Efnisyfirlit

Þetta er áróður!

   30. apríl 2022     2 mín lestur

Bjarni. Heldur þú að þú komist í alvörunni upp með að selja pabba þínum banka eftir allt sem á undan hefur gengið … Vafninginn. Sjóð 9. Borgun. Falson og skýrslufeluleikurinn. Uppreist æru. Lögbannsmálið. Sendiherrakapallinn. Samherjamálið. Ásmundarsal … eftir allt þetta vesen sem þú og flokkurinn sem þú ert í forsvari fyrir hefur látið vaða yfir landsmenn undanfarinn áratug - þar sem hvert eitt og einasta mál hefði fengið stjórnmálamenn með snefil af virðingu fyrir siðmenntuðu samfélagi til að segja af sér — heldur þú að þú komist í alvörunni upp með þetta?

Kæru landsmenn, þetta er víst bara áróður samkvæmt hæstvirtum fjármálaráðherra sem reynir að skýla sér á bak við armslengd sem hvergi er að finna. Á bak við hlutlægar reglur sem hvergi er að finna. Á bak við traust um pólitíska samtryggingu sem hefur ávallt komið í veg fyrir að formaður Sjálfstæðisflokksins axli einhverja ábyrgð - aðra en að þurfa að svara fyrir málin í almennum þingkosningum. Það er svarið við öllu hjá Bjarna, hann telur sig hafa leyfi til þess að gera hvað sem er og vísar bara öllum umræðum um það inn í næstu alþingiskosningar.

Hvers konar stjórnmál eru það eiginlega? Er það ásættanlegt að ráðamenn selji bara fjölskyldu sinni ríkiseignir og sendi það bara í dóm næstu kosninga að kveða úr um hvort það sé rétt eða rangt? Sérstaklega þegar við vitum að einmitt þá forðast sami ráðherra sem mest að ræða nákvæmlega þessi mál. Í tilviki skýrslunnar um skattaskjólseignir Íslendinga var henni meira að segja stungið undir stól fram yfir kosningar til þess að komast hjá því að tala um innihald skýrslunnar.

Að auki hefur ráðherra nákvæmlega engan áhuga á að ræða þessi mál á efnislegan hátt heldur þvælir umræðuna endalaust. Á opnum fundi fjárlaganefndar í gær talaði ráðherra ítrekað um hlutlægar reglur sem ættu að firra ráðherra ábyrgð, því ef um hlutlægar reglur sem settar voru fyrirfram væri að ræða, þá væru þær grundvöllur fyrir jafnræði í söluferlinu. Bankasýslan sagði það hins vegar mjög skýrt að huglægt mat hefði verið lagt á ýmsa hluti, til dæmis hvernig fjárfestar flokkuðust og hversu mikið þeir voru skertir.

Þarna liggur vandi ráðherra, því um leið og huglægt mat er hluti af söluferlinu ber ráðherra beina ábyrgð á því. Það er auðvitað langt frá því að vera eini vandi ráðherra í þessu máli en er einna augljósasti vandinn þegar kemur að vanhæfi ráðherra til þess að selja pabba sínum hlut í bankanum. En nei, allar spurningar um slíkt er áróður. Líka Vafningur, Borgun og feluleikurinn með skattaskjólsskýrsluna. Þetta er ekki spurning um hagsmunaárekstur, samkvæmt ráðherra heldur er þetta áróður.

En þegar öllu er á botninn hvolft þá er aðeins eitt sem kemst að í huga ráðherra: “Ég á’edda, ég má’edda”.