Efnisyfirlit

Öfgar sem við kunnum ekki á

   8. nóvember 2021     2 mín lestur

Samfélagsumræðan hefur fjallað eilítið um öfgar undanfarna daga. Nánar tiltekið hvernig viðbrögð við ýmsum atburðum eru öfgafull, dómstóll götunnar hafi tekið til starfa og sé allt í senn - lögregla, dómari og böðull. Það eru mörg dæmi í mannkynssögunni sem ættu að kenna okkur hversu slæm hugmynd dómstóll götunnar er.

En. Og þetta er risastórt en. Dómstóll götunnar glímir við mál sem við ættum líka að hafna. Af því að ef við gerum það ekki, ef við hunsum vandann þá verður slíkur dómstóll óhjákvæmilega til. Þetta er einfaldur sannleikur sem við verðum að skilja, hvar orsök og afleiðing liggur.

#metoo byltingin snérist um að rjúfa þögnina. Að segja frá því ofbeldi sem ætti sér stað allt of oft. Að kenna fólki hvað væri óboðlegt og yrði að ljúka. Það þýðir líka að ef einhver brýtur af sér þá hljóti því að fylgja einhver refsing. Réttlætiskennd okkar býður ekki upp á annað. En hvað er viðeigandi refsing? Réttlætið sættir sig heldur ekki við of harða refsingu. Það þarf nefnilega að vera pláss fyrir bót og betrun.

Hér liggur vandinn sem við glímum við þessa dagana. Við vitum ekki hvað er viðeigandi refsing eða hvernig á að afsaka eða fyrirgefa í þessum málum. Sumir benda á að þetta sé verkefni dómstóla - en hunsa á sama tíma hvernig réttarkerfið hefur gersamlega brugðist þolendum í þessu málaflokki. Aðrir garga á dómstól götunnar og ásaka þau sem standa að baki honum um öfgar og aftökur og taka þannig stöðu með gerendum í klassískri meðvirkni þar sem það er verra að benda á brotið en að fremja það. Enn aðrir segja bara að þetta sé allt í plati, sem er örugglega versta afstaðan sem hægt er að taka í þessum málum. Því þó við eigum að trúa þolendum þá þýðir það ekki sjálfkrafa að við dæmum gerendur. Oft þarf ekkert meira en stuðning og skilning.

Vandinn sem #metoo benti á er ekki nýr. Hann er jafn gamall og samfélag manna. Nú mætir kynferðislegt ofbeldi hins vegar samfélagsmiðlum þar sem þöggun er einfaldlega ekki til, sama hvað fólk reynir - og staðreyndin er að sem samfélag vitum við ekki hvernig á að bregðast við því. Mig langar því að beina samfélagsumræðunni þangað og spyrja hvernig viðbrögðin eiga að vera? Hvað uppfyllir réttlætiskennd okkar í svona málum á tímum samfélagsmiðla? Við vitum alveg að það verður aldrei réttarkerfið, það hefur aldrei staðið undir væntingum í kynferðisbrotamálum, af ýmsum ástæðum. Hvað þá? Því þetta er ekkert að fara að hverfa. Því þarf að svara þessari spurningu, fyrr en síðar.