Efnisyfirlit

Að trúa þolendum.

   13. febrúar 2022     6 mín lestur

Um daginn deildi ég grein með skilaboðunum “ég trúi þolendum”. Áhugaverðar umræður spruttu upp í kjölfarið á því sem gefur mér tilefni til þess að spyrja spurningarinnar hvað það þýðir að trúa þolendum.

Greinin sem ég deildi var eftir starfsmann á skrifstofu Eflingar og meintar ofsóknir formanns og framkvæmdastjóra gagnvart starfsfólki skrifstofunnar. Að segjast trúa þolendum þýðir fyrir mig að ég trúi því sjónarmiði. Á sama tíma þá þýðir það líka að ég trúi útskýringum formanns og framkvæmdastjóra um hvernig það voru ekki ofsóknir. Ég trúi því á þann hátt að það hafi ekki endilega verið markmið þeirra þó starfsfólkið upplifði ofsóknir.

Það eru nefnilega yfirleitt tvö (eða fleiri) sjónarhorn í öllum deilum og sá möguleiki er til staðar að allir hafi rangt fyrir sér eða allir hafi rétt fyrir sér. Þó markmiðið sé ekki að beita ofbeldi getur sá sem hegðunin beinist að samt upplifað ofbeldi. Það geta verið mjög margar ástæður fyrir því og er ein helsta ástæða þess valdaójafnvægi.

Besta útskýringin á slíkum aðstæðum er að finna úr barnæsku. Þú ert lítill krakki sem rekst á hóp eldri og stærri krakka sem fara bara að tala við þig. Bara það geta verið gríðarlega ógnvekjandi aðstæður fyrir þann sem er minni máttar. Ég var úti að labba með dóttur minni í gær og hún var einfaldlega bara hrædd af því að það var dimmt, við það sem gæti leynst í myrkrinu. Auðvitað eldist þetta af okkur að mestu leyti en þessar aðstæður skapast samt mjög oft hjá fullorðnum líka.

Höfum þennan möguleika í huga, hvort sem við trúum því að svona aðstæður geti komið upp eða ekki fyrir fullorðnar manneskjur.

Ég er áhorfandi að atburðunum í Eflingu í gegnum fjölmiðla og tel að ég þurfi, í kjölfar þess að hafa deilt því að ég trúi þolendum, að útskýra það aðeins nánar á hreinskilinn hátt.

  1. Verkalýðsbaráttan var í algerum molum áður en ný forysta mætti á vettvang. Fyrri forysta var algerlega vonlaus málsvari umbjóðenda sinna.
  2. Ég tel að það sé mikil þörf fyrir öflugum talsmönnum verkafólks og mér finnst núverandi forysta vera á réttri leið í þeim málum.
  3. Ég varð fyrir vonbrigðum með, það sem mér fannst vera, ómálefnalega aðför í auglýsingum um Reykjavíkurborg í síðustu kjarasamningum. Ég gerði athugasemd við þá aðferðafræði og sagðist ekki styðja forystu Eflingar í þess háttar málflutningi þó ég styddi kröfurnar að sjálfsögðu. Ég er bara þannig að ef mér finnst eitthvað ekki vera málefnalegt þá bendi ég á það. Enginn á inni stuðning minn til þess að ná góðum árangri með ómálefnalegum leiðum. Það er ein helsta ástæða þess að ég ákvað að taka þátt í pólitík, að uppræta ómálefnalega pólitík. Ég reyni því að benda á hana hvar sem ég verð hennar var.

Nýlega skrifaði Ragnar Þór, formaður VR, grein um skuggahliðar verkalýðsbaráttunnar. Ég get hjartanlega tekið undir með honum, og Sólveigu sem hefur sagt það sama, um það vandamál. Ég er að glíma við nákvæmlega sama vandamál inni á þingi. Það er aðeins betra þar núna eftir að við fengum fullt af nýliðum í stjórnarliðið en það er spurning hversu lengi það endist. Ég hef trú á nýliðunum, allavega enn sem komið er. Við komum til með að sjá hvað gerist þegar reynir á. Ég trúi því þegar Sólveig og Viðar segja að þau hafi þurft að berjast gegn því skuggavaldi inn á skrifstofu Eflingar. En …

Ég trúi því ekki að þar liggi allt starfsfólk skrifstofunnar undir. Ég trúi því ekki að það séu samantekin ráð allra starfsmanna þar að reyna að grafa undan baráttu Sólveigar og Viðars í verkalýðsmálum. Ég trúi því að í baráttu þeirra hafi aðrir upplifað þann vanda sem lýst er í greininni sem ég deildi, þar sem ég trúði þolendum. Allt þetta getur verið satt, þó að ég sem áhorfandi geti ekki greint hvað liggur þar að baki. Myndin í fjölmiðlum er oft mjög þröngsýn.

Það þýðir að ég trúi því að forysta Eflingar hafi fengið á sig ómálefnalega gagnrýni frá ýmsum aðilum, meðal annars einhverjum úr skrifstofu Eflingar. Ég trúi því að viðbrögð forystu Eflingar gegn því hafi haft áhrif á fleiri en áttu það skilið. Þess vegna trúi ég þolendum.

Málið er hins vegar aðeins flóknara en þetta. Ástæðan fyrir því að ég skipti mér af þessu yfirleitt var að ég hef ákveðna persónulega innsýn frá öðru sjónarhorni. Þar er ég mjög hlutdrægur þannig að fólk tekur því bara með öllum þeim fyrirvörum sem því fylgja. Svo er mál með vexti að móðir mín býr í kjallara hússins sem Sólveig Anna býr í. Þær búa þarna saman í tvíbýli. Í kjölfar þess að Sólveig Anna sagði í umræðum í Kastljósi á dögunum að það húsnæði væru mannréttindi gat móðir mín ekki setið á sér lengur og gerði athugasemd við færslu mína um hvernig íbúðin hennar er skemmd út af vegna atriða sem efri hæðin ber ábyrgð á og hvernig hefur gengið seint og illa að fá úrlausn á þeim málum. Samskiptin sem móðir mín hefur átt vegna húsnæðismálanna líkjast mjög mikið þeim samskiptum sem starfsmenn Eflingar lýsa í sinni grein, þess vegna trúi ég þeim lýsingum.

Aftur, ég minni á hlutdrægni mína hérna og bið fólk bara að taka alvarleika þessarar skoðunar með tilliti til þess. Kannski finnst einhverjum þessi skoðun mín alvarlegri en mér. Það verður bara að vera þannig. Kannski finnst einhverjum skoðun mín ekki vera nægilega alvarleg. Það verður þá bara að vera þannig líka.

En nú vil ég vera skýr, því það skiptir máli. Ég styð samt áframhaldandi verkalýðsbaráttu í anda þess sem Sólveig hefur komið með inn í Eflingu. Ég hefði ekkert á móti því að hún væri áfram formaður Eflingar. Það þýðir ekki að ég hætti að gagnrýna það sem mér finnst vera gagnrýnivert því að fólk í ábyrgðarstöðum á að þola aðhald. Ég er í ábyrgðarstöðu og vil aðhald. Ég er ekki fullkominn og ætlast til þess að fá hjálp og ábendingar ef ég bulla eitthvað. Það gerist og þá biðst maður bara afsökunar. Ég hef gert það nokkrum sinnum og geri vonandi betur næst.

Við verðum að átta okkur á því að pólitíkin er ógeðsleg. Hún er ógeðsleg af því að inn á milli er fólk sem blygðunarlaust lýgur og þjösnast og beitir alls konar brögðum. Flestir gera það af því að það er “hluti af leiknum”, ekki af því að þau eru persónulega óheiðarleg. Nákvæmasta lýsingin á þessu er Morfís uppnefnið sem er oft notað í því samhengi. Fólk vill ná ákveðnum árangri og beitir öllum aðferðum sem það kemst upp með. “Tilgangurinn helgar meðalið”, sagði Macciavelli í íslenskri þýðingu. Þannig pólitík eigum við að hafna. Það þýðir ekki að við höfnum endilega fólki, bara aðferð. Endurtekinn brotavilji er hins vegar annað mál.

Ef það er eitthvað sem ég vil að sitji eftir hjá fólki úr þessum pistli þá er það: “Ég styð samt áframhaldandi verkalýðsbaráttu í anda þess sem Sólveig hefur komið með inn í Eflingu. Ég hefði ekkert á móti því að hún væri áfram formaður Eflingar.” Vinsamlegast gerið ráð fyrir því að þessi setning sé einkennandi fyrir þann texta sem ég skrifa hérna.

Félagsmenn Eflingar eru lánsamir að hafa góða frambjóðendur til þess að velja á milli. Ég held að niðurstaðan verði góð fyrir félagsmenn hvort sem A eða B-listinn verða hlutskarpastir (já, ég veit að það er einn listi í viðbót í framboði).