Efnisyfirlit

Laun, leiga, lífeyrir

   7. júní 2022     2 mín lestur

Ráðstöfunartekjur flestra landsmanna minnkuðu í síðustu viku þegar fasteignamat hækkaði um 19,9% og hafði þannig áhrif á fasteignagjöld allra. Fasteignamati er breytt samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna og fasteignagjöld eru innheimt samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem hlutur af fasteignamati, allt að 0,5% af íbúðarhúsnæði. Reykjavíkurborg var til dæmis með 0,18% hlutfall, Kópavogsbær 0,212% og Akureyri með 0,33% árið 2021.

Hvaða áhrif hefur þessi hækkun á ráðstöfunartekjur? Ef við miðum við 50 milljón króna fasteign sem hækkar um 20% þá er það 10 milljón króna hækkun. Í Reykjavík þýðir það 18 þúsund króna hækkun á ári eða 1.500 kr. hækkun á mánuði. Í Kópavogi er það 21.200 kr. hækkun (1.766 kr. á mánuði) og á Akureyri 33 þúsund (2.750 kr. á mánuði).

Í kjölfarið á þessum breytingum fór fólk að hafa áhyggjur af því að hækkunin myndi síðan velta út í leiguverðið en eins og sést á þessum útreikningum réttlætir hækkunin ekkert mikið meira en hækkun um tvo til þrjá þúsundkalla á mánuði, sem fólki munar að sjálfsögðu um. Hversu mikið? Tekjusagan.is sýnir okkur að ráðstöfunartekjur leigenda hækkuðu að meðaltali um tæpar fimm þúsund krónur á milli áranna 2018 og 2019 sem þýðir að hækkun fasteignamats étur upp um helminginn af þeirri aukningu.

Afleiðingin af hækkun fasteignamats er aðallega sú að nú er enn erfiðara fyrir fólk að safna fyrir því að kaupa sér heimili. 10 milljón króna verðhækkun þýðir að það þarf tvær milljónir í viðbót fyrir útborgun sem eru 167 þúsund krónur sem þarf að leggja aukalega til hliðar í hverjum mánuði á því ári. Ef einhver ætlar að safna sér fyrir innborgun á 10 árum þarf viðkomandi að leggja til hliðar 100 þúsund krónur á mánuði en þurfti áður að spara 83 þúsund. Samkvæmt tölum HMS er meðaltal greiddrar leigu á höfuðborgarsvæðinu 205 þ.kr.

Framfærsluviðmið hjá barnlausum einstaklingi miðað við tölur frá umboðsmanni skuldara án húsnæðis eru um 190 þúsund krónur. Til þess að leggja til hliðar 100 þúsund á mánuði þarf þá viðkomandi einstaklingur að vera með um 500 þúsund í ráðstöfunartekjur á mánuði. Það eru bara um 15% einstaklinga með slíkar tekjur samkvæmt tekjusagan.is. Barnlaust par þyrfti að vera með um 600 þúsund í ráðstöfunartekjur sem er mun auðveldara (25% para nær því ekki), en verður mjög fljótt erfiðara ef börn bætast við.

Það skiptir nefnilega máli á Íslandi að eignast skuldlaust þak yfir höfuðið því þegar fólk kemst á lífeyrisaldur nær það ekki framfærslu ef það þarf að borga leigu líka. Það er nefnilega rekin séreignarstefna á Íslandi og það þýðir að þú verður að eiga húsnæði, skuldlaust, fyrir efri árin. Annars gengur dæmið ekki upp og enn síður eins og fasteignamarkaðurinn hefur þróast undanfarið.