Efnisyfirlit

Áskorun haustsins

   3. ágúst 2022     2 mín lestur

Nú styttist í að þing verði aftur kallað saman, hvort sem það verður aðeins fyrr vegna skýrslu ríkisendurskoðanda vegna sölu á hlutum í Íslandsbanka eða vegna þess að þing verði kallað saman á hefðbundnum tíma. Íslandsbankaskýrslunni hefur seinkað oftar en einu sinni nú þegar og það tekur því varla að kalla þing saman sérstaklega rétt áður en þing á hvort eð er að hefjast ef skýrslan berst ekki á allra næstu dögum.

Stóru mál haustþingsins hljóta að vera, að auki við Íslandsbankaskýrsluna, efnahagsmálin, kjaramálin, útlendingamálin og loftslagsmálin.

Fjármálaráðherra er í mjög slæmum málum út af því hvernig hann klúðraði sölunni á Íslandsbanka. Það verður stór áfellisdómur á Alþingi ef ríkisstjórnarflokkarnir bakka bara í algjöra vörn með fjármálaráðherra. Vísbendingarnar um innherjaviðskipti, fyrir utan hið augljósa að ráðherra seldi pabba sínum hlut í bankanum, ættu undir öllum kringumstæðum að hafa að minnsta kosti pólitískar afleiðingar.

Efnahagsmálin eru í verulega slæmum málum. Að miklu leyti vegna ákvarðanna ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum, en til að vera sanngjarn, þá er hluti vandans auðvitað vegna stríðsins í Úkraínu. Það er algjör óþarfi að kenna ríkisstjórninni um það sem hún ber enga ábyrgð á.

Hundruðir kjarasamninga eru lausir í haust og verðbólga verður í hámarki um það leyti samkvæmt spám. Áskorun stjórnvalda ætti að snúast um að kjör þeirra sem eru á lágmarksframfærslu verði betri, en einhverra hluta vegna á að bíða með endurskoðun á almannatryggingarkerfinu þangað til í lok kjörtímabilsins. Þar er fólkið sem er ekki með samningsrétt. Þau eiga enn og aftur að bíða. Að öðru leyti þurfa stjórnvöld að gera vel við fólkið sem sinnir grunnþjónustu samfélagsins, heilbrigðisþjónustu og menntun svo það þurfi ekki enn og aftur að hóta gerðardómi eins og kennarar, hjúkrunarfræðingar og ljósmæður hafa þurft að þola á undanförnum árum.

Útlendingamálin verða áfram viðamikil og hætta ekkert að vera það á meðan stjórnvöld hafa enga stefnu í þeim málaflokki. Þau hafa sagt að það þurfi fleira fólk til þess að sinna alls konar þjónustu og atvinnulífi en samt leggja þau sig í líma við að vísa fólki úr landi. Stjórnvöld verða að fara að þora að segja það upphátt hvernig þau ætla að haga þessum málum því eins og er þá lítur það út fyrir að þau vilji bara suma útlendinga.

Síðast en ekki síst verða það loftslagsmálin. Eftir hitamet í Evrópu mun þrýstingurinn tvímælalaust aukast á að stjórnvöld skili árangri. Í dag er í gildi áætlun um 29% samdrátt fyrir árið 2030 en lofað var 55% samdrætti í losun í lok síðasta kjörtímabils. Enn hefur ekki heyrst orð um hvernig á að ná þeim árangri.

Það er því kominn tími til þess að sýna á spilin og það á að gerast í haust.