Tífaldur arður sjávarútvegs.
Nýr leiðari Kjarnans spyr spurningarinnar hvort það sé eðlilegt að sjávarútvegurinn borgi meira í arð en skatta. Já, vissulega getur það verið eðlilegt. En eðlilegri spurning finnst mér vera hvort arðgreiðslur sjávarútvegsins eigi að vera tífalt hærri en samfélagsins?
Í leiðara kjarnans er fjalla um vandamálið:
Á árinu 2020 greiddu sjávarútvegsfyrirtæki landsins, þ.e. þau sem stunda útgerð, alls 17,4 milljarða króna í opinber gjöld. Þar er um að ræða tekjuskatt, tryggingagjald og hið sértæka veiðigjald, sem samtals nam 4,8 milljörðum króna. Þau hafa einungis einu sinni greitt lægri upphæð innan árs í sameiginlega sjóði frá árinu 2011. Mest greiddu þau árið 2013 þegar bein opinber gjöld geirans voru 24,5 milljarðar króna, eða 41 prósent hærri en þau voru í fyrra.
Á síðasta ári greiddu eigendur sjávarútvegsfyrirtækja sér út arð upp á 21,5 milljarða króna. Það var hæsta arðgreiðsla sem atvinnugreinin hefur greitt til eigenda sinna á einu ári.
Allir greiða hefðbundin opinber gjöld (tekjuskatt, tryggingagjald, virðisaukaskatt, …). Veiðigjaldið er aukagjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind okkar og á að standa undir rekstri þeirrar auðlindar og væntanlega skila þjóðinni einhverjum arði af nýtingu hennar. Það er því ekki hægt að sameina þessi gjöld til þess að sýna fram á það hversu mikil skattlagning er á útgerðinni því annars vegar er um skattlagningu að ræða, eins og hjá öllum öðrum og hins vegar um greiðslur fyrir aðgengi að sameiginlegri auðlind. Einhverjir vilja væntanlega fara í hártoganir um að það teljist bara víst sem “skattur” orðabókarskilgreiningarlega séð. Já já, þau mega alveg eiga þá umræðu bara út í horni. Þó þetta væri tæknilega séð skattur þá er samt munur á þessu gjaldi og þeim hefðbundnu.
Allavega, fyrir veiðigjaldið þarf hið opinbera að reka eftirlit og rannsóknir með sjávarauðlindinni. Þar á meðal eru Hafrannsóknarstofnun, Matís, Fiskistofa, Verðlagsstofa skiptaverðs, alþjóðasamvinna, skrifstofa fiskveiðistjórnunar, MAST og landhelgisgæslan. Sá kostnaður er um 5,5 milljarðar á ári (gróflega áætlað á verðlagi 2020). Það þýðir að í hvert skipti sem veiðigjöld eru undir þeim kostnaði er ríkissjóður að greiða með útgerðinni. Skoðum sundurliðun.
Rekstrarkostnaður Landhelgisgæslunnar vegna sjárvarútvegs
Áætlun 2021 | Heildarkostn. (m) | Hlutfall fiskv.eftirl. | Hlutfall í kr. |
---|---|---|---|
Stjórnstöð | 195,1 | 55% | 107,3 |
Aðgerðasvið | 100,6 | 30% | 30,2 |
Skip | 1.076,1 | 50% | 538,0 |
Loftför | 3.150,9 | 30% | 945,3 |
Stoðþjónusta | 336,0 | 15% | 50,4 |
Samtals | 4.858,7 | 34,4% | 1.671,2 |
Árlegur heildarkostnaður ríkissjóðs við stjórn, umsjón, rannsóknir og eftirlit með fiskveiðum og fiskvinnslu sl. 6 ár. (framlag ríkissjóðs)
Stofnun | 2015 | 2016 | 2017 | 2018 | 2019 | 2020 |
---|---|---|---|---|---|---|
Hafrannsóknastofnun | 1.749 | 1.854 | 2.135 | 2.516 | 2.942 | 3.127 |
Matís | 106 | 91 | 116 | 67 | 70 | 48 |
Fiskistofa | 988 | 903 | 945 | 858 | 884 | 895 |
Verðlagsstofa skiptaverðs | 21 | 23 | 36 | 48 | 49 | 49 |
Alþjóðasamvinna | 109 | 94 | 92 | 89 | 130 | 129 |
Skrifstofa fiskveiðistjórnunar | 150 | 150 | 168 | 160 | 168 | 169 |
MAST | 76 | 77 | 79 | 81 | 82 | 84 |
Samtals (verðlagsuppfært) | 3.656 | 3.586 | 3.942 | 4.107 | 4.514 | 4.502 |
Miðað við um 1,5 milljarða í rekstur Landhelgisgæslunnar á ári vegna sjávarútvegs, þá er veiðigjald og kostnaður eins og hér sést.
Ár | 2015 | 2016 | 2017 | 2018 | 2019 | 2020 |
---|---|---|---|---|---|---|
Veiðigjald | 3.310 | 8.501 | 6.237 | 11.417 | 6.850 | 4.825 |
Kostnaður | 5.156 | 5.086 | 5.442 | 5.607 | 6.014 | 6.002 |
Samtals | -1.846 | 3.415 | -1.205 | 5.810 | 836 | -1.177 |
Heildararður ríkissins vegna veiðigjalda er því um 5.8 milljarðar á 6 árum eða tæpur milljarður á ári. Heildargjöld eru hærri en á móti koma rekstrartekjur stofnananna. Ég reiknaði það áður inn í heildarkostnaðinn er það er rétt að halda því til hliðar. Berum þetta saman við arðgreiðslur:
Á síðasta ári greiddu eigendur sjávarútvegsfyrirtækja sér út arð upp á 21,5 milljarða króna. Það var hæsta arðgreiðsla sem atvinnugreinin hefur greitt til eigenda sinna á einu ári.
Í stærra samhengi eru þetta að meðaltali um 10 milljarðar á ári í arðgreiðslur, þar er virðisaukning fyrirtækjanna sjálfra fyrir utan sviga.
Samtals hagnaðist sjávarútvegurinn um 468 milljarða króna frá byrjun árs 2009 og til loka árs 2020. Frá árinu 2009 hafa sjávarútvegsfyrirtæki greitt 126,3 milljarðar króna í arð til eigenda sinna. Auk þess sátu eftir 325 milljarðar króna í eigið fé í útgerðarfyrirtækjunum um síðustu áramót. Það jókst um 28 milljarða króna í fyrra þrátt fyrir metarðgreiðslur. Hagur sjávarútvegsfyrirtækja í heild vænkaðist því um næstum 50 milljarða króna á síðasta ári.
Halda verður til haga að eigið fé geirans er stórlega vanmetið þar sem virði kvóta, sem útgerðir eignfæra, er bókfært á miklu lægra verði en fengist fyrir hann á markaði.
Þessi munur er tífaldur, auðveldlega. Beinn arður útgerðarinnar af aðgangi að sjávarauðlindinni er tífaldur á við beinan arð þeirra sem eiga auðlindina. Þessi samanburður er ekki alveg sanngjarn þar sem aðgengi að sjávarauðlindinni er að hrávöru. Vegna samþættingar veiða og vinnslu má áætla sem svo að eitthvað af arðgreiðslum útgerðarinnar sé mögulega vegna virðisaukningar sem réttilega ætti að skila sér til útgerðarinnar. Hversu mikil samþættingin er í þessum tölum um hagnað sjávarútvegsfyrirtækja veit ég ekki en ef veiðar og vinnsla væri aðskild eins og ætti að vera þá værum við með betri gögn um þetta.