Efnisyfirlit

Velferðarríkið Ísland?

   17. október 2022     2 mín lestur

Stjórnvöld nota stór orð um velferð á Íslandi í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Þar er talað um sterka stöðu heimilanna, auknar ráðstöfunartekjur og áætlanir um að verja afkomu og lækka verðbólgu. Nánar tiltekið að: “áfram staðinn vörður um viðkvæma hópa og unnið gegn verðbólgu með því að bæta afkomu ríkissjóðs”.

En hvernig er áfram verið að standa vörð um viðkvæma hópa? Jú, lífeyrir almannatrygginga er hækkaður til jafns við verðbólgu (sem á hvort eð er að gera lögum samkvæmt), húsnæðisbætur eru hækkaðar um 10% (sem er minni en verðbólguhækkun) og gefinn var sérstakur barnabótaauki (sem er lægri en verðbólguhækkunin líka). Hérna er engin pólitík, þetta er einfaldur samanburður á tölum.

Ef við skoðum barnabæturnar nánar, þá er hægt að nálgast tölurnar á vefsíðu Skattsins. Fjárhæðir ársins 2022 voru 205 þúsund krónur með fyrsta barni fyrir hjón árið 2017 og ættu að vera miðað við verðbólguþróun um 260 þúsund krónur. Barnabætur ársins 2022 voru hins vegar 248 þúsund. Sérstökum barnabótaauka hefur hins vegar verið bætt þarna við á undanförnum þremur árum sem nær framlagi hvers árs umfram verðbólguþróun. En af því að grunnurinn er ekki hækkaður þýðir það lækkun um leið og það er ekki lagt fram einsskiptis reddingarframlag.

En kaupmáttaraukningin? Nær hún ekki að dekka mismuninn og rúmlega það? Ríkisstjórnin segir “60 þúsund króna kaupmáttaraukning frá 2016 umfram verðbólgu”. En kaupmáttur dreifist ekki jafnt. Gögn hagstofunnar sýna augljósa breytingu á ráðstöfunartekjum milli tekjutíunda á árunum 2020 og 2021 (https://bggj.is/skattagogn.html) þar sem fólk með hærri tekjur er að taka til sín stærri hluta kökunnar. Fólk í 4. tekjutíund er með tæplega 335 þúsund á mánuði 2021 en tæplega 270 þúsund árið 2017. Fólk í efstu (10.) tekjutíund er með tæplega 2 milljónir á mánuði árið 2021 en var með rúmlega 1,6 milljónir árið 2017. Semsagt, fólk rétt undir meðaltekjum hækkaði um 65 þúsund í ráðstöfunartekjum á meðan fólkið með mestu tekjurnar hækkaði um næstum 400 þúsund í krónum á verðlagi hvers árs.

Þegar stjórnvöld segja “60 þúsund krónur” þá þurfum við að spyrja okkur hverjir eru að fá þessar krónur, hvernig dreifast þær? Í krónum talið á sama tímabili hefur leiguverð til dæmis hækkað um rúmlega 700 krónur fyrir fermetra á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum, rúmlega 70 þúsund krónur fyrir 100 fermetra íbúð. Verðbólgan hefur nefnilega mismikil áhrif á tekjuhópa og það skiptir engu hvað efsta tekjutíundin er með í tekjur ef markmiðið er að verja viðkvæma hópa. Meðaltal þar sem ríkasta fólkið er með segir okkur ekkert. Ég hef beðið fjármálaráðuneytið um betri greiningu og er enn að bíða eftir svari. Svona óheiðarleg framsetning segir okkur nefnilega ekkert.