Efnisyfirlit

Prestur prófar pólitík ... og rökfræði.

   23. mars 2022     7 mín lestur

Í nýlegum skoðanapistli fjallar Gunnar Jóhannesson, prestur Árborgarprestakalls, um trú mína og fullyrðir meðal annars að það þurfi trú til þess að segja að guð sé ekki til. Það er áhugavert hvernig Gunnar orðar þessa niðurstöðu sína, með upphrópunarmerki meira að segja. Tilefni þessa skoðanapistils Gunnars er tveggja mínútna ræða mín á þingi upp á rétt tæplega 350 orð. Þeirri ræðu svarar Gunnar í rúmlega 2.200 orðum en viðurkennir á sama tíma að hann hafi “ekki heyrt ræðu Björns Levís”. Grein Gunnars er mjög áhugaverð í þessu samhengi. Skoðum hana aðeins nánar.

Gunnar segir: “Burtséð frá því er hin augljósa staðreynd sú að um leið og einhver staðhæfir eitthvað um tilvist Guðs, tilgang og merkingu lífsins, eða líf eftir dauðann o.s.frv. (óháð því hverju hann trúir sjálfur í þeim efnum) þá er um að ræða trúarlegar eða frumspekilegar staðhæfingar. Að því leyti er ég og Björn Leví báðir á sama báti. Við trúum!”

Já og nei. Þetta er bara að hálfu leyti rétt. Auðvitað er það þannig að við trúum hinu og þessu. Ég trúi því að fólk sé að jafnaði heiðarlegt og vel meinandi, til dæmis, þrátt fyrir dæmi um hið gagnstæða. Aðstæður skipta nefnilega máli. Það þarf hins vegar enga trú til þess að ræða tilvist heimsins og tilgang lífsins. Það er hægt að ræða þau mál mtt. trúar en það er ekki nauðsynleg krafa. Ef ég og Gunnar værum að rökræða um tilvist heimsins og hann segist trúa því að guð hafi skapað heiminn þá þarf ég enga trú til þess að svara því með “nei”. Ég get valið að ræða það málefni út frá trúarlegum (með eða án æðri máttarvalda) sjónarmiðum eða vísindalegum. Rétt eins og ég get valið að ræða um heiðarleika út frá trúarlegum eða vísindalegum sjónarmiðum. Þannig að “við trúum!” er rangt ef um er að ræða trú á æðri máttarvöld og rétt ef um er að ræða mannlegar skoðanir.

Til þess að skilja bæði ræðuna mína, og svarið hans Gunnars, þá er nauðsynlegt að gera þennan greinarmun. Gunnar er á báti þess að leggja að jöfnu trú á æðri máttarvöld og trú á mannlega hegðun. Hvort tveggja er umræða um “trú” og þar af leiðandi séu rökin um æðri máttarvöld einhvern vegin á sama stað og mannlegar skoðanir sem hægt er að rannsaka á skipulagðan hátt, eins og hvort fólk sé almennt séð heiðarlegt eða ekki. Þetta er nokkurs konar orðabókarrökvilla, þar sem umræðan er þvinguð á sama stað út af merkingu orðins í orðabók. Í því samhengi er hjálplegt að skoða skilgreininguna á orðinu “trú” í íslenskri nútímamálsorðabók:

1 traust, tiltrú_ hafa trú á 2 __skoðun, álit__ það er trú að <þetta takist=""> 3 __tilbeiðsla, átrúnaður__ ganga af trúnni kasta trúnni snúast til trúar vera blendinn í trúnni

Samkvæmt þessari skilgreiningu orðsins erum við Gunnar alls ekki á sama báti. Til þess að segja “nei” við skoðunum um æðri máttarvöld þarf ekki traust eða tiltrú heldur hið gagnstæða. Það þarf ekki skoðun eða álit heldur spurningar og því síður þarf tilbeiðslu eða átrúnað.

Eitt af því áhugaverðasta sem Gunnar skrifar er þetta: “Sá sem staðhæfir „Guð er ekki til“ og ber þá staðhæfingu fram sem staðreynd, eins og Björn Leví gerir, gerir jú tilkall til þekkingar og er það hans að rökstyðja þá staðhæfingu.”

Hérna er sönnunarbyrðinni snúið á hvolf. Ef ég myndi segja að fljúgandi spaghettískrímslið sé til og fólk þurfi að taka tillit til þess í sínu lífi þá ættu allir að sjálfsögðu að spyrja “hvernig veistu það?” og “af hverju?”. Ef ég slengi fram fullyrðingu um spaghettískrímslið þá get ég ekki varpað sönnunarbyrðinni á aðra. Það virkar nákvæmlega eins fyrir guð hinnar evangelísku lúthersku kirkju og spaghettískrímslið. Ég geri ekkert tilkall til þekkingar heldur hafna ég staðhæfingu presta og allra annara um að guð sé til.

Hér er nauðsynlegt að taka fram hvað ég á við þegar ég nota orðið guð. Þar er ég að vísa í orðabókarskilgreininguna: “yfirnáttúrulegur máttur sem menn trúa á”.

Ég er semsagt að hafna því að það sé til yfirnáttúrulegur máttur. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að það er ýmislegt í náttúrunni sem við skiljum ekki og er alveg tilbúinn til þess að kvitta upp á að það sé til náttúrulegur máttur sem geti haft alls konar áhrif sem er ofar okkar skilningi. Þess vegna hafna ég því þegar fólk reynir að fá mig til þess að trúa einhverju vegna þess að ástæðan er yfirnáttúrulegur máttur. Ég er til í að hlusta á allar skoðanir sem tengjast náttúrulegum mætti vegna þess að sá máttur er sannreynanlegur. Ég þarf ekki að treysta, trúa eða tilbiðja þeim sem staðhæfir.

Næst reynir Gunnar fyrir sér í rökfræði með orðunum: “En getum við að þessum forsendum gefnum (jafnvel þótt við föllumst á þær) dregið þá ályktun að Guð sé ekki til, eða að tilvist yfirnáttúrulegrar veru sé óhugsandi? Að sjálfsögðu ekki! Hér er einfaldlega um rökleysu að ræða hjá Birni Leví - reyndar býsna algenga en bagalega rökleysu. Raunin er nefnilega sú að sannleiksgildi staðhæfingar (hvort hún er sönn eða ósönn) hefur alls ekkert að gera með ástæðuna fyrir því að við föllumst á þá staðhæfingu. Við getum kallað þessháttar rökvillu upprunarökvilluna.”

Hérna lendum við aftur í orðabókarrökvillunni. Rökræðan snýst í raun og veru um hvaða merkingu við leggjum í hugtakið “yfirnáttúrulegur”. Orðabókin segir: “utan við það sem er náttúrulegt, óháður venjulegum náttúrulögmálum”. Ég veit ekki hvar Gunnar takmarkar náttúrulögmálin en mig grunar að þar skilji okkur að. Ég geri mér grein fyrir því að við þekkjum ekki öll náttúrulögmálin enn, en býst fastlega við því að við náum þeim skilningi að lokum. Það þýðir að eins og er, þá er fræðilega séð svigrúm til þess að ætla yfirnáttúrulegum verum áhrif yfir því sem við skiljum ekki. Ég tel það hins vegar óþarft og við þurfum ekki að fylla upp í það sem við skiljum ekki með einhverju yfirnáttúrulegu. Nánar tiltekið hefur hið yfirnáttúrulega ítrekað verið hrakið eftir því sem þekking okkar eykst. Það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að það verði breyting á því í framtíðinni. Dæmin um hið gagnstæða eru hins vegar ótal mörg.

Örstutt um upprunarökvilluna. Gunnar endurtekur hana nefnilega nokkrum sinnum. Það er eilítið kaldhæðnislegt því trú á yfirnáttúrulegar verur byggist á upprunarökvillu.

Það næsta sem Gunnar segir er að ég hafi tileinkað mér “guðleysi sem lífsskoðun.” Nei. Lífsskoðunin mín snýst ekki um að guð sé ekki til. Ég get auðveldlega samþykkt að “guð sé til” sé lífsskoðun Gunnars en hafnað þeirri fullyrðingu á sama tíma. Það kemur lífsskoðun ekkert við heldur forsendum þess sem ég á að trúa þeirri fullyrðingu á. Sjá umfjöllunina um spaghettískrímslið hér fyrir ofan. Að Gunnar trúi á einhverja yfirnáttúrulega veru hefur ekkert að gera með mínar lífsskoðanir. Ég get haft fullt af lífsskoðunum án þess að yfirnáttúrulegar verur hafi eitthvað um það að segja og enn fremur, það er ekki lífsskoðun að Cthulhu sé ekki til nema í skáldverkum.

Kjarnann í grein Gunnars er svo að finna í umfjöllun hans um að tilvist Guðs verði hvorki sönnuð né afsönnuð með óyggjandi hætti. Afleiðingin af því er sú, samkvæmt Gunnari, að ég verði bara að sætta mig við tilvistarlega óvissu þegar kemur að spurningunni um guð. Þessi rökfærsla leiðir af sama stað og áður. Sama stað og alltaf þegar trú á yfirnáttúrulegar verur er rædd. Ef rök Gunnars standast verður hann sjálfur að viðurkenna tilvist Cthulhu, fljúgjandi spaghettískrímslisins, Óðins og Þórs og allra hinna guðanna. Nánar tiltekið fjallar fyrsta boðorð kristinnar trúar um að það séu til aðrir guðir: “Ég er Drottinn Guð þinn, þú skalt ekki aðra guði hafa.”

Mig langar því að spyrja Gunnar. Af hverju velur hann eina yfirnáttúrulega veru fram yfir aðrar? Er það af því að þær eru ekki til eða býður guð hinnar evangelísku lúthersku kirkju eitthvað betur en aðrar yfirnáttúrulegar verur? Hvað með guð annara kristinna söfnuða? Er viti borið líf annarsstaðar í alheiminum og var guð hinnar evangelísku lúthersku kirkju sá sem skapaði það líf? Skapaði sá guð einnig þau sem trúðu á Óðin og Ra? Eða erum við með margar yfirnáttúrlegar verur sem hver um sig skapaði mismunandi hluta hins náttúrulega heims?

Höfum það í huga í allri þessari umræðu að trú og trúarbrögð eru tvennt ólíkt. Trúarbrögð eru stjórntæki, aldagamalt pólitískt kerfi til þess að ráðskast með líf og skoðanir fólks. Trúarbrögð eru valdapólitík yfir lífsskoðunum fólks og nota fullyrðingar um að það séu til yfirnáttúrlegar verur til þess að fá fólk til þess að haga sér á einn veg eða annan. Þess vegna er það alltaf vandræðalegt þegar trúboðar slíkra trúarbragða reyna fyrir sér í rökfræði. Þau lenda alltaf í upprunarökvillunni sem Gunnar sakar mig um að beita. Sú rökvilla er bókstaflega innbyggð í lífsskoðanir þeirra.