Efnisyfirlit

Lögmæt fyrirmæli

   28. september 2022     2 mín lestur

Í gær mælti Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fyrir einfaldri breytingu á lögreglulögum. Frumvarpið snýst um að bæta orðinu “lögmætum” við 19. grein laganna. Greinin mun þá segja: “Almenningi er skylt að hlýða lögmætum fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri”.

Það ætti að vera augljóst að þegar lögreglan gefur fólki fyrirmæli, að þau fyrirmæli þurfi að vera lögmæt. Lögreglan á ekki að hafa geðþóttavald til þess að ráðskast með fólk. Lögreglan þarf að hafa ástæðu, nánar tiltekið lögmæta ástæðu, til þess að gefa fólki fyrirmæli sem er refsing við að óhlýðnast.

Í greinargerð frumvarpsins eru dæmi um refsingar við að fylgja ekki tilmælum lögreglu. Til dæmis þegar fólk safnaðist saman til friðsamlegra samstöðumótmæla við Alþingishúsið sem lögreglan leysti upp því talið var að mannsöfnuðurinn torveldaði aðgengi að aðalinngangi hússins. Sama var upp á teningnum við mótmæli gegn framkvæmdum í Gálgahrauni. Greinin virðist því sérstaklega vera notuð gegn friðsömum mótmælum, sem er áhugavert út af fyrir sig.

Þetta mál má skoða í samhengi við annað mál sem hefur verið í umræðunni en það eru forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu. Í því máli er einmitt verið að reyna að gefa lögreglu heimildir til njósna án þess að lögreglan þurfi að rökstyðja sérstaklega hvers vegna þörf er á slíkum aðgerðum.

Við hljótum að gera þá kröfu til lögreglunnar, sem á að starfa í þágu okkar allra, að henni sé skylt að rökstyðja aðgerðir sínar. Til þess að við getum verndað þau réttindi sem við höfum, gegn aðgerðum þeirra sem vilja ganga á þau réttindi, er nauðsynlegt að gagnsæi ríki um ástæður aðgerðanna. Sögulega eru nefnilega til mörg dæmi þar sem slíkar heimildir lögreglu hafa verið misnotaðar. Eitt ýktasta dæmið um svona heimildir um þessar mundir er siðferðislögreglan í Íran sem beitir ofbeldi til þess að kúga konur.

Það þarf að sýna því valdi sem við gefum aðilum eins og lögreglunni virðingu, því þetta vald getur valdið gríðarlegum skaða ef það er farið illa með það. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að misnotkun valds getur gerst hvenær sem er og hvar sem er, bæði viljandi og óviljandi.

Þegar ég segi að við þurfum að sýna valdinu virðingu, þá á ég við að fólkið sem hefur valdið þarf að haga sér af virðingu gagnvart því valdi sem þau geta beitt. Við hin eigum hins vegar stöðugt að vantreysta þeim sem beita valdi. Stöðugt að krefja valdhafa um rök fyrir valdbeitingum. Stöðugt að krefjast ábyrgðar þegar illa er farið með vald.

Þess vegna leggjum við Píratar til að lögreglulög verði lagfærð, að lögreglan þurfi að rökstyðja það þegar hún gefur fólki tilmæli. Að fyrirmæli lögreglu þurfi ávallt að vera lögmæt.