Efnisyfirlit

Þarf ný útlendingalög?

   25. október 2022     2 mín lestur

Í gær var rætt á þingi útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar. Þar er “vandinn” lagður upp sem svo að “fjölgun umsókna undanfarinn áratug sýnir hversu mikilvægt er að stjórnvöld geti brugðist við, eftir atvikum með laga- og reglugerðarbreytingum, og aðlagað verndarkerfið að þeirri þróun sem á sér stað á hverjum tíma. Verndarkerfið þarf að vera í stakk búið og byggt þannig upp að þeir sem raunverulega eiga rétt á alþjóðlegri vernd fái skjóta og mannúðlega afgreiðslu mála sinna. Á sama tíma er nauðsynlegt að tryggja að misnotkun á kerfinu sé í lágmarki.”

Vandinn er að það er hvergi útskýrt hvernig er verið að misnota kerfið né hvernig frumvarpið kemur í veg fyrir meinta misnotkun. En svo er mál með vexti að einhver fjöldi flóttafólks er kúgaður af óprúttnum aðilum. Við vitum ekki hversu margir það eru en við vitum að það er ekki flóttafólkið sem er að misnota kerfið heldur er verið að misnota flóttafólkið.

Það er fullyrt að það þurfi að aðlaga verdarkerfið að þeirri þróun sem hefur átt sér stað, en það er algerlega óskiljanlegt hvernig þær breytingar sem lagðar eru fram koma til móts við meinta þróun. Það eru allir sammála því að það sé mikil þörf á skjótri og mannúðlegri afgreiðslu en það er heldur ekki hægt að skilja hvernig þeim markmiðum er náð með þessu frumvarpi.

Frumvarpið kjarnar þó það sem allir eru sammála um, að: “flóttamannakerfið er neyðarkerfi ætlað fólki sem óttast um líf sitt og frelsi. Nauðsynlegt er að tryggja að þeir einstaklingar sem hingað leita og þarfnast raunverulega verndar gegn ofsóknum fái vandaða og skjóta úrlausn mála sinna og komist þannig fyrr út úr umsóknarferlinu og geti aðlagast samfélaginu. Samandregið er frumvarp þetta því liður í nauðsynlegri endurskoðun laganna og felur í sér efnismeiri breytingar varðandi móttöku og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd en gerðar hafa verið til þessa.”

Það er nefnilega það síðasta sem við viljum að gerist að hér komi einhver sem á tvímælalaust rétt á vernd og hjálp og sé, vegna gífurlega hagkvæms og skilvirks kerfis, vísað í burt. Dómsmálaráðherra talar nefnilega um að hér ríki stjórnleysi í þessum málaflokki og ætlar að herða reglur. En það er hvergi útskýrt gagnvart hverjum reglurnar eru hertar og læðist því grunur að það eigi að gerast gagnvart öllum nema kannski fólki frá Úkraínu. Ef svo, þá verða líkurnar á því að fólki verði snúið við á flugvellinum sem raunverulega á rétt á vernd samkvæmt lögum.

En ekkert bendir til þess að þetta frumvarp muni koma til með að breyta einu né neinu. Hvorki um meint stjórnleysi né meinta misnotkun. Það eru frekar vísbendingar um að reglurnar verði hertar á þann hátt að það muni útiloka fólk sem á í raun og veru rétt á vernd.