Efnisyfirlit

Þjónn, það er ryk í augunum mínum

   9. apríl 2022     2 mín lestur

Ég held að flest séum við sammála um að spilling sé slæm, eitthvað sem við eigum að koma í veg fyrir. Við hljótum þá líka að geta sammælst um nauðsyn þess að fólk sé látið sæta ábyrgð þegar upp kemst um spillingu á þeirra vegum. En jafnvel þegar vísbendingarnar spretta eins og gorkúlur allt í kringum okkur, virðist ekkert gerast. Hvers vegna?

Mig grunar að kannski vitum við ekki almennilega hvernig spilling lítur út. Við sjáum fyrir okkur atriði í bíómynd þar sem leikarar skiptast á brúnum pappírsumslögum og skjalatöskum í bílakjallara, rétt áður en Leðurblökumaðurinn kemur aðsvífandi og lemur spillingarpésana til hlýðni. Túlkunin á hvíta tjaldinu er æsilegri en veruleikinn, sem er sá að spilling er ósköp hversdagsleg.

Nóg er til af nýlegum dæmum um spillingu í íslenskum stjórnmálum. Þegar fjármálaráðherra stakk skýrslu um skattaskjólseignir Íslendinga undir stól fyrir kosningarnar 2016, var það spilling. Þegar Alþingi var látið borga fyrir framleiðslu á sjónvarpsþætti um þingmann, var það líka spilling. Þegar fjármálaráðherra seldi pabba sínum banka á afslætti á dögunum þá var það spilling – sama hvað fjármálaráðherra dettur í hug að segja til að afsaka þann gjörning. Þegar faðir fjármálaráðherra kaupir eitthvað í lokuðu útboði sem sonur hans ber ábyrgð á, þá kallast það spilling.

Í stuttu máli eru skilyrðin fyrir því að selja megi banka samkvæmt lögum eftirfarandi: „Þegar ákvörðun er tekin um undirbúning og framkvæmd sölumeðferðar eignarhluta skal áhersla lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti. — Þegar tilboð í eignarhlut liggja fyrir skal Bankasýsla ríkisins skila ráðherra rökstuddu mati á þeim. Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutarins.”

Athugið sérstaklega þessi þrjú mikilvægu orð - ráðherra tekur ákvörðun. Ef ráðherra veit ekki að pabbi hans er að kaupa í bankanum sem hann er að selja, þá er hann að vanrækja skyldur sínar. Ef ráðherra er meðvitað að selja pabba sínum hlut í bankanum… þá er hann að beita embætti sínu til að selja pabba sínum ríkiseigur með afslætti!

Mér finnst satt best að segja ótrúlegt að ráðherra reyni að snúa út úr þessu, að hann hafi svo litla trú á vitsmunum fólks að hann telji það yfir höfuð mögulegt. Réttlætingin fyrir því að ráðherra selji pabba sínum þjóðareign á afslætti, er ekki til.

Ef við leyfum Bjarna Benediktssyni að slá ryki í augu þjóðar og komast upp með enn einn embættisglæpinn sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands, er ég ansi hræddur um að hvorki Geir né guð dugi til að blessa Ísland.