Efnisyfirlit

Að selja banka í stríði.

   3. mars 2022     2 mín lestur

Það er mjög erfitt að einbeita sér að öðrum verkefnum þegar jafn stórir atburðir og stríð í Úkraínu skellur á. Eins aðkallandi og viðbrögð við stríðsástandi eru gerist því miður margt annað á sama tíma sem að sinna. Það rífur athyglina frá því sem er mikilvægast og viðbrögðin verða einfaldlega ekki eins góð fyrir vikið. Sem betur fer erum við samt mörg og getum skipt verkum. Ég fæ til dæmis það mikilvæga en óáhugaverða starf að fylgjast með áframhaldandi sölu Íslandsbanka. Ég myndi glaður vilja sinna viðbrögðum við stríðinu í Úkraínu, vinna í aðgerðum á húsnæðismarkaði, efla heilbrigðiskerfið, uppfæra menntakerfið, laga framfærslutryggingarkerfið eða bara geta sinnt fjölskyldu og vinum.

Verkefni dagsins í dag er hins vegar það að fjármálaráðherra ætlar að halda áfram að selja Íslandsbanka. Það er meiri háttar mál, sérstaklega eftir klúðrið síðast. Það er nefnilega mjög merkilegt að öll gögn sem við fáum frá fjármálaráðuneyti, bankasýslu og álíka aðilum segja okkur að fyrsta útboð Íslandsbanka hafi heppnast mjög vel - og útskýra það bara með því að það hafi verið mikill áhugi og að margir einstaklingar hafi keypt hlut í bankanum. Það var einstaklega heppilegt fyrir þau sem keyptu, auðvitað, því verðið hefur hækkað ansi mikið síðan útboðið fór fram eða um 60% eða svo. Það er ekki annað en hægt að kalla það góð kaup. En mitt verkefni er að skoða hvernig bankinn var seldur. Ekki hvernig hann var keyptur (það er sérstakt verkefni út af fyrir sig).

Þetta er ekkert í fyrsta sinn sem fólk fer í svona söluferli og það er bókstaflega vonast eftir því að markaðsvirði bankans hækki eftir svona frumútboð eins og fór fram síðasta sumar. Hversu mikil hækkun á markaðsvirði er hins vegar eðlileg áður það fara að renna tvær grímur á seljandann? Umsagnaraðilar segja að seljendur búist við svona 10% hækkun. Það myndi teljast vel heppnað útboð út frá sjónarhorni seljanda, miðað við álit umsagnaraðila í fjárlaganefnd. En þegar hækkunin er komin upp í 60% verður maður að spyrja hvers vegna fjármálaráðuneytið er enn að tala um vel heppnað útboð.

Það hlýtur að vera öllum augljóst að út frá sjónarhorni ríkissjóðs, okkar sameiginlega sjóðs, var þessi sala algjör hörmung. Samt ákvað bankasýslan að greiða viðbótarþóknun til ráðgjafa í ljósi “góðrar niðurstöðu”. Þóknun sem endaði í tæplega 1,4 milljörðum króna.

Því miður er verið að selja banka í stríði. Málið fær örugglega ekki þá athygli sem það þarf vegna þess og fjármálaráðherra sleppur örugglega alveg við að bera nokkra ábyrgð á þessu risavaxna klúðri sem sala Íslandsbanka er búin að vera fyrir ríkissjóð. Ráðherra segir bara “vel heppnað” nægilega oft þrátt fyrir að það bókstaflega æpi á okkur hversu mikið klúður þetta mál er.