Efnisyfirlit

Að gelta og gjamma

   18. maí 2022     2 mín lestur

Hundalógík. Áróður. Hælbítar. Pólitík sem einkennist af því að gelta og gjamma.

Þau eru fjölmörg, uppnefnin sem hafa fallið undanfarnar vikur vegna gagnrýni Pírata og fleirra á bankasölumálið. Þetta eru uppnefni sem fjármálaráðherra Íslands, meðal annarra, hefur gripið til – vegna þess að hann hefur engar málefnalegar varnir. Í staðinn slær hann frá sér með upphrópunum.

Svo mætir prófessor í stjórnmálafræði og segir að gott gengi Framsóknarflokksins í síðastliðnum kosningum sé vegna þess að fólk er orðið þreytt á átakastjórnmálum.

Já. Auðvitað hlýtur fólk að vera orðið þreytt á ráðherra sem selur pabba sínum í ríkisbanka og uppnefnir þá sem gagnrýna það. Auðvitað er fólk orðið þreytt á því að glíma við spillingarmál eftir spillingarmál, hneyksli á hneyksli ofan.

Vafningsmálið. Sjóður 9. Borgun. Panamaskjölin, Falson og feluleikurinn með skýrsluna um skattaskjólin. Lögbannsmálið. Sendiherrakapallinn. Samherjamálið. Ásmundarsalur. Þyrlumálið… Og núna bankasölumálið. Svo nokkur dæmi séu nefnd. Ríkisstjórnin reyndi meira að segja að endurnefna það sem Bankasýslumálið, í vonlausri vörn.

Já. Það er áhugavert að vera kallaður hælbítur fyrir að finnast það ámælisvert að enginn axli ábyrgð á þessum málum. Að vera sakaður um að dreifa áróðri fyrir að benda á spillinguna.

Ég skil vel sjónarmið prófessorsins að Framsókn líti út fyrir að vera rödd skynseminnar, yfirvegað og lausnamiðað miðjuafl. Þannig hefur Framsóknarflokkurinn alltaf spilað sig, sem gerir honum kleift að leyfa þessari spillingu að viðgangast – því það er auðvelt að klæða meðvirkni í búning yfirvegunar og skynsemi. Á tyllidögum á hann jafnvel sín eigin spillingarmál – sem enginn axlar ábyrgð á heldur.

Nú eru komin nokkur ný andlit í Framsóknarflokkinn og það verður áhugavert að sjá hvaða skoðun nýja fólkið hefur í þessum málaflokki. Mun það standa vörð um áframhaldandi spillingu og þöggun – eða munu þau taka afstöðu með þeim okkar sem bendum á spillinguna og segja “nei takk!”? Undanfarna áratugi hefur Framsóknarflokkurinn ekki verið í því liði en ég ber ákveðna von til nýja fólksins, nýju kynslóðarinnar – og kjósendur virðast gera það líka. Mér er sama hvaðan gott kemur og fylgist spenntur með framvindunni.

Lausnin verður nefnilega að vera sú að þau sem viðhalda spillingunni hætti, en ekki þau sem benda á spillinguna. Við þurfum vissulega að hætta átakastjórnmálum og fara að vinna málefnalega að góðum lausnum fyrir alla – en á meðan við erum með fjármálaráðherra sem uppnefnir fólk og málflutning þess og meðvirka samstarfsflokka sér engan enda fyrir endalok átakanna. Baráttunni gegn spillingu lýkur ekki fyrr en spillingunni lýkur – því það er þess virði að að berjast í þágu heiðarleika og réttlætis.