Að koma auga á óheiðarleika ...
… er mjög erfitt þegar hann er snilldarlega falinn.
Flestir sem lesa þetta kinka væntanlega kolli innan í sér og segja, já. Þegar óheiðarleiki er snilldarlega falinn er erfitt að átta sig á því. Vandinn er að þetta er ekki alveg rétt. Það er líka erfitt að sjá hvað er ósatt sem er vel falið.
Þetta er gríðarlegt vandamál í stjórnmálum því margt stjórnmálafólk lýgur, blekkir, villir um og snýr út úr. Sumt minna, annað meira. Trump, til dæmis, lýgur víst meira (oftar) en hann mígur miðað við fjölmargar talningar. Samt fékk hann næstum 47% atkvæða í kosningum. Spurningin hlýtur því að vera, hvers vegna í ósköpunum kjósum við fólk sem lýgur að okkur? Rannsóknir sýna að við áttum okkur bara á því hvað er logið í rétt tæplega helmingi tilfella. Er það af því að við áttum okkur ekki á því hvað er satt eða logið? Eða þó að við áttum okkur á því, er okkur sama? Kannski af því að við teljum bara að allt stjórnmálafólk ljúgi eins mikið að þegar upp kemst um einn, þá skipti það ekki máli því hin eru alveg jafn óheiðarleg?
Það er skoðun margra en ég efast um að það sé skoðun flestra. Ég held að ef valið stæði milli tveggja jafn góðra kosta, þá myndi fólk velja þann sem lýgur ekki að þeim. Mjög margir myndu meira segja velja lakari kostinn ef það væri sá sem segði satt, held ég.
En þá stöndum við frammi fyrir því að við erum mjög léleg í því að greina hvað er satt og logið. Við gætum frekar varpað hlutkesti en treyst eigin dómgreind þegar kemur að því að átta okkur á því að lygi sé lygi. Sem betur fer þurfum við yfirleitt ekki að treysta eigin dómgreind. Þegar það skiptir máli, þá eru til gögn sem sýna fram á lygina.
Mig langar til þess að gefa dæmi um snilldarlega vel falinn óheiðarleika vegna sölunnar á Íslandsbanka. Fjármálaráðherra spurði margoft um kaup föður síns á hlut í Íslandsbanka: „Var honum bannað að kaupa?“.
Svarið er nei. En þar er ekki óheiðarleikinn í spurningunni. Óheiðarleikinn er að þetta er röng spurning. Rétta spurningin er „mátti ég selja föður mínum ríkiseign?“ og svarið þar er nei, það mátti fjármálaráðherra ekki. Auðvitað ekki. Það sjá allir hagsmunaáreksturinn þar.
Bjarni sagði í umræðu um bankasöluna: „Ef einhverjir þátttakendur í þessu ferli, sem hafa samninga og hlutverk, brjóta af sér í ferlinu og virða ekki trúnað, misfara með upplýsingar eða eru sekir um hagsmunaárekstra þá verður að sjálfsögðu tekið á því með viðeigandi hætti“. Nú þegar skýrslan um söluna á Íslandsbanka verður rædd í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í dag og í þinginu á morgun er spurning hvort fjármálaráðherra standi við orð sín.
Hvað heldur þú? Verður tekið á því með viðeigandi hætti?