Rangar skoðanir
Fyrir rúmri viku skrifaði Óli Björn Kárason pistil í Morgunblaðið um óttann við „rangar skoðanir“ sem afleiðingu af svokallaðri „slaufunarmenningu”. Greinin lýsir einu af mörgum sjónarhornum á mikilvægi tjáningafrelsis í frjálsum samfélögum, en það er margt annað sem þarf að hafa í huga þegar það málefni er skoðað.
Til að byrja með er vert að hafa á hreinu að sumar skoðanir eru í raun rangar skoðanir. Jú, stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi tryggir að ríkisvaldið ritskoði ekki skoðanir einstaklingsins – en þetta sama tjáningarfrelsi tryggir rétt annarra einstaklinga til þess að gagnrýna og fordæma skoðanir annarra.
Það er erfitt að skilja pistil Óla Björns á annan hátt en að hann telji þetta ferli vera óréttlátt. Óli Björn virðist vilja að skoðanahafar fái að beita tjáningarfrelsinu sínu án þess að óttast neikvæða og gagnrýna tjáningu í sinn garð af hálfu annarra skoðanahafa. Það gefur auga leið að þetta er þversagnakennd afstaða.
Hvað sem því líður er þess vert að velta því fyrir okkur hvernig við sem samfélag eigum að koma fram við fólk sem hefur „rangar skoðanir“. Þessar röngu skoðanir, til dæmis fasismi, dúkka óhjákvæmilega upp, og þær ætti tvímælalaust að gagnrýna – og þegar best lætur er gagnrýnin notuð til uppbyggilegrar, yfirvegaðrar endurskoðunar.
Þegar fólk hins vegar rígheldur í skoðun sem á við engin rök að styðjast og lokar eyrum sínum fyrir rökræðunni – eins og fólk sem hrópar „slaufun!” á til með að gera – þá verður samborgurum þeirra ljóst að það dugi ekkert að þræta við það. Það er því ekki nóg með að skoðanir þess hljóti afhroð fyrir áliti almennings, heldur orðstírinn sömuleiðis.
Almenningsálitið er stundum uppnefnt sem „dómstóll götunnar“ og lagt að jöfnu við McCarthyisma og nornaveiðar, hrollvekjukenndar ofsóknir gegn tjáningarfrelsinu – þegar raunin er sú að almenningsálitið er lítið annað en holdgervingur tjáningarfrelsisins.
Almenningsálitið mun aldrei hverfa – þá fyrst væri tjáningarfrelsið horfið. En augljóslega gengur almenningsálitið stundum of langt. Hvenær og hvernig á að bregðast við því er stór spurning sem er erfitt að svara – en svarið er örugglega ekki að kveina yfir ímynduðum nornaveiðum eins og drengurinn sem hrópaði „úlfur!”
Stríðsvæðing almenningsálitsins er vissulega varhugaverð, en það er þöggun þess sömuleiðis. Þolinmæði margra fyrir máttleysi réttarríkisins þegar kemur að kynferðisbrotum er fyrir löngu uppurin. Það er því fyrirsjáanlegt að fólk leiti annarra leiða að réttlæti við þær aðstæður. Er það ekki augljóst? Það er nefnilega röng skoðun að halda að fólk eigi að komast upp með að brjóta kynferðislega á öðru fólki.