Efnisyfirlit

Stjórnmál málamiðlanna

   25. júní 2022     2 mín lestur

Núverandi ríkisstjórn er mynduð til að slá nýjan tón milli hægri og vinstri með því að „spanna hið pólitíska litróf”. Þetta átti að gera með auknu samráði og eflingu samstarfs milli flokka á Alþingi. Með öðrum orðum, meiri málamiðlanir.

Til þess að skilja hvaða áhrif málamiðlanir hafa þá þarf að skilja hvernig meirihlutavaldið virkar. Flokkarnir sem mynda meirihluta ráða nánast öllu. Minnihlutinn hefur bara tvo möguleika til þess að hafa áhrif á gang mála, með því að kalla eftir upplýsingum og fundum í nefndum, og með því að tala í ræðustól þingsins.

Af því að öll mál þurfa að fara í gegnum þingsalinn og tíminn þar er takmarkaður, þá getur það farið svo að ef ríkisstjórnin vill kom málum í gegnum þingsalinn þá verður hún að semja við minnihlutann um framgang mála. Stundum þýðir það að minnihlutinn þarf að halda fleiri ræður en þörf er á - sem er ómálefnalegt. En það er langt í frá jafn ómálefnalegt og að neita einfaldlega að miðla málum yfirleitt, sem er ástæða þess að minnihlutinn þarf að láta í sér heyra, enda er ekkert annað í boði. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki haft neinn áhuga á að bæta við lýðræðisúrræðum.

Hér er gert ráð fyrir því að allir hagi sér tiltölulega málefnalega. Bæði stjórn og stjórnarandstaða hafa málefnaleg rök fyrir mismunandi skoðunum og í þeim tilfellum er yfirleitt hægt að málamiðla. Stundum, hins vegar, er reynt að troða einhverju í gegn. Engin rök eru í boði sem standast skoðun. Hvað þá? Þá hefst yfirleitt keppni í almenningsáliti um ásýnd. Nokkurs konar morfís keppni þar sem innihaldið skiptir ekki máli, bara útlitið. Þar ættum við að læra af reynslunni.

Sem dæmi þá var Landsréttarmálið útlitspólitík hjá Sjálfstæðisflokknum, eins og niðurstöður allra dómstiga sýna. Baráttan gegn innleiðingu nýrrar stjórnarskrár grundvallaða á tillögum stjórnlagaráðs í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu er útlitspólitík. Það er komin skýr krafa um hvað á að gera úr þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það getur verið miserfitt að sjá í gegnum útlitspólitík. Það er auðvelt að sjá í gegnum prúðbúnar afsakanir Rússa vegna tilhæfulausra árasa þeirra á annað land. Hins vegar telja 77% kjósenda Sjálfstæðisflokksins að engin lög hafi verið brotin við sölu Íslandsbanka meðan 77% kjósenda Vinstri grænna eru á öndverðri skoðun. Málamiðlunin var að fá Ríkisendurskoðun til þess að skoða málið en ekki rannsóknarnefnd Alþingis. Ríkisendurskoðun sem hefur áður skoðað einkavæðingu banka og gefið út innistæðulaust heilbrigðisvottorð.

Hvernig eigum við að miðla málum við fólk sem vill það ekki? Eigum við að miðla málum við fólk sem hefur ekkert málefnalegt fram að færa? Eigum við að hafa „smá spillingu” sem málamiðlun? Nei, auðvitað er ekki hægt að gera slíkar málamiðlanir.