Efnisyfirlit

Þarf þingið að vera svona?

   7. júní 2022     2 mín lestur

Svo ég svari þessari spurningu eins og hinn versti pólitíkus, þá er svarið bæði já og nei. Það er nefnilega val. Á meðan núverandi meirihluti velur að haga pólitíkinni eins og þau gera þá þarf þingið að vera svona. Það er hins vegar hægt að velja að hafa pólitíkina öðruvísi og þar af leiðandi yrði pólitíkin öðruvísi. En hvað er það sem gerir pólitíkina eins og hún er?

Það mikilvægasta sem fólk þarf að skilja er meirihlutapólitíkin. Það er annað en lýðræðislegur meirihluti. Í meirihlutapólitík tekur meirihluti þingmanna í nokkrum flokkum sig saman og myndar meirihlutastjórn - sem formenn flokkanna stjórna. Þessi meirihlutastjórn tekur þannig allt vald í öllum krókum og kimum. Skipunin er að allt sem meirihlutinn ákveður skal samþykkt og öllu sem minnihlutinn leggur til skal hafnað. Undantekningar á þessu eru sjaldgæfari en hvítir hrafnar.

Tökum sem dæmi afgreiðslu á rammaáætlun í gær. Forsætisráðherra segir að þetta sé rammaáætlun sem enginn er ánægður með - og vísar þannig óbeint í að samningar sem enginn er ánægður með séu einhvern veginn góðir samningar. En þetta er val forsætisráðherra, sérstakt val um að kjósa á móti náttúruvernd. Að öllum líkindum, ef þingmenn VG hefðu kosið með náttúruvernd þá hefði niðurstaðan orðið öðruvísi. Þau hefðu verið ánægð með niðurstöðuna en einhverjir aðrir óánægðir - í staðinn fyrir að allir séu óánægðir.

Þannig fæst einhvern veginn niðurstaða sem er í raun gegn vilja meirihluta þingmanna - gegn lýðræðislegri sannfæringu þeirra - vegna þess hvernig ríkisstjórnarflokkarnir velja að stunda pólitík. Þannig er meirihlutapólitík öðruvísi en lýðræðislegur meirihluti. Það er lykilatriði að skilja þetta ef maður vill skilja hvernig þingiðvirkar.

Inn í þetta blandast svo hið klassíska “málþóf”. Það er nefnilega það eina sem meirihlutinn stjórnar ekki 100% - en það er ræðustóll Alþingis. Meirihlutinn tekur sér öll völd og hlustar ekki á neinn nema þá hagsmunaaðila sem þau vilja eða verða að hlusta á. Þá er eina leið minnihlutans til þess að ná í gegnum pólitík meirihlutans að stunda samningaviðræður í ræðustól Alþingis. Stundum er það auðvitað eiginlegt málþóf (þriðji orkupakkinn) en yfirleitt er það nauðsyn af því að meirihlutinn er ekki að hlusta. Utan frá er stundum erfitt að sjá hvort er í gangi, málþóf eða samningaviðræður, en út á við keppast meirihlutaflokkarnir auðvitað að kalla allt málþóf af því að það hentar þeim. Þau tóku sér valdið til þess að velja hvernig pólitíkin virkar. Þau hafa val að haga sér öðruvísi, ekki láta blekkjast.