Efnisyfirlit

Það eina sem skiptir máli.

   22. mars 2022     2 mín lestur

“Stækkum kökuna!”, er algengur frasi hjá stjórnmálamönnum. Í kjölfarið fáum við yfirleitt alls konar útskýringar um það hvernig stærri kaka sé forsenda fyrir þá sem þurfa á ríkisútgjöldum að halda og nefna öryrkja, heilbrigðiskerfið, skóla og annað slíkt - svo vitnað sé til orða orku- auðlinda og loftslagsráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum fyrr í mánuðinum. Þar fullyrti ráðherrann að Píratar væru á móti hagvexti.

Þessar skoðanir ráðherra lýsa mjög úreldu viðhorfi á hagkerfið en mantra hins óendanlega hagvaxtar hefur einungis skilað okkur græðgi og sjálftöku á kostnað framtíðarkynslóða. Það er löngu kominn tími til þess að við gerum þær kröfur til stjórnmálafólks að það viti betur og geri betur. Þess vegna þurfum við að átta okkur á því að hagvöxtur er ekki það eina sem skiptir máli heldur sjálfbærni.

Ástæðan fyrir því er einföld vegna þess að ef samfélag okkar er sjálfbært þá þurfum við ekki hagvöxt til þess að hafa ofan í okkur og á. Við erum þá með sjálfbæran rekstur opinberrar þjónustu sem stólar ekki á hagvöxt til þess að tryggja réttindi fólks og samfélagsþjónustu. Hérna er mikilvægt að benda á að hagvöxtur getur vissulega verið hluti af sjálfbæru samfélagi enda er hagvöxtur í sjálfu sér ekkert slæmt fyrirbæri. Hagvöxtur er í rauninni bara mælitæki. Að leggja áherslu á aukinn hagvöxt sem sjálfstætt markmið er hins vegar líklegt til þess að vinna gegn sjálfbærniviðmiðum.

Það skiptir nefnilega máli hver markmið okkar eru. Ef vandamálið sem við viljum leysa er litill hagvöxtur finnum við lausnir sem búa til meiri hagvöxt. Þær lausnir eru ekkert endilega góðar í stærra samhenginu. Það eykur til dæmis hagvöxtinn þegar mjólk verður dýrari, svo lengi sem jafn mikið af mjólk er seld. Ef vandamálið sem við viljum leysa er sjálfbærni líta lausnirnar allt öðruvísi út. Um þetta snúast heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og velsældarhagkerfi OECD, að við spyrjum okkur “hvernig er gott samfélag?”

Dæmi um svör við þeirri spurningu er að finna í velsældarviðmiðum OECD, sem fjalla um öruggt og gott húsnæði, menntun, heilsu og ýmislegt annað. Þetta eru mælikvarðarnir sem skipta máli en ekki hagvöxtur. Ef við gerum vel í öllum þessum mælikvörðum skiptir ekki máli hver hagvöxturinn er því það eru ýmsar aðrar leiðir til þess að ná árangri en bara með því að baka stærri köku. Skilvirkari og hagkvæmari leiðir geta til að mynda minnkað hagvöxtinn. Að stjórnmálamenn skilji þetta lykilatriði skiptir öllu máli þegar við horfum til framtíðar og íhugum hvernig samfélag við viljum búa til. Á undanförnum áratugum höfum við búið í hagvaxtarkerfinu. Afleiðingin af því er að við höfum gengið á auðlindir jarðarinnar á kostnað framtíðarkynslóða. Við verðum að gera betur með sjálfbæru hagkerfi.