Efnisyfirlit

Þak yfir höfuðið.

   13. mars 2022     2 mín lestur

Byggjum 20 þúsund íbúðir á næstu fimm árum, samkvæmt formanni Framsóknarflokksins í grein Morgunblaðsins þann 10. mars s.l. Sem ráðherra innviðamála hefði ég búist við að sjá einhverjar tilkynningar um þessa stefnu ríkisstjórnarinnar á vefsíðu stjórnarráðsins en þar er ekkert að finna. Þetta eru greinilega kosningaloforð Framsóknarflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningar sem ríkissjóður á að fjármagna.

Þetta er áhugaverð stefnubreyting hjá Framsóknarflokknum sem hefur ekki talað mikið fyrir uppbyggingu íbúða í undanförnum kosningum. Þar er bara að finna einhverja svissneska leið sem hjálpar fólki að kaupa íbúð með þeirra eigin lífeyrissparnaði eða einhverjar lánaleiðir bara.

Sem dæmi, í síðustu kosningum þá hafði flokkurinn sérstakar áhyggjur af húsnæðisskorti á landsbyggðinni en hefur farið mikinn í að gagnrýna Reykjavíkurborg fyrir að byggja ekki fleiri íbúðir. Þar er hins vegar ráðist á garðinn þar sem hann er hæstur því af öllum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu þá hefur Reykjavíkurborg byggt lang mest, bæði í fjölda íbúða og hlutfallslega. Af 6.000 íbúðum sem eru í byggingu samkvæmt talningu HMS og SI eru um 41% þeirra í byggingu í Reykjavík, sem er umfram hlutfallslega íbúastærð Reykjavíkur (sem er um 36%). Hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru 28% af íbúafjölda landsins og eru að byggja 28% af þeim íbúðum sem nú eru að rísa. Síðustu 36% íbúa eru utan höfuðborgarsvæðisins og þar er verið að byggja 31% íbúða.

Samkvæmt skýrslu Íbúðalánasjóðs um íbúðaþörf 2019 - 2040 þurfti um 1.830 íbúðir á ári, en samkvæmt tölum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar voru byggðar 3.033 íbúðir árið 2019, 3.816 árið 2020 og áætlað að um 3.200 íbúðir hafi verið fullkláraðar á síðasta ári. Það þarf aðeins að spýta í lófana ef það á að ná því markmiði miðað við tölur HMS, ekkert voðalega mikið samt. Ef hin sveitarfélögin væru að byggja jafn mikið og Reykjavík núna, þá væru rúmlega 800 fleiri íbúðir í byggingu sem myndi eiginlega ná að dekka það sem upp á vantar.

Samkvæmt uppfærðum greiningum um þörf á íbúðum í byggingu vantar þá um 1.000. Það þýðir að það vantar um 7 milljarða í húsnæðisstuðning. Samdráttur á því málefnasviði hefur verið 12 milljarðar frá árinu 2016.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem einhver úr núverandi ríkisstjórn reynir að leysa húsnæðisvandann, en þrátt fyrir það hefur vandinn aukist síðan þá. Meðal annars vegna eftirspurnaraðgerða ríkisstjórnarinnar. Þetta tvennt fer saman, samdráttur í húsnæðisstuðningi frá því að ríkisstjórnin tók við og hagstjórnarmistök ríkisstjórnarinnar að kynda á eftirspurnarbálið án þess að koma með framboð á íbúðum til að vega upp á móti. Fyrir það þurfa allir að borga út af verðbólgu sem fer út um allt. Takk Framsókn.