Efnisyfirlit

Ólafur Ragnar skemmdi stjórnarskránna. Tvisvar.

   15. janúar 2022     2 mín lestur

Stjórnarskráin var gölluð áður en fv. forseti Ólafur Ragnar skemmdi hana en gallarnir urðu að veruleika þegar fv. forseti lét á þá reyna. Hvað er ég að tala um? Það eru þau tvö ákvæði sem fyrrverandi forseti lét á reyna. Fyrst með því að hafna að skrifa undir lög og svo þegar hann hafnaði þingrofsbeiðni þáverandi forsætisráðherra. Hér þurfum við aðeins að láta liggja á milli hluta hvað okkur finnst um þessar ákvarðanir fyrrum forseta.

Til þess að átta sig á því af hverju þessar ákvarðanir fyrrum forseta skemmdu stjórnarskránna þá þarf smá samhengi. Við þurfum að átta okkur á því hvernig er farið með opinbert vald á Íslandi. Á Íslandi er þingbundið lýðræði, sem þýðir að þingið setur lög og hefur eftirlit með framkvæmd þeirra laga. Framkvæmdavaldið, sem ríkisstjórnin fer með verður svo að fara eftir lögum. Ef ráðherra ætlar að hreyfa svo mikið sem litla putta verður að vera heimild fyrir því í lögum á einhvern hátt. Þess vegna eru lög um skráningu á því hvern ráðherra hittir, lög um ábyrgð ráðherra, upplýsingalög og lög sem vernda þá sem ljóstra upp um misferli sem ráðherra ber ábyrgð á. Forseti er svo á mjög skrítnum stað í stjórnkerfinu, konungur sem var að þróast í að verða valdalaus.

Forseti getur gert ýmislegt samkvæmt bókstaf stjórnarskrárinnar. Hann getur lagt fram frumvörp, sett bráðabirgðalög, neitað að skrifa undir lög, fellt niður saksókn, veitt undanþágu frá lögum og ýmislegt annað sem við áttum okkur á í dag að er alls ekki hluti af því sem einhver forseti ætti að geta gert. Ég býst ekki við að íslenskur forseti ákveði að fella niður saksókn, svo dæmi sé tekið, en valdið er samt til staðar. Eða hvað? Því samkvæmt stjórnarskrá þá lætur forseti ráðherra framkvæma vald sitt.

Hvernig skemmdi Ólafur þá stjórnarskránna? Íslenska stjórnarskráin er með svipað ákvæði og sú danska um að forsetinn (og drottningin) skrifa undir lög sem þingið hefur samþykkt. Samkvæmt okkar stjórnarskrá þýðir það að lögin fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. En er það í alvörunni hluti af valdi forseta að neita að skrifa undir? Er forseti ekki búinn að láta ráðherra í té vald sitt? En hvað með þingrof sem ráðherra biður um? Getur forseti bara neitað því líka? Bókstaflega svarið við því er já en margir hafa haldið því fram að fræðilega svarið sé nei, þar sem forseti lætur ráðherra framkvæma vald sitt.

Þegar Ólafur Ragnar ákvað hvernig skyldi túlka þessi orð skemmdi hann gölluðu stjórnarskránna. Allt í einu framseldi forseti ekki vald sitt til ráðherra sem þýðir að forseti getur samkvæmt bókstaf stjórnarskrárinnar fellt niður saksókn, rofið þing og veitt undanþágur frá reglum. Ólafur Ragnar bjó til nýjan konung Íslands - og gat það af því að stjórnarskráin okkar er gölluð.