Efnisyfirlit

Heiðarleg stjórnmál

   10. maí 2022     2 mín lestur

Næstu helgi eru kosningar til sveitarstjórna út um allt land. Þar bjóða fram ýmsir flokkar og fólk með mismunandi hugmyndir og markmið fyrir næstu kjörtímabil. Ég mæli auðvitað með því að fólk setji X við P alls staðar þar sem það er í boði - í Reykjavíkurborg, Kópavogi, Hafnarfirði, Ísafjarðarbæ, Reykjanesbæ og á Akureyrarbæ. Píratar taka einnig þátt í öðrum framboðum, xÁ í Árborg, A lista Framtíðarinnar á Seltjarnarnesi, G fyrir Garðabæjarlistann í Garðabæ og xO fyrir Bæjarlistann í Suðurnesjabæ.

Ef fólk á í erfiðleikum með að velja flokka eða fólk til þess að kjósa í þessum komandi kosningum þá eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga - atriði sem útiloka nokkra valkosti umsvifalaust.

Kosningarnar í ár fara fram í skugga sölunnar á Íslandsbanka. Í því felst óþægilega áminning um til hvers sumir flokkar vilja vera við völd - eða hverju sumir flokkar eru tilbúnir til þess að fórna til þess að halda völdum. Þeir flokkar sem sitja saman ríkisstjórn bjóða fram í hinum ýmsu sveitarfélögum landsins.

Í öllum kosningum felst valdabarátta, því með atkvæðum fólks fá flokkarnir völd. Það sem við ættum að vilja í lýðræðissamfélagi er að kjörnir fulltrúar fari vel með þau völd sem við veitum þeim. Til að byrja með að kjörnir fulltrúar beri virðingu fyrir lýðræðinu - við ættum að hafna öllum flokkum og frambjóðendum sem virða ekki lýðræðislegar niðurstöður, ekki síst hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðsluna um nýja stjórnarskrá frá 2012.

Við ættum einnig að hafna flokkum sem selja vinum og vandamönnum almannaeignir. Það ætti ekki að þurfa að segja það einu sinni. Flokkar sem nýta opinbert vald til persónulegs ávinnings ekkert erindi í almannaþjónustu.

Eftir að búið er að útiloka flokka sem fara illa með völd er gott ráð að skoða hvernig þeir flokkar sem eru við völd hafa staðið sig. Þar mæli ég með að skoða uppgjör Pírata frá því kjörtímabili sem er að líða (https://youtu.be/QjyEWQweIkA) og stefnumál í hinum ýmsu sveitarfélögum (https://piratar.is/xp/sveitarstjorn/). Stefnur Pírata eru umfangsmiklar og metnaðarfullar og of ekki mögulegt að fjalla um þær í stuttri grein.

Valið er auðveldara í ár heldur en oft áður því núverandi ríkisstjórnarflokkar ættu ekki að vera á lista yfir mögulega valkosti í þetta skiptið af augljósum ástæðum. Það er einfaldlega spurning um gildismat og prinsipp. Ef flokkar komast sífellt upp með að svíkja grundvallarafstöðu sína þá þýðir það að annað hvort hafa þeir flokkar ekki þá afstöðu eða geta ekki fylgt henni. Hvers vegna ættum við þá að treysta þeim? Traust er lykilatriði í stjórnmálum. Traust til þess að atkvæðið okkar sé í öruggum höndum allt kjörtímabilið. x við P fyrir Pírata og heiðarleg stjórnmál.