Efnisyfirlit

Samgönguskattar

   14. júlí 2022     2 mín lestur

Nýlega kynnti innviðaráðherra áform um gjaldtöku í öllum jarðgöngum landsins ásamt “annarskonar gjaldtöku” þar sem eldsneytisgjald úreldis fyrr en síðar. Í staðinn eiga að koma “einhverskonar notkunargjöld”.

Í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar segir að endurskoðun eigi skattkerfi samgöngumála til að tryggja sambærilegar skatttekjur af ökutækjum og á árunum 2010 - 2017. Þessar skatttekjur voru þá um 1,5% af vergi landsframleiðslu. Það myndi þýða að í ár ættu um 50 milljarðar að koma í ríkiskassann með slíkri skattheimtu af vörugjöldum, olíugjaldi, kolefnisgjaldi, bifreiðagjaldi og kílómetragjaldi.

Fjárlög ársins gera hins vegar ráð fyrir rétt rúmlega 40 milljörðum frá þessum gjaldstofnum. Það þarf því 10 milljarða króna skattahækkun til þess að brúa bilið milli núverandi stöðu og áætlana stjórnvalda - en einnig er gert ráð fyrir að bilið aukist smá saman vegna minni eldsneytisnotkunar.

Framlag ríkissjóðs til samgöngumála eru rétt tæplega 50 milljarðar miðað við fjárlög ársins þannig að eins og er þá er verið að brúa bilið úr öðrum sameiginlegum sjóðum.

Það sem er hins vegar áhugavert er að framlög til samgöngumála eiga að dragast saman um rúma 7 milljarða samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og þannig verða mun lægri en áætlaðir skattar af samgöngum eiga að verða samkvæmt stjórnvöldum sjálfum (munurinn eykst svo eftir því sem hagvöxtur eykst því áætluð útgjöld eru óháð hagsveiflunni en tekjurnar vaxa samhliða henni).

Hvernig sem ríkisstjórnin ætlar að láta þetta dæmi ganga upp þá tel ég að það þurfi að gera meira í þessum málaflokki en að ríkisstjórnin gangi svona fram. Við þurfum betra almenningssamráð um heildarsýn í samgöngum. Ekki bara fyrir bíla, heldur einnig fyrir fótgangandi, hjólandi, fljúgandi, siglandi, syndandi og hvað annað sem fólki dettur í hug að nota sem samgöngumáta. Þegar við erum eins sammála og við getum orðið um heildarsýnina þá þurfum við að ákveða hversu mikið við ætlum að vinna að þeirri heildarsýn í einu. Fyrst þá vitum við hversu miklar tekjur við þurfum að afla til þess að ná þeim markmiðum.

Það skiptir nefnilega máli hvernig við öflum þessara tekna og það þarf að vera sátt um það. Ef ríkisstjórnin ætlar bara að pukra um það út í sínu horni, sín á milli, þá mun það aldrei skila almennum árangri. Til dæmis hefur aldrei verið sátt um að setja veggjöld á öll jarðgöng í landinu og síðast þegar það var rætt fór ríkisstjórnin undan í flæmingi að kannski væri eðlilegt að undanskilja einhver gömul jarðgöng og einnig jarðgöng sem sameina byggðarkjarna. Nú er aftur sagt “öllum göngum” og að gjaldið “sé nokkuð hátt, en samt hóflegt”.

Ég er ekki bjartsýnn á þessa vegferð ríkisstjórnarinnar. Held að hún endi út í skurði enn og aftur.