Efnisyfirlit

Að hlusta á vísindamenn

   31. ágúst 2022     2 mín lestur

Nýlega sagði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra að hann vildi hlusta á vísindamenn þegar kæmi að því að taka ákvörðun um það hvort byggja ætti flugvöll í Hvassahrauni. Það er gott að ráðherra vilji ráðfæra sig við vísindafólk – því ber að fagna. En hvað þýðir það eiginlega fyrir stjórnmálafólk að hlusta á vísindamenn, að taka vísindin alvarlega?

Í fyrsta lagi þýðir það að vísindin geti ekki bara verið eins og búningur sem við klæðum okkur í þegar það hentar. Við verðum að vera samkvæm sjálfum okkur milli mála og taka vísindalegar rannsóknir alltaf með í reikninginn – og ekki bara niðurstöður sem okkur þykja ákjósanlegar.

Til að mynda einkennist pólitísk umræða um loftslagsmál af því að vísindalegar niðurstöður séu handvaldar eftir geðþótta. Talsmenn hagsmunaaðila hunsa niðurstöður meirihluta vísindasamfélagsins til þess að mála upp mynd sem hentar þeim – mynd sem á þó ekkert skylt við vísindalega aðferð.

Orkupakkamálið var áhugavert dæmi um aðkomu vísindanna að stjórnmálasviðinu, því þar kusu stjórnvöld einfaldlega að hunsa álit sérfræðinga á sviði félagsvísinda. Skiljanlega – það þurfti líka að velja eitt og hunsa annað, því í Orkupakkamálinu bárust önnur álit frá sama vísindasviði þar sem komist var að andstæðri niðurstöðu. Það var því alfarið ómögulegt að hlusta á allt vísindafólk í því tilfelli – það þurfti að velja álit frá sumu vísindafólki og hafna öðru. Hvernig er þá hægt, eins og innviðaráðherra vill gera, að hlusta á vísindamenn?

Innviðaráðherra segist vilja hlusta á vísindamenn í ljósi þess hvaða áhrif eldgos á Reykjanesskaga gæti haft á mögulegan flugvöll í Hvassahrauni. Spálíkön vísindamannanna sýna að eldgos í Krísuvík gæti mögulega leitt til þess að hraun renni inn á Hvassahraunssvæðið – og því gæti þurft að endurmeta hvort það sé enn góð staðsetning fyrir flugvöll.

Vísindin eru ómetanleg þegar kemur að því að meta mögulega áhættu, í þessu tilviki – með spálíkönum og útreikningum getur vísindafólk skoðað hvernig hraun myndi líklega flæða við gefnar aðstæður, sem gefur okkur líkindaspá til að vinna út frá. Ef við ættum að hlusta á vísindin, þá myndum við væntanlega vilja skoða hversu oft líkanið spáir hraunrennsli á þessu svæði. Miðað við hvernig líkanið og svæðið lítur út er það líklega mjög sjaldan.

Vísindin geta hins vegar ekki hjálpað okkur þegar kemur að því að meta ásættanlega áhættu – því það er umdæmi stjórnmálamannsins. Er áhættan í Hvassahrauni óásættanlegri en áhættan í Kapelluhrauni, Vogum eða Grindavík? Það væri nefnilega ekki hægt að hlusta á vísindamenn um áhættu vegna Hvassahrauns en ekki vegna annara svæða með sömu eða meiri áhættu vegna eldgosa. Það væri hræsni.