Efnisyfirlit

Um hvað snýst þetta?

   22. febrúar 2022     2 mín lestur

Þegar ég var að byrja í stjórnmálum kom að mér einn reyndur úr flokkspólitíkinni og útskýrði fyrir mér hvað það þýddi að “ramma inn umræðuna”. Að hann gæti “unnið” allar rökræður ef hann fengi að stjórna því hvert sjónarhornið á umræðunni væri. Það er þess vegna sem við sjáum oft hina ýmsu varðhunda valdsins sífellt útskýra fyrir öllum öðrum um hvað hitt og þetta mál snýst í raun og veru um, með því að gera öðrum upp skoðanir. Í versta falli snýst þá umræðan um þann strámann frekar en málið sjálft og afvegaleiðingin heppnast. Sem dæmi. Það er satt að það hvorki þingið né framkvæmdavaldið eigi að hafa afskipti af störfum lögreglu í miðjum málarekstri. Í nýlegri færslu fjármálaráðherra er einmitt ásökun um að eitthvað slíkt sé í gangi. Stundum er erfitt að gera greinarmun á því hvað er strámaður og hvað ekki vegna þess að efnislega eru rökin rétt - en það er bara enginn að leggja það til að það eigi að trufla störf lögreglu. Það eru allir sammála um að lögreglan eigi að fá frið til þess að sinna starfi sínu. Þau einu sem halda öðru fram eru fjármálaráðherra og hans lið. Það sem er hins vegar gagnrýnt er að hægt sé að nota lögin um kynferðislega friðhelgi til þess að standa í þeim málarekstri sem lögreglan er nú í. Það þýðir ekki að lögreglan eigi að hætta einhverju, enda starfar hún bara eftir lögum. Það þýðir að það þarf að athuga af hverju lögin virka svona - því augljóslega er verið að beita þeim þannig og þingmenn (löggjafinn) þurfa að svara spurningunni hvort svo eigi að vera áfram. Ég bjóst að minnsta kosti aldrei við að lögin ættu að virka svona þegar ég samþykkti þau í fyrra. Ég geri auðvitað ráð fyrir að lögreglan starfi samkvæmt lögum en ég er á þeirri skoðun, sem þingmaður, að lögin eiga ekki að virka svona og tel því að það þurfi að laga lögin - sem fyrst. Áður en þeim er beitt svona gegn fleirum. Á meðan eru þetta auðvitað gildandi lög og það á auðvitað að fara bara eftir þeim lagabókstaf sem er í gildi. Á meðan er auðvitað mjög eðlilegt að það fari fram umræða um túlkun laga, hvernig framkvæmdavald beitir gildandi lögum, hvernig lögregla starfar samkvæmt gildandi lögum og hvernig dómstólar dæma samkvæmt þeim - því það koma sífellt upp ný mál sem passa kannski ekki fullkomlega við gildandi lagaramma - án þess að það þurfi að trufla störf lögreglu eða dómstóla. Hinn möguleikinn, að lögin virki ekki svona er allt annað mál og miklu alvarlegra. Augljóslega. Hvort það sé málið eða ekki kemur bara í ljós eftir málareksturinn í gegnum dómskerfið. Ég tel þetta vera mjög “skapandi” beitingu á lögunum en lögreglan starfar auðvitað bara eins og hún túlkar lögin. Ég geri hins vegar ekkert annað en að styðja að farið sé að lögum.