Efnisyfirlit

Björninn unninn

   31. mars 2022     2 mín lestur

Á dögunum birtist grein eftir Óla Björn Kárason í Morgunblaðinu um svokallaðar „málfundaæfingar í þingsal,” þar sem hann kvartaði undan því að þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna fullnýti þingfundartíma til að ræða málin og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Í mínum bókum kallast það einfaldlega að vinna vinnuna sína, en gott og vel. Greinin er að mörgu leyti áhugaverð, sérstaklega þegar hún er lesin og skoðuð í víðara samhengi.

Þegar þjóðin hefur gengið til Alþingiskosninga og valið sér fulltrúa, myndar meirihluti kjörinna þingmanna ríkisstjórn samkvæmt samkomulagi sín á milli. Í krafti þess meirihluta öðlast þeir næstum allt vald sem í boði er, þar á meðal hið eftirsótta dagskrárvald – sem skiptir öllu máli á þingi. Um leið og ríkisstjórnarflokkarnir öðlast fullkomið vald til að stýra því hvaða mál komast á dagskrá geta þeir beitt því eins og þeim sýnist. Það gera þeir oftast með því að tryggja að öll þeirra eigin mál komist á dagskrá nefnda, en láta öll mál frá minnihlutanum „deyja í nefnd,“ án tillits til innihaldsins. Eini glugginn sem stjórnarandstaðan hefur til að koma sínum málum að í fyrstu umræðu opnast ekki fyrr en búið er að ræða öll ríkisstjórnarmálin – og þá aðeins ef eitthvað er eftir af þingfundartíma.

Ræðustóll Alþingis er því eini staðurinn þar sem þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa óumdeilanlegt vald til að segja sína skoðun á málum sem ríkisstjórnin velur til umfjöllunar. Það vald ber okkur að nýta sem best – enda er aðhald og gagnrýni eitt veigamesta hlutverk stjórnarandstöðunnar. Svo lengi sem ríkisstjórnin fullnýtir sitt dagskrárvald til að takmarka aðkomu og aðgengi annarra flokka að umræðum og ákvarðanatöku, neyðast þingmenn stjórnarminnihlutans til að nýta þingfundartímann til fulls ef þeir ætla að koma einhverju í verk. Það er óhjákvæmileg afleiðing ákvörðunar meirihlutans um að þvinga málum í gegn með meirihlutavaldi í stað samningaviðræðna. Ég ítreka: afleiðing ákvörðunar meirihlutans, því það eru engar reglur sem kveða á um að dagskrárvaldinu skuli beitt á þennan hátt.

Það sem stjórnarandstaðan kallar eftir eru samningar um afgreiðslu mála, að stjórnarflokkarnir brjóti odd af oflæti sínu og hleypi einhverjum málum stjórnarandstöðu í atkvæðagreiðslu. Krafan er bæði einföld og sanngjörn, en meirihlutinn neitar að koma til móts við þær á nokkurn boðlegan hátt. Svo lengi sem það breytist ekki, neyðast þingmenn minnihlutans til að taka allar samningaviðræður við stjórnarmeðlimi í ræðustól Alþingis. Yfir þessu hneykslast Óli Björn Kárason og notar orðið „málfundaæfingar“ yfir vinnu stjórnarandstöðuþingmanna í þingsal – en ég held að þetta kallist nú bara lýðræði.