða meiri.
  3. Eigið fé er jafnvirði 2 millj. evra í íslenskum krónum eða meira.
    c. Ríkisstjórnir, héraðsstjórnir, seðlabankar og alþjóðastofnanir, svo sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Seðlabanki Evrópu, Fjárfestingarbanki Evrópu og aðrar sambærilegar alþjóðastofnanir.
    d. Aðrir stofnanafjárfestar sem hafa það að aðalstarfi að fjárfesta í fjármálagerningum, þ.m.t. aðilar sem fást við verðbréfun eigna eða önnur fjármögnunarviðskipti.
    e. Aðilar sem samþykktir hafa verið sem fagfjárfestar skv. 54. gr.

Styrinn stendur um e. liðinn þarna. Aðilar sem samþykktir hafa verið sem fagfjárfestar skv. 54. gr:

Til að farið verði með viðskiptavin sem fagfjárfesti samkvæmt þessari grein skal hann uppfylla a.m.k. tvö af eftirfarandi skilyrðum:
1. Hann hafi átt umtalsverð viðskipti á viðeigandi markaði næstliðna fjóra ársfjórðunga, að meðaltali a.m.k. tíu sinnum á hverjum ársfjórðungi.
2. Verðgildi fjármálagerninga og innstæðna fjárfestis nemi samanlagt meira en jafnvirði 500.000 evra í íslenskum krónum, miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
3. Fjárfestir gegni eða hafi gegnt, í a.m.k. eitt ár, stöðu í fjármálageiranum sem krefst þekkingar á fyrirhuguðum viðskiptum eða þjónustu.

Hérna hafði ykkar eigin fjármálaráðgjafi eitthvað um málið að segja, eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar:

Samkvæmt upplýsingum frá m.a. fjármálaráðgjafa Bankasýslunnar er óvenjulegt að einkafjárfestum sem samþykktir hafa verið sem fagfjárfestar skv. 54. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga sé boðin þátttaka í sölu með tilboðsfyrirkomulagi

Þannig að nei. Þrátt fyrir að fólk kynni sér gögnin þá er nákvæmlega ekkert sem gefur til kynna að þeir fjárfestar sem fengu að kaupa fyrir örfáar milljónir hafi átt að vera hluti af þessu útboðsferli. Ég endurtek, þið viðurkennið að það hafi komið ykkur á óvart. Þið gerðuð ekki ráð fyrir því sjálf. Þið klúðruðu undirbúningnum og þið fáið svo sannarlega ekki að skella skuldinni á þingið sem fékk bara eina viku til þess að fjalla um málið.

Vitið þið … ég er bara rétt hálfnaður með þessa umsögn ykkar og enn stendur ekki steinn yfir steini og ég er kominn upp í átta blaðsíður af útskýringum af hverju svo sé. Afgangurinn af umsögninni er á nákvæmlega sömu nótum og ég væri bara að æra óstöðugan að skrifa meira um þessa umsögn ykkar. Ég ætla því að láta staðar numið hér. Það þarf að semja við mig til þess að fá season 2 af yfirferð á þessari umsögn ykkar.