Efnisyfirlit

Gjör rétt. Ávallt.

   5. júlí 2022     2 mín lestur

Í síðustu viku uppgötvaðist að laun æðstu ráðamanna væru of há af því að röng vísitala hafði verið notuð til þess að reikna launahækkanir undanfarinna þriggja ára. Dómarafélagið brást ókvæða við og kallaði boðaða leiðréttingu á launum þeirra “at­lögu fram­kvæmda­valds­ins að dómsvald­inu sem ekki á sér hlið­stæðu í ís­lenskri rétt­ar­sögu” og að allir gætu átt “von á því að framkvæmdavaldið geti lækkað laun dómara eftir eigin geðþótta”.

Fjármálaráðherra brást ókvæða við þessari gagnrýni dómarafélagsins og sagði að málflutningur þeirra væri aumur og lauk svari sínu með því að segja “Gjör rétt. Ávallt”. Aldrei þessu vant er það hárrétt. Ekki bara að auðvitað eigum við alltaf að gera rétt heldur einnig að þessi málflutningur dómarafélagsins er mjög aumur.

Fjármálaráðherra bætir í og spáir fyrir um málsvörn dómara og segir: “Ég vænti þess að þeir vilji bera fyrir sig að hafa tekið við of háum launum undanfarin ár í góðri trú.” En finnst önnur rök yfirsterkari - nánar tiltekið að láta efsta lag ríkisins “skila því sem ofgreitt var úr opinberum sjóðum. Annað væri hrikalegt fordæmi og er ekkert minna en siðferðisbrestur.”

Hér verð ég hins vegar að segja að þetta kemur úr hörðustu átt. Til að byrja með þá er það ánægjulegt að laun æðstu ráðamanna hafi loksins verið lækkuð enda hækkuðu laun langt umfram almenna launaþróun með ákvörðun kjararáðs fyrir nokkrum árum. Þá fannst fjármálaráðherra óþarfi að gera rétt og leiðrétta þann mun. Sú ákvörðun varð afdrifarík þar sem það má skiljanlega rekja aukna hörku í kjaraviðræðum síðan til þess siðferðisbrests. Efsta lag ríkisins fékk þar meira en aðrir.

Ef fjármálaráðherra hefur hins vegar vaxið samviska vegna þessa máls þá ætti hann kannski að skoða aðeins í baksýnisspegilinn og gera upp fyrri verk sín út frá því sjónarhorni. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir í þessu máli er að lagalega hefur dómarafélagið líklega rétt fyrir sér, því þeir tóku við ofgreiddum launum í “góðri trú.” Þannig verða yfirlýsingar og fyrirætlanir fjármálaráðherra um endurheimt ofgreiddu launanna að engu. Ég held að ráðherra viti það og vegna þess að ráðherra veit það þá er það rosalega ódýrt fyrir hann að heimta endurgreiðslu, sem mun aldrei gerast, af því að út á við lítur hann út fyrir að berjast fyrir réttlæti.

Þannig að, hæstvirti fjármálaráðherra. Í anda þessa gamla orðatiltækis “put your money where your mouth is”, hvernig væri að byrja á því að líta í eigin barm? Þarf ekki að endurskoða ofgreiðsluna frá 2016 sem hefur hækkað laun þín um milljón á mánuði? Er flokkurinn þinn búinn að endurgreiða styrkina frá FL group og Landsbankanum? Gjör rétt. Er það ekki? Ávallt?