Kjördæmavika
Í þessari viku hefur hlé verið gert á þingstörfum út af einhverju sem nefnist kjördæmavika. Þrátt fyrir að það sé nýbúið að kalla saman þing eftir um þriggja mánaða hlé. Það sama er einnig gert í febrúar, þegar nýbúið er að kalla þing saman eftir um mánaðar jólahlé. En hver er eiginlega tilgangur þessarar kjördæmaviku, og af hverju eru þingmenn alltaf í hléi frá Alþingi?
Tilgangur kjördæmaviku er í raun og veru að þingmenn geti farið í kjördæmi sín og hitt fólk. Geta þingmenn ekki verið að hitta allt þetta fólk bara í þinghléinu? Jú, en raunin er sú að áður fyrr þurftu þingmenn í raun og veru að hitta fólk svona stuttu eftir þingsetningu til þess að kynna ný þingmál fyrir fólki. Þetta fyrirkomulag var nefnilega búið til þegar eina leiðin til þess að senda inn umsögn um þingmál var að póstleggja bréf. Það var einfaldlega fljótlegast fyrir þingmenn að heimsækja fólk á fundi í heimahéraði, til að kynna mál sín og sérstaklega mál annarra.
Kerfið er semsagt hugsað þannig að þing er kallað saman og þingmenn leggja fram málin sín. Það þarf að ræða þau í fyrstu umræðu á þingi og senda þau svo til umsagnar. Svo þarf að bíða í tvær til þrjár vikur þangað til umsagnir berast. Á meðan hafði þingið ekkert að gera og því var alveg jafn gagnlegt að senda þingmenn bara aftur heim þangað til umsagnir skiluðu sér og hægt væri að halda áfram að vinna að þingmálunum, nú með umsögnum frá hagsmunaaðilum, sérfræðingum og almenningi.
Í dag eru málin miklu fleiri. Samskiptin hraðari. Verkefni þingsins fjölbreyttari … en samt er enn kjördæmavika. Einfaldlega af því að þannig var það áður.
En sem betur fer er kjördæmavika meira en bara biðtími eftir umsögnum. Þingmenn fara í mjög gagnlegar ferðir um allt land og hitta sveitarstjórnir, stofnanir, fyrirtæki og fólk. Einmitt til þess að ná tengingu vegna hinna ýmsu mála sem brenna á fólki.
Úr þessum ferðum verða til þingmál, fyrirspurnir og ábendingar um hvað megi betur fara. Kjördæmavika er svo miklu meira en bara frí fyrir þingmenn, þó einhverjum kunni að virðast það utan frá. Ég hef verið á stanslausum fundum í Reykjavík, Hveragerði, Selfossi og á Höfn í Hornafirði það sem af er þessari kjördæmaviku. Ég er að skrifa þennan pistil eftir miðnætti af því að það var enginn annar tími í dagskránni sem bauð upp á svigrúm til greinaskrifa. Aðrir í þingflokki Pírata eru að fara á Vestfirði, Suðurnes og víðar. Því miður komumst við ekki út um allt á einni viku og ég veit að margir sakna okkar og við þeirra. En það er alltaf næsta kjördæmavika.