Efnisyfirlit

Lýðræðisveisla hinna útvöldu.

   4. nóvember 2022     1 mín lestur

“Við erum með bestu hugmyndirnar” sagði Guðlaugur Þór þegar hann kynnti framboð sitt til formanns Sjálfstæðisflokksins sem fram fer “í stærstu lýðræðisveislu landsins” næstu helgi. Reyndar er lýðræðisveislan ekki öllum flokksmönnum aðgengileg. Lýðræðisveislan er fyrir útvalda fulltrúa.

Snilldarhugmyndir Sjálfstæðisflokksins hafa falist í því að hlutast til um að skipa útvalda flokkshesta í stöðu dómara, selja útvöldum ríkiseignir, forða eigum útvaldra úr sjóðum rétt fyrir hruni … og hrunið sjálft. Það er ekki snefill af efa í huga Guðlaugs Þórs að engu þarf að breyta.

Að mati Bjarna þarf að viðhalda stöðugleikanum. Sá meinti stöðugleiki felst í því að halda Sjálfstæðisflokknum við kjötkatlana - með Bjarna í fararbroddi. Annars færi allt til fjandans. Bjarni styður líka snilldarhugmyndir Sjálfstæðisflokksins. Þ.e.a.s. bestu hugmyndirnar fyrir suma - en klárlega ekki fyrir alla, alltaf, alls staðar. Hvert vandamál fyrir sig kerfst sérhæfðrar lausnar. Hamar er frábær til að lemja niður nagla, en hann skilar litlu við að fella tré.

Hamar Sjálfstæðisflokksins eru frelsi og lágir skattar. En þeir duga ekki til að fella tréð sem stendur á milli mismunandi hópa í samfélaginu. Frelsi fyrir hverja? Ekki fyrir fátækt fólk, eldri borgara eða öryrkja sem ná ekki endum saman í óðaverðbólgu og hækkandi stýrivöxtum. Ekki fyrir flóttafólk sem er hent með valdi úr landi í skjóli nætur. Þau búa ekki í “landi tækifæra” Sjálfstæðisflokksins. Það er land tækifæranna fyrir útvalda.

Hinir útvöldu borga hlutfallslega lægstu skattana. Launþegar og lífeyrisþegar borga nánast tvöfaldan skatt á við þann sem nærist á fjármagnstekjum. Launþegar og lífeyrisþegar greiða líka hlutfallslega mest til velferðarsamfélagins. Þau sem þurfa að eyða hverri krónu til að lifa af greiða svo aftur af þeim skatt meðan tekjur fjármagnseigenda safna vöxtum og arði. Snilldarhugmyndir - fyrir hina útvöldu.

Sjálfstæðisflokkurinn þolir ekki báknið, eins og hann sé ekki sjálfur arkitekt þess til áratuga. Báknið sem tryggir frelsi hinna útvöldu frá sköttum og afskiptum ríkisins. Frelsi til að að stunda kennitöluflakk, fara með peninga í skattaskjól og tryggja útgerðinni milljarða í arð af sameiginlegri auðlind landsmanna. Frelsi fjármagnseigenda og útgerðarmanna til að skrifa tékka til Sjálfstæðisflokksins í prófkjörum og formannsslögum.

Svokölluð lýðræðisveisla Sjálfstæðisflokksins um helgina endurspeglar einmitt snilldar hugmyndir þeirra um lýðræðið og frelsið. Lýðræði og frelsi hinna útvöldu.

Ég get alveg tekið undir það að athafnafrelsi og lágir skattar eru góð hugmynd. Sérhagsmunir skemma hins vegar fyrir og útkoman er bara frelsi fyrir suma.