Efnisyfirlit

Embættismennirnir sem ráða öllu

   17. nóvember 2021     2 mín lestur

Oft er sagt að embættismenn ráði öllu og pólitískir fulltrúar hafi engin áhrif. Það er dálítið merkilegt því oft er líka talað um hvernig ráðherra ræður öllu. Hvort tveggja getur ekki verið satt á sama tíma. Annað hvort erum við undir hælnum á ráðherra eða embættismönnum, ekki satt?

Áður en ég svara þeirri spurningu neitandi finnst mér merkilegt að benda á í því samhengi að aldrei er talað um að Alþingi ráði neinu. Þrátt fyrir að við búum í þingbundnu lýðræði. Það er nefnilega þannig að samkvæmt stjórnarskrá á það að vera þingið sem ræður. Það er þingið sem setur stefnuna, samþykkir fjárlög og passar upp á að framkvæmdavaldið fari eftir lögum og reglum.

En aftur að spurningunni sem ég svaraði neitandi. Hvort tveggja er nefnilega satt. Við erum bæði með ráðherraræði og embættismannakerfi. Við eigum hins vegar bara að hafa annað þeirra og það er ekki ráðherraræðið. Við eigum að hafa faglega stjórnsýslu sem sinnir skyldum sínum samkvæmt lögum og reglum og passar upp á réttindi borgaranna á hlutlausan hátt. Við eigum að hafa þingræði sem snýst um pólitíska stefnumörkun. Við eigum ekki að hafa ráðherraræði.

Eins og er þá er kerfið einfaldlega rangt stillt. Þingið eftirlætur öll sín völd til ráðherra í skjóli meirihluta þings. Sami meirihluti kemur í veg fyrir eðlilegt eftirlit með störfum framkvæmdavaldsins til þess að verja sinn ráðherra, en kemur á sama tíma í veg fyrir eftirlit þingsins með störfum embættismannakerfisins. Ráðherra á hins vegar að vera fulltrúi þingsins innan faglegrar stjórnsýslu. Ráðherra mætir ekki í ráðuneytin til þess að “ráða” öllu, þó nafnið beri það með sér. Starf ráðherra er að fylgja stefnumörkun þingsins eftir og vera svo til svara opinberlega um það hvernig fagleg stjórnsýsla kemur þeirri stefnu í gagnið.

Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því hvernig kerfið á að virka og hvernig það er ekki farið eftir því. Það er til dæmis augljóst að núverandi og verðandi ríkisstjórn er alveg sama um þingræðið, sérstaklega eftirlitið gagnvart framkvæmdavaldinu. Ástæðan fyrir því er augljós, það er til þess að verja “sinn” ráðherra. Ef ráðherra væri hins vegar fulltrúi þingsins gagnvart faglegri stjórnsýslu en ekki alltaf í vörn vegna eigin geðþótta, þá væri staðan önnur.

Í staðinn verður faglega stjórnsýslan bara stjórnsýsla, en ekki fagleg. Því það þarf engin faglegheit til þess að fara eftir geðþóttaákvörðunum ráðherra. Afleiðingin er ógagnsæ fjármálaáætlun og fjárlög þar sem enginn veit í rauninni hvernig er verið að fara með almannafé. Vandinn er flokkspólitíska ráðherraræðispólitíkin sem við búum við og enn og aftur lítur út fyrir að við þurfum að þola ráðherraræði í enn fleiri ráðuneytum, enn eitt kjörtímabilið.