Efnisyfirlit

Útgerðin kostar þig 5000 kr.

   3. febrúar 2022     2 mín lestur

Á hverju ári lætur Hafrannsóknarstofnun okkur vita hversu mikið er hægt að veiða af fiski úr sjónum í kringum landið. Á hverju ári fá skip hlutdeild af því magni gegn því að greiða veiðigjald til baka. Veiðigjaldið er í sinni einföldustu mynd þriðjungur af verðmæti aflans eftir að búið er að draga frá allan kostnað.

Hér er rétt að athuga að veiðigjaldið er eftir kostnað útgerðarinnar en fyrir kostnað ríkisins. Árið 2020 voru heildarkostnaður ríkisins við rekstur vegna sjávarauðlindarinnar um 6,1 milljarður króna. Hafrannsóknarstofnun um 3,1 milljarður, Matís 48 milljónir, Fiskistofa 895 milljónir, Verðlagsstofa skiptaverðs 49 milljónir, Alþjóðasamvinna 129 milljónir, skrifstofa fiskveiðistjórnunar 129 milljónir, MAST 84 milljónir og Landshelgisgæslan tæplega 1,7 milljarður.

Árið 2020 fékk ríkissjóður 4.853 milljónir í veiðigjöld samkvæmt ríkisreikningi. Af þessum þriðjungi af leiðinda reikniformúlunni er það er rúmlega 1,2 milljarður í tap fyrir ríkissjóð vegna sameiginlegrar auðlindar landsmanna. Þetta þýðir að arður útgerðarinnar vegna aðgangs að sameiginlegri sjávarauðlind voru 9,7 milljarðar.

Ef við hugsum um þetta í örstutta stund. Útgerðin fær að veiða úr sameiginlegri auðlind og greiða veiðigjald af verðmætum eftir að búið er að dekka allan kostnað. Þetta veiðigjald á að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Það á að borga fyrir þriðjung af starfi Landhelgisgæslunnar okkar en í staðinn þurfum við öll að borga með þessum rekstri. Það voru rúmlega 5.000 kr. á hvern fullorðinn einstakling á ári sem við borguðum með útgerðinni árið 2020. Á sama tíma fær útgerðin 41 þúsund krónur í vasann fyrir hvern fullorðinn einstakling.

Í rauninni fá sum útgerðarfyrirtæki meira af því að þau fá afslátt ef þau selja aflann beint til eigin vinnslu, nokkurs konar tilfærslu á verðmæti aflans frá útgerðinni til vinnslunnar. Sérmeðferð sem er hrein meðgjöf framhjá veiðigjöldum. Ýmislegt annað er undarlegt í lögum þegar kemur að útgerð, eins og hvað teljast tengdir aðilar.

Útkoman, þegar allt kemur til alls, hefur verið jákvæð upp á um 500 milljónir á ári eða svo að meðaltali á undanförnum sex árum (2015 - 2020). Útkoman var mjög neikvæð fyrir ríkissjóð árið 2020 hins vegar og verður það líklega líka árið 2021. Það er að öllu leyti ömurlegt því að sjálfsögðu ætti arður þjóðarinnar af sjávarauðlindinni einnig að vera eftir kostnað.

Þetta er afleiðing pólitískrar ákvarðanatöku. Afleiðing þess að hagsmunaflokkar reyna að vera “sanngjarnir” í lagasetningu um sameiginlega auðlind. Sanngirni sem skilar sér í vasa bestu vina aðals.