Efnisyfirlit

Jólasveinninn er ekki til

   27. desember 2021     2 mín lestur

Við vitum það öll. Foreldrar setja dót í skóinn hjá börnunum sínum. Jólasveinninn er ekki til en við þykjumst samt, vegna hátíðar, hefðar og barna. En hvers vegna? Er það út af þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1862? Er það út af myndskreytingum Tryggva Magnússonar frá 1932? Er það út af hefðinni frá fyrri helmingi síðustu aldar að setja í skóinn?

Við höldum gleðileg jól, en ekki Kristsmessu samt eins og margar aðrar þjóðir. Jól eru mun eldri hátíð en Kristsmessa enda er ansi langt síðan mannveran tók eftir því að þetta var um það leyti sem dagurinn fór að lengjast aftur á norðurhveli jarðar. Þeirri uppgötvun fylgdi örugglega ákveðin gleði og hátíð, þó hún nefndist örugglega ekki jól fyrr en seinna. Við ákváðum augljóslega að breyta ekki gömlum siðum þrátt fyrir að einhver ný trúarbrögð væru að ryðja sér til rúms og yfirtaka gömlu jólahefðina.

Hefðir eru undarlegt fyrirbæri sem úreldast með tíð og tíma og nýjar hefðir taka við. Einu sinni skreytti enginn tré eða setti undir það pakka. Einu sinni voru ekki til jólasveinar og einu sinni var ekki til guð. En einhvern tíma bjó mannveran til þessi fyrirbæri og ákvað að halda með þeim upp á bjartari tilveru í dag en í gær. Til þess að viðhalda hátíðinni höfum við meira að segja sett lög um helgidagafrið, svona til þess að lögreglan geti nú sektað eða svipt starfsleyfi þau sem eru ekki til friðs.

Þó jólin séu í rauninni ekki til, ekki kristsmessa, ekki jólasveinar, grýla eða guð, þá eru frídagarnir til. Samkvæmt lögum. Sérstakir frídagar okkar eru helgidagar þjóðkirkjunnar, sumardagurinn fyrsti, 1. maí og 17. júní, einnig aðfangadagur jóla og gamlársdagur frá kl. 13. Einnig hefur fyrsti mánudagur í ágúst verið frídagur frá 1983. Vinnuvika, samkvæmt lögum, er svo frá mánudegi til föstudags.

Allir almennir frídagar, nema frídagur verslunarmanna og sumardagurinn fyrsti, geta komið upp um helgi. Þeir helgidagar kirkjunnar sem ávallt koma upp á sunnudögum redda því með því að búa til annan helgidag daginn eftir. Þrátt fyrir að það sé augljóslega engin helgi yfir þeim dögum, þeir eru bara þarna til þess að gefa fólki frí.

Við ákveðum okkar hefðir og frí. Við ákveðum hvernig við höldum upp á þau tilefni sem okkur finnst hátíðleg. Einu sinni var meira að segja þriðji í jólum frídagur, ásamt þrettándanum og þriðja í hvítasunnu. Stór hluti af hátíðinni er frí frá vinnu. Frí til þess að geta haldið upp á tilefnið, en líka bara frí til þess að geta sinnt sér og sínum. Vegna þess hvernig frídagar flakka milli vinnudaga erum við með að lágmarki 8 frídaga og í mesta lagi 13, þó við séum í raun með 16 lögbundna frídaga.

Ættum við ekki að laga þetta? Því eins og jólasveinninn er mannanna verk þá eru lögbundnir frídagar það líka.