Efnisyfirlit

Íþyngjandi húsnæðiskostnaður

   12. ágúst 2022     2 mín lestur

Samkvæmt Hagstofunni stendur 12 mánaða vísitala neysluverðs nú í 9,9%. Helstu ástæðurnar eru nokkuð skýrar, það er hækkun á húsnæðismarkaði að undanförnu og hækkun á vöruverði erlendis, aðallega vegna heimsfaraldurs og stríðsins í Úkraínu. 2,4 prósentustig eru vegna hækkunar á húsnæðisverði. Það hljómar kannski ekki mikið, bara um fjórðungur af heildar verðbólgunni, en 10% hækkun á mjólk eru miklu færri krónur en 2% hækkun á leigu húsnæðis.

Hvernig er staðan eiginlega á húsnæðismarkaði? Þjóðskrá er með verðsjá þar sem hægt er að skoða kaupverð og leiguverð íbúða eftir svæðum. Það segir hins vegar bara hálfa söguna, þar sem við verðum að vita hvernig fólk hefur efni á því kaup- og leiguverði. Þá er hægt að skoða ráðstöfunartekjur fólks á tekjusagan.is. Nýjustu gögnin þar eru síðan 2020 þannig að einhver ónákvæmni er í samanburði á þeim ráðstöfunartekjum sem fólk er með og núverandi húsnæðisverði, því það hefur hækkað þó nokkuð umfram launaþróun á undanförnum 2 árum. Að lokum þarf að skoða framfærsluviðmið. Þar er til dæmis hægt að nota framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara, en þau gera einmitt ekki ráð fyrir húsnæðiskostnaði. Sem er óheppilegt.

Ef við púslum þessu öllu saman, hversu mikill framfærslukostnaður einstaklinga eða fólks í sambúð er, með og án barna. Hverjar ráðstöfunartekjur fólks er í hverri tekjutíund og hversu mikill húsnæðiskostnaður er, þá er myndin nægilega skýr til þess að hægt sé að draga almennar ályktanir þrátt fyrir ónákvæmni gagnanna.

Til dæmis eru um ⅔ barnlausra einstaklinga eru með íþyngjandi húsnæðiskostnað. Sama á við um helming einstaklinga með börn. Þetta er miðað við meðalkostnað af húsnæði, þannig að það er því líklegt að um helmingur til ⅔ einstaklinga búi við íþyngjandi húsnæðiskostnað.

Þetta rímar ekki alveg við skýrslu Hagstofunnar um íþyngjandi húsnæðiskostnað, en í þeirri skýrslu er húsnæðiskostnaður bara talinn vera íþyngjandi ef hann er hærri en 40% af ráðstöfunartekjum. Hagstofan flokkar fólk í skýrslunni sinni í tekjufimmtunga og kemst að því að 28,8% fólks í lægsta tekjufimmtungnum búi við íþyngjandi húsnæðiskostnað. Vandinn við það er að krónurnar sem eru eftir af þeim ráðstöfunartekjum eru langt undir framfærsluviðmiði. Barnlaus einstaklingur í lægsta tekjufimmtungi er með tæpar 200 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur. Framfærslukostnaður er nákvæmlega jafn mikill, og það er án kostnaðar við húsnæði.

Vandinn er að það er bara verið að horfa á eina breytu. Já, 28,8% eru með íþyngjandi húsnæðiskostnað en þau eru öll eru með íþyngjandi framfærslukostnað. Hvort tveggja skiptir máli nefnilega máli. Ef tekjur duga ekki fyrir framfærslu skiptir engu máli hvort húsnæðiskostnaður er íþyngjandi eða ekki.