Það sér það hver heilvita maður ...
… að ráðherra er ekki undirskriftarvél.
Í morgunútvarpinu á miðvikudagsmorgun reyndi Óli Björn Kárason að þvæla málið um sölu Íslandsbanka fyrir öllum. Þar lagði hann sérstaka áherslu á að hver „heilvita maður“ sjái nú að fjármálaráðherra geti ekki farið yfir hvert eitt og einasta tilboð sem berast í Íslandsbanka. Óli Björn segir að í stað þess taki ráðherra afstöðu og samþykki „heildarniðurstöðuna“, á hvaða gengi er selt og fjölda tilboða.
Þetta stenst auðvitað enga skoðun. Við þurfum bara að lesalagatextann: “Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað”. Hvað þýðir þetta? Jú, að það sé á ábyrgð ráðherra að taka ákvörðun. Stjórnsýslulög og lög um ráðherraábyrgð fjalla mjög ítarlega um hvað slík ákvörðun þýðir – til að mynda þarf ráðherra augljóslega að vita hvað hann er að skrifa undir. Þessar kröfur eru gerðar til bæði stjórnsýslunnar og ráðherra, því annars gæti ráðherra selt pabba sínum hlut í banka „alveg óvart“.
Hver heilvita maður sér að ráðherra sem ætlar að selja fjölskyldumeðlim ríkiseign er bullandi vanhæfur til þess að taka ákvörðun um slíkt. Hver heilvita maður sér að ráðherra getur ekki bara lokað augunum, skrifað undir og vonað að hann sé ekki að klúðra málinu. Til hvers þurfum við þá ráðherra yfirleitt? Er það ekki lykilspurningin?
Ef ráðherra ætlar ekki að gera neitt, nema skrifa undir af því að hann er neyddur til þess samkvæmt lögum, til hvers í ósköpunum þurfum við þennan ráðherra? Það væri jafn gagnlegt að vera með undirskriftarvél sem starfandi ráðherra. Það væri mun ódýrara að vera með eina undirskriftarvél sem gæti kvittað undir fyrir alla ráðherra þessarar ríkisstjórnar en að borga þeim öllum svimandi há laun fyrir alla ábyrgðina sem vegur bersýnilega svo þungt á herðum þeirra.
Nei, auðvitað er það ekki þannig. Hið rétta, sem hver heilvita maður sér, er að ráðherra þarf að gera eitthvað meira en bara að kvitta fyrir móttöku. Að vera ráðherra er starf sem snýst um langtum meira en undirskriftir. Ráðherra er fulltrúi Alþingis innan stjórnsýslunnar og passar upp á að verið sé að framfylgja þeirri stefnu sem Alþingi hefur samþykkt. Ráðherra vaktar að stjórnsýslan sé að fara eftir lögum og fari vel með almannafé sem Alþingi veitir heimild fyrir í fjárlögum.
Það sér það hver heilvita maður að ráðherra ætti ekki að selja banka með milljarða króna afslætti til vina og vandamanna. Það sér það hver heilvita maður að ráðherra og ríkisstjórn eru búin að klúðra þessu máli. Það sér það hver heilvita maður að þau eru öll að reyna að kenna einhverjum öðrum um það klúður.
Ráðherra á ekki að selja pabba sínum banka … það sér hver heilvita maður.