Píratar í áratug og meira
Píratahreyfingin er 16 ára gömul á heimsvísu en 10 ára gömul á Íslandi. Árið 2013 tóku Píratar fyrst þátt í alþingiskosningum á Íslandi og fengu rétt rúmlega 5%, þrjá þingmenn og náðu þannig yfir þröskuldinn hræðilega sem gefur rétt til jöfnunarþingmanna. Nú eru þingmenn Pírata sex og áhrif grunnstefnu Pírata á íslenska pólitík er óneitanleg.
Upphaf Pírata má rekja til andspyrnu við fyrirætlanir yfirvalda um að stunda gerræðislegar njósnir á netverjum með það að markmiði að koma í veg fyrir ólöglegt niðurhal á tónlist. Á Íslandi birtist þetta meðal annars sem vangaveltur þáverandi innanríkisráðherra um að banna dulkóðun til þess að koma í veg fyrir dreifingu kláms. Undirtónninn þar er að ef það er engin dulkóðun að þá sé hægt að njósna um hverjir dreifa klámi … og njósna um alla aðra á netinu á sama tíma. Afleiðingarnar af svona gerræði yrðu auðvitað miklu meiri. Við gætum ekki átt örugg samskipti yfir netið, það væri enginn heimabanki til dæmis.
Fólkið sem stofnaði hreyfingu Pírata í Svíþjóð árið 2006 áttaði sig á þessari þróun í pólitíkinni, hvernig ætlunin var að beita gerræðislegum aðgerðum gegn friðhelgi og tjáningarfrelsi almennra borgara á internetinu. Í kjölfarið birtust okkur svo sýnishorn af mikilvægi friðhelgi og tjáningarfrelsis á tímum internetsins í málum Chelsea Manning, Aaron Swartz og Edward Snowden út í heimi og Vodafone lekanum hérna á Íslandi.
Þessi mál sýndu okkur hvernig stjórnvöld njósna um borgara sína, ljúga að þeim, misbeita valdi sínu og vanrækja öryggismál. Píratar boðuðu gagnsæi og beint lýðræði til þess að tryggja betur ábyrgð stjórnvalda gagnvart borgurum. Ofan í þetta féllu svo Panamaskjölin sem sýndu fram á víðtæka spillingu ráðamanna – ekki aðeins víða um heim heldur heima á Fróni líka. Panamaskjölin sönnuðu svart á hvítu hvernig fólk sem átti mikið af pening vék undan skatti með því að stofna skúffufyrirtæki í skattaskjólum.
Pólitík Pírata hefur þannig frá upphafi verið barátta gegn spillingu og misnotkun á valdi – í þágu friðhelgi og tjáningarfrelsis á tímum internetsins. Tól þeirrar baráttu hafa verið upplýsingafrelsi, gagnsæi, meiri borgararéttindi, beint lýðræði og krafa um ábyrgð valdafólks.
Það ætti öllum að vera augljóst að þessi barátta er eilífðarverkefni, að minnsta kosti á meðan Píratar eru utan ríkisstjórnar. Núverandi stjórnvöld eru enn að selja fjölskyldumeðlimum hluti í ríkisfyrirtækjum og ráða flokksgæðinga í áhrifastöður í stjórnsýslunni. Sjávarauðlindin er enn föst í klóm sérhagsmunaafla, og engin vinna sést í áttina að því að hlýða niðurstöðu áratuga gamallar þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá. Erindi Pírata á því enn mjög vel við í íslenskum stjórnmálum.
En hver er framtíðin? Lagast þetta ekki einhvern tímann, svo Píratar geti bara hætt og farið að sinna einhverju öðru? Frá upphafi litu Píratar á hreyfinguna sem tímabundið fyrirbæri þar sem mismunandi fólk gæti komið saman og komið stjórnmálum inn í 21. öldina og horfið svo aftur til annarra eða fyrri starfa. Ég held að það hefði alveg getað gerst ef þingið hefði klárað nýju stjórnarskrána. Það gerðist hins vegar ekki og nú eru Píratar stærri og viðameiri flokkur fólks sem hefur fundið hljómgrunn fyrir stefnu Pírata í mun fleiri málaflokkum. Sömu vandamálin virðast vera alls staðar og grunnstefna Pírata sýnir okkur alltaf hvernig væri hægt að gera betur.
Þegar ég horfi til framtíðar þá sé ég gríðarlegar samfélagslegar breytingar sem knúnar verða áfram af gervigreind og sjálfvirknivæðingu. Þær breytingar munu hafa enn meiri áhrif á samfélagið en internetvæðingin hefur haft á undanförnum áratugum. Við munum sjá æ fleiri störf hverfa í sjálfvirknivætt umhverfi sem mun snúa stjórnmálunum sem urðu til við iðnbyltinguna á hvolf aftur. Þar mun pólitík Pírata hins vegar skipta lykilmáli því að á nákvæmlega sama hátt og netverjar nýttu sér tæknina til þess að sneiða fram hjá okri og einokun þá munum við þurfa að tryggja aðgengi allra að sjálfvirkninni, annars munum við sjá mestu auðsöfnun sem nokkurn tíma hefur átt sér stað í mannkynssögunni.
Krafan um opinsæi (open source culture), sem verður nauðsynleg þróun gegn komandi samþjöppun valds vegna sjálfvirknivæðingar, er byggð á grunnstefnu Pírata um upplýsingafrelsi og gagnsæi til handa hinum valdaminni gagnvart misbeitingu hinna valdameiri. Þetta mun verða hnattrænt vandamál, og hvort Píratahreyfingin verður til staðar til þess að kljást við það eða einhver önnur hreyfing, þá mun það vera sú hugmyndafræði sem við þurfum að berjast fyrir til þess að koma í veg fyrir gerræði þeirra sem eiga mest.