Efnisyfirlit

Á morgun segir sá lati

   16. ágúst 2021     2 mín lestur

Af öllum þeim málum sem krefjast athygli fyrir komandi kosningar (og er þar af mörgu að taka) stendur umræðan um heilbrigðiskerfið upp úr. Aðallega vegna þess að það er aðkallandi. Vandamál nútímans fá yfirleitt meiri athygli en framtíðarvandi sem er sorglegt, vegna þess að ef við komum til móts við framtíðarvanda í dag þá þurfum við ekki að standa í því veseni seinna. Orðatiltækið að á morgun segi sá lati er viðeigandi í því samhengi.

Helsti vandi okkar framtíðar eru augljóslega loftslagsmálin, en þau eru óáþreifanleg fyrir allt of mörgum. Þegar þau brenna ekki á skinni fólks er bara þægilegt að ýta á snooze-takkann og halda áfram að sofa. Einmitt þetta hefur gerst í heilbrigðiskerfinu og þess vegna er álag á heilbrigðiskerfinu, þess vegna eru samkomutakmarkanir og fjarlægðarmörk.

Ég rakti þróun fjárframlaga til heilbrigðiskerfisins í grein sem var birt í Kjarnanum um síðustu helgi. Þar fór ég yfir það hvernig þeir 28 milljarðar sem hafa verið settir í sjúkrahúsþjónustu á kjörtímabilinu eru aðallega að fara í nýja byggingu, sem er gríðarlega mikilvæg. Sérstaklega eftir að það er búið að tefja þá byggingu í tvo áratugi eða svo. Sú bygging leysir hins vegar ekki vanda dagsins í dag og því skoða ég hvað annað hafi verið gert til þess að koma til móts við álagið í heilbrigðiskerfinu á meðan.

Niðurstaðan mín var að í langmesta lagi þá hafi tveir milljarðar aukalega verið settir í heilbrigðiskerfið á ári. Það er alveg stór tala en hún er án verðlagsbreytinga, án tillits til þess að spítalinn hefur tekið við fleiri verkefnum annars staðar úr kerfinu og án ýmissa annara þátta sem erfitt er að greina í viðhald og eflingu eins og tækjakaup. Eftir stendur að sanngjarnt væri að segja að sjúkrahúsin hafi verið efld um í mesta lagi 1%. Allt annað er fjölgun fólks, fjölgun eldra fólks, fjölgun ferðamanna, lagfæringar vegna myglu og launahækkanir í kjarasamningum.

Það álag sem heilbrigðiskerfið glímir við í dag er vegna þess að stjórnvöld hafa ítrekað ýtt á snooze-takkann. Nýr spítali, tafinn um tvo áratugi. Fjölgun hjúkrunarrýma, enn skortur. Betri kjör heilbrigðisstétta, gerðardómur.

Stjórnvöld fela sig á bak við stóru tölurnar, að það sé búið að setja fullt af pening í heilbrigðiskerfið. Eins og það svari öllum spurningum um málið. Svo þegar það er sýnt svart á hvítu hvert peningurinn er raunverulega að fara og af hvaða ástæðum, þá er því bara svarað að það sé nú hægt að snúa út úr öllu með framsetningarbrögðum.

Hér og með skora ég því hvern sem er á hólm í umræðu um hvernig framsetning mín á því hvernig heilbrigðiskerfið hefur (ekki) verið eflt á kjörtímabilinu er ósanngjörn. Það er hægt að bóka viðtalstíma hér: https://piratar.is/bjornlevigunnarsson/