Efnisyfirlit

Hver fær kökuna

   12. febrúar 2022     2 mín lestur

Fjármálaráðherra segir að hvergi á Norðurlöndunum sé betur gert og heimilin hafi aldrei haft það betra. En er það rétt?

Frá því fyrir eftir hrun hefur verðbólgan verið um rúmlega 37%. Það sem kostaði einu sinni 100 kr. kostar núna 137 kr. Launavísitala hefur hins vegar hækkað um 54% sem þýðir að sá sem fékk áður 100 kr. í laun fær nú 153 kr. Á sama tíma hefur landsframleiðsla hækkað um 17% (ef við horfum fram hjá Covid). Miðað við þetta lítur dæmið ágætlega út. Við fáum meira fyrir krónurnar okkar en áður. En þetta eru meðaltöl. Hvað gerist þegar við skoðum málið nánar?

Húsnæðisvísitalan hefur hækkað um 126% á sama tíma sem þýðir að húsnæði sem kostaði 100 kr. árið 2010 kostar núna 226 kr. Vísitala leiguverðs er bara til síðan 2011 en leiga hefur hækkað um 109% síðan þá, þannig að íbúð sem kostaði 100 kr. í leigu kostar núna 209 kr.

Þetta sýnir svart á hvítu að það er ekki hægt að tala bara um meðaltöl vegna þess að hjá sumum eru útgjöld vegna húsnæðis miklu stærri hluti af mánaðarlegum útgjöldum en hjá öðrum. Þau sem eru á lægri launum þurfa alla jafna að eyða stærri hluta af ráðstöfunartekjum í húsnæði en þau sem eru á hærri launum.

Þegar nánar er skoðað hvernig launahækkanir umfram verðbólgu hafa skilað sér þá hafa tekjur þeirra sem eru á lágmarkslaunum hækkað um 34,9% og þeirra hópa sem eru á hæstu laununum um 20,8%. Það þýðir að laun eru að jafnast út. Á sama tíma hafa eignir þeirra með lægstu launin aukist um 31,4% en þau með hæstu launin um 44,2%. Hér er ekki bara hægt að leggja saman prósentur og segja að þau með lægstu launin hafi fengið meiri hækkun því tölurnar á bak við eru misstórar.

Eignaaukning þeirra ríkustu er um 687 milljarðar á meðan eignaaukning þeirra sem eru á lágmarkslaunum er 7,4 milljarðar. Á sama tíma fá þau á hæstu laununum um 79 milljörðum meira í laun og þau á lágmarkstekjum um 26 milljörðum. Í heild hafa þau sem eru á hæstu laununum fengið um 766 milljarða frá því eftir hrun í tekjur og eignir á meðan þau á lægstu laununum hafa fengið 33,5 milljarða. Ef við leggjum saman tölurnar þarna á bak við kemur í ljós að heildin, eign + heildartekjur, hefur aukist um 34% hjá þeim sem eru á lægstu laununum en um 39,6% hjá þeim sem eru með hæstu launin.

Þarna birtist gliðnunin á undanförnum áratug sem oft er talað um í pólitískri umræðu. Eignaójöfnuðurinn svokallaði. Svona skiptist kakan.

Ég biðst afsökunar á þessari talnasúpu en ef fólk á lægstu laununum fær minna og þarf að borga meira, hvernig hafa heimilin það betur en nokkurn tíma áður? Sérstaklega af því að það er satt. Ástæðan er að sumir hafa það betra. Meðaltalið er betra. Fjármálaráðherra getur montað sig af meðaltölum, fyrir suma. Fyrir alla aðra er kak­an lygi.