Efnisyfirlit

Fólk, stjórnmálaflokkar og fyrirtæki

   19. ágúst 2022     7 mín lestur

Fólk

Árið 2017 var viðburðaríkt ár í stjórnmálum á Íslandi. Ný ríkisstjórn var mynduð í upphafi árs eftir stutta stjórnarkreppu í kjölfar þess að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs sprakk út af birtingu Panamaskjalanna. Það er nefnilega aldrei gott þegar fólk, sérstaklega ráðafólk, nýtir sér skattaskjól til þess að forðast skatta. Ný ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar tók við ásamt Viðreisn og Bjartri framtíð með tæpasta mögulega meirihluta. Sú ríkisstjórn reyndist ekki langlíf, en hún sprakk strax um haustið sama ár, örstuttu eftir að ríkisstjórn Bjarna hafði lagt fram fyrsta fjárlagafrumvarp sitt.

Aukið framlag til stjórnmálaflokka Í þessu skammlífa fjárlagafrumvarpi var tillaga um 286 m.kr. framlag til stjórmálasamtaka. Eftir kosningar var lagt fram nýtt fjárlagafrumvarp með sömu tölu, 286 m.kr. Þetta var sama upphæð og í fjárlögum ársins á undan, ársins þar á undan eða alveg síðan þessi upphæð var 262 m.kr. í fjárlagafrumvarpi ársins 2014. 2012 var þessi upphæð 295,1 m.kr. og 304,2 m.kr árið 2011. Breytingarnar á upphæð tengjast aðallega því að þarna eru fleiri eða færri þingflokkar. Það á að skipta upphæðinni jafnt á milli þingmanna, þingflokka, þingflokka sem eru ekki í ríkisstjórn og flokka utan þings.

Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar er: “gerð tillaga um 362 millj. kr. hækkun á framlögum til stjórnmálaflokka. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 286 millj. kr. framlagi en það hefur lækkað um helming að raunvirði frá árinu 2008. Gert er ráð fyrir að þetta sé að hluta til leiðrétt með þessari tillögu og er þá tekið mið af vegnu meðaltali launa- og neysluverðsvísitalna. Tillagan er studd með yfirlýsingu formanna allra stjórnmálasamtaka á Alþingi utan tveggja flokka.”

Þessir tveir flokkar voru Píratar og Flokkur fólksins. Það fór að vísu svo að þingmenn Flokks fólksins greiddu atkvæði með þessum fjárframlögum en þingmenn Pírata ásamt nokkrum úr Miðflokki og Viðreisn sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalin/atkvaedagreidsla/?nnafnak=54945

Atkvæðagreiðslan var að vísu um fleiri fjárframlög heldur en bara framlög til stjórnmálaflokka þannig að það er ekki alveg hægt að segja af eða á um afstöðu flokka við einstaka atriði innan þeirrar atkvæðagreiðslu, en svona var þetta samt. Píratar og Flokkur fólksins stóðu ekki að þessari tillögu.

Enn fremur segir í nefndaráliti meirihluta: “Í yfirlýsingunni kemur m.a. fram að tilgangur opinberra fjárframlaga til stjórnmálasamtaka er að tryggja fjármögnun, sjálfstæði og lýðræðisleg vinnubrögð allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi. Virk starfsemi stjórnmálasamtaka er hornsteinar lýðræðisins og er nauðsynlegt að tryggja á hverjum tíma að þau geti sinnt hlutverki sínu með eðlilegum hætti og án þess að þurfa að treysta um of á fjárframlög einkaaðila. Er það ósk formanna sem rita undir yfirlýsinguna að forsætisráðherra setji af stað vinnu við endurskoðun laga nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda, með þátttöku fulltrúa allra stjórnmálasamtaka sem sæti eiga á Alþingi.”

Ég fór yfir þetta á sínum tíma í færslu á fésbókinni sem Stundin greindi frá. Hækkunin var ekki bara til þess að bæta upp launa- og verðlagsvísitölu, sérstaklega ekki án þess að þurfa að treysta á um of á fjárframlög einstaklinga því endurskoðun laganna leiddi til þess að möguleg fjárframlög einstaklinga og fyrirtækja hækkuðu úr 400 þús. kr. í 550 þús. kr. En niðurstaða mín áður en sú hækkun var gerð var einmitt að það “lítur semsagt út fyrir að vera að lækkandi framlög einkaaðila til stjórnmálasamtaka séu nú fjármögnuð úr ríkissjóði. 100 milljóna uppbót, úr ríkissjóði.”

Þetta er 100 milljón króna hækkun, á ári, og fjármálaráðherra kvartar undan 120 milljónum á kjörtímabili fyrir flokka utan þings. Eins og það sé vandamál Sósíalista sem voru rétt nýstofnaðir þegar þessi hækkun var samþykkt að klára annara manna fé. Svo það sé endurtekið; fjármálaráðherra greiddi “já” atkvæði um þessa tillögu.

Enn meiri hækkun til stjórnmálaflokka

Ári seinna voru þessi fjárframlög hækkuð aftur en kringumstæðurnar þá voru aðeins öðruvísi. Þar var um að ræða breytingar sem fólu í sér ákveðinn grunn fyrir smærri flokka. Í stað þess að skipting fjárframlaga væri á þann hátt að það væri bara jafnt eftir atkvæðum, þá byrjuðu allir flokkar með ákveðna lágmarksfjárhæð. Það var til þess að tryggja ákveðið jafnræði og sanngirni gagnvart smærri stjórnmálaflokkum sem þurfa, eins og stærri flokkarnir, að sinna ákveðnum skyldum. Þar lögðu allir flokkar einhverjar tillögur á vogaskálarnar sem voru svo samþykktar saman hvort sem fólk var á móti einhverjum hlutum þeirra tillagna eða ekki. Píratar lögðu áherslu á lágmarkið, Sjálfstæðisflokkurinn á hækkun á framlögum einstaklinga og svo framvegis. Hækkunin, upp á 96 m.kr. sem varð í kjölfarið var svo kostnaðurinn við það að greiða smærri flokkum þetta lágmark. Þessu greiddi fjármálaráðherra einnig atkvæði sitt.

Það er að vísu áhugaverð saga að segja frá, eins og við reiknuðum þetta þá hefði breytingin sem við lögðum til þau áhrif að framlög til allra flokka myndu aukast við þetta. Framlög til VG myndu standa nokkurn veginn í stað og framlög til Sjálfstæðisflokksins myndu minnka. Sama upphæð í heild, jafnari dreifing. Það var hins vegar ekki mikill hljómgrunnur fyrir því að gera þessa breytingu og halda upphæðinni óbreyttri (þrátt fyrir mikla hækkun ári á undan), meira að segja þó það kæmi í raun bara niður á Sjálfstæðisflokknum sem alla jafna segist ekki hafa áhuga á framlögum frá ríkinu.

Fyrirtæki

Það er ekki á allra vitorði að Londonborg er mjög sérstakt landsvæði. Þar á ég ekki við London sjálfa heldur Londonborg (City of London), en það er lítið svæði í miðri London sem er með alls konar sérreglur. Það sérstakasta við þessa borg inni í borginni er að þau eru með um 100 manna borgarráð og 25 manna öldungaráð. Það fara fram kosningar og allt til þess að velja fulltrúa í ráðið. Þau sem hafa kosningarétt eru þau sem búa í Londonborg og fyrirtækin sem starfa þar.

Já. Fyrirtæki eru með kosningarétt. Því stærra sem fyrirtækið er, því fleiri atkvæði fær fyrirtækið. Um 20 meðlimir borgarráðs eru kjörnir af íbúum og um 80 af fyrirtækjum. Rökin fyrir því eru að miklu fleiri starfa innan Londonborgar en búa þar. Það er samt ekki starfsfólk fyrirtækjanna sem fara með atkvæði fyrirtækjanna, fyrirtækin ákveða sjálf hvaða starfsfólk nýta atkvæði fyrirtækjanna:

“The number of voters that the qualifying body can appoint will depend on the size of the workforce. Organisations with a workforce of nine or less can appoint one voter; those with up to 50 can appoint one voter for every five; those with more than 50 can appoint 10 voters and one additional voter for every 50 members of the workforce over the initial 50.”

Þetta er augljóslega dálítið undarlegt fyrirkomulag, að minnsta kosti þangað til því er bætt við að Londonborg er fyrirtæki. En samt ekki. En samt fyrirtæki. Það er flókið og er búið að vera flókið frá því að Rómverjar voru á svæðinu. Í dag er Londonborg miðstöð fjármála og tilefni endalausra samsæriskenninga, ekki síst vegna þess hversu samofin Londonborg er skattaskjólum út um allan heim og hjálpar til við að koma tugum þúsunda milljarða kr. undan skatti á ári (milli 35 þús. milljarða kr. til 85 þús. milljarða kr.).

Til hvers er ég að fjalla um Londonborg í tengslum við fjármál stjórnmálasamtaka? Jú, einmitt vegna áhrifa þeirra á stjórnmálin. Afskipti fyrirtækja í stjórnmálum flokkast sem ákveðin tegund spillingar þar sem hagsmunir fyrirtækjanna eru teknir fram yfir hagsmuni borgara. Það hefur nefnilega verið fjármálaráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn sem tala fyrir því að fyrirtæki geti styrkt stjórnmálaflokka í meira mæli. Þó Londonborg sé ýkt dæmi þá er það gott dæmi um hvernig annars konar “lýðræði” getur litið út. Lýðræði sem hlýðir hagsmunum lénsherra, væri í raun besta samlíkingin. Stjórnkerfið væri þá frekar lénsræði en lýðræði.

Lýðræði er nefnilega ekki eina stjórnkerfið. Það er til fullt af öðrum stjórnkerfum sem hvert um sig hafa sína kosti og galla. Churchill á að hafa sagt um lýðræði að það sé versta stjórnkerfið, en það væri betra en öll hin. Ef það er rétt, þá er það frekar augljóst að við ættum að gera sem minnst af því að leyfa fyrirtækjum að styrkja stjórnmálaflokka.

Á sama tíma kostar það ákveðna fyrirhöfn og peninga að reka stjórnmálasamtök. Ríkið gerir alls konar kröfur til stjórnmálaflokka um endurskoðun reikninga og þess háttar sem kostar beinharða peninga og ef fólk áttar sig ekki á því, þá er bara mjög erfitt, sérstaklega fyrir nýja flokka, að standa undir þeim kröfur.

Stóra spurningin er þá, hvernig er hægt að láta dæmið ganga upp? Hvernig er hægt að tryggja aðkomu nýliða og rekstur stjórnmálasamtaka? Það sem er í boði eru fjárframlög frá fyrirtækjum, einstaklingum og ríkinu. Það er hægt að blanda þessu saman eða ekki. Hversu mikil eiga þessi framlög að geta verið? Hversu mikil þurfa þessi framlög að vera? Allt þetta eru spurningar sem ég tel að þurfi að svara á mjög beinan hátt. Ekki í gegnum stjórnmálaflokka og almennar kosningar. Að mínu mati þá ættu stjórnmálaflokkar ekki að þurfa fjármagn sem dugar til þess að keyra gríðarlegar auglýsingaherferðir um eitt eða annað. Framlag frá fyrirtækjum ætti alls ekki að vera leyft. Framlag frá einstaklingum er í rauninni bara svipað og félagsgjöld, en þá skiptir auðvitað máli að vera með hámarksupphæð líka. Úkraína var til dæmis að setja lög gegn stjórnmálaafskiptum auðmanna, til þess að koma einmitt í veg fyrir því að auðmenn geti keypt stjórnmálaflokka.

Hvernig viljum við hafa þetta hérna á Íslandi? Ég hef ákveðnar skoðanir á því og ýmsir aðrir stjórnmálamenn líka en hvað þetta mál varðar, þá eru þetta leikreglur sem aðrir eiga að setja, með hjálp beins lýðræðis.