Efnisyfirlit

Plastplat

   24. janúar 2022     2 mín lestur

Í greinarröð Stundarinnar “plastið fundið” kemur í ljós að í júlí 2020 vissi framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóð af plastplatinu mikla, hvernig íslenskt plast endaði í raun í vöruskemmu í Svíþjóð en ekki í endurvinnslu. Í september 2020 kynnti umhverfisráðherra aðgerðaráætlunin “úr viðjum plastins” þar sem ein af þremur áhersluatriðum er aukin endurvinnsla plasts.

Ríkissjóður innheimtir rúma 2 milljarða á ári í úrvinnslugjald sem notað er til þess að greiða fyrir endurvinnslu plasts. Það verður því að segjast að það eru stórkostleg svik við alla sem greiða þetta gjald í góðri trú um að verið sé að kaupa endurvinnslu fyrir þetta gjald. Í ljósi þess að framkvæmdastjóri opinberrar stofnunnar hefur vitað af þessum vanda síðan um mitt ár 2020 verður að spyrja mjög stórra spurninga um hvert sú vitneskja fór í kjölfarið.

Málið var fyrst upplýst í október 2020 og er málið rætt á fundi stjórnar Úrvinnslusjóðs í upphafi nóvember. Síðan þá hefur nákvæmlega ekkert verið gert því enn meira plast hefur verið sent í þessa vöruskemmu á undanförnum mánuðum. Vandi stjórnvalda í þessu máli er því tvíþættur. Annars vegar hverjir vissu um málið hvenær og af hverju ekkert var gert í málinu eftir að upplýst var um vandann.

Úrvinnslusjóður starfar samkvæmt sérstökum lögum um sjóðinn. Lögin fjalla um úrvinnslugjald. 22 kr. fyrir hvert kíló af pappír og 28 kr. fyrir hvert kíló af plasti, en undanþága er veitt frá þessu gjaldi ef viðkomandi vara er sannarlega flutt úr landi og komi ekki til úrvinnslu hér á landi. Ef gjaldskyld vara sannarlega flutt úr landi og komi ekki til úrvinnslu hér á landi skal endurgreiða gjaldskyldum aðila úrvinnslugjald sem greitt hefur verið af viðkomandi vöru.

Það lítur því út fyrir að hér geti einhver verið í ágætis málum að taka við plasti, flytja það út og fá endurgreiðslu úrvinnslugjalds fyrir. Samkvæmt frétt Stundarinnar eru það íslensku endurvinnslufyrirtækin Íslenska gámafélagið og Terra sem fá hátt í hundrað milljónir endurgreiddar vegna þessa. Við verðum því að spyrja mjög stórra spurninga í þessu máli. Þetta er algjört klúður sem stjórnvöld eru búin að vita af í að minnsta kosti eitt og hálft ár. Klúður sem varðar skattfé og ábyrgð.

Hver mun bera ábyrgð að lokum? Einhver? Við búum nefnilega í mjög ábyrgðarlausu samfélagi, sérstaklega þegar kemur að pólitíkinni. Munu stjórnvöld hafa frumkvæði að því að upplýsa betur um þetta mál eða verður þetta enn eitt skiptið sem samtryggingin verður virkjuð? Eins og greinarröð Stundarinnar ber með sér hefur verið gríðarlega erfitt að fá svör við fyrirspurnum sem er helsta einkenni þess að verið sé að fela eitthvað. Ég býst ekki við miklu, af gefinni reynslu. Ég held að þau haldi áfram að plata okkur.