Efnisyfirlit

Elítustjórnmál

   6. ágúst 2021     2 mín lestur

Það eru tvenns konar elítustjórnmál á Íslandi. Fyrri tegundin tengist peningum, völdum og virkar nánast eins og konungsveldi. Í þeim stjórnmálum er mikið um leiðtogadýrkun, og litlar klíkur sem ráða í raun öllu bæði beint og bak við tjöldin. Seinni tegundin tengist sýndarmennsku.

Skoðum þessar tvær tegundir elítustjórnmála aðeins betur. Ég giska á að fólk geti frekar auðveldlega getið sér til um það hvernig fyrri tegundin virkar og hvaða stjórnmálaflokkar á Íslandi aðhyllast þess háttar pólitík. Fjórflokkarnir eru augljóst dæmi um fyrri tegund elítustjórnmála þó það sé hægt að taka Samfylkinguna þar aðeins út fyrir sviga eftir að hún þurrkaðist næstum því út í kosningunum 2016. Ég myndi kalla það holla áminningu sem afgangurinn af fjórflokkunum ættu að ganga í gegnum líka og ég held að eitt ár af slíkri áminningu sé of stuttur tími.

Seinni tegund elítustjórnmála er flóknari. Sýndarmennskan er nefnilega þeim galla gædd að ef hún er vel gerð, þá er hún ósýnileg. Ómögulegt að aðgreina hana frá raunverulegri hugmyndafræði um betra líf fyrir land og þjóð. Eftir reynslu þess kjörtímabils sem nú er að líða get ég auðveldlega sagt að Miðflokkurinn er efstur á lista í þeirri tegund stjórnmála. Ég veit að það er auðvelt að segja að ég sé hlutdrægur og ég sé bara í pólitískum loftárásum eða eitthvað, ég er samt ekki að reyna að segja að þetta sé neitt meira en skoðun mín. Mjög augljós niðurstaða samt frá mínum bæjardyrum séð.

Allir flokkar eru með einhverja sýndarmennsku, auðvitað. Það er óhjákvæmilegt. Alveg eins og allir eru með fordóma, það er líka óhjákvæmilegt. Spurningin er hversu mikil sýndarmennskan er þegar þú veist í raun og veru betur. Þegar þú veist að það eru til aðrar lausnir eða aðrar skýringar en hunsar þá möguleika viljandi. Viðbrögðin við Landsréttarmálinu, Ásmundarsal og álíka málum voru öll sýndarmennska. Þau viðbrögð snérust öll um að segja bara nei, enginn annar gat mögulega haft rétt fyrir sér. Þar veit ég eiginlega ekki hvort er verra, að þau hafi vitað upp á sig sökina en samt sagt nei eða hvort þau hafi í alvörunni trúað að allir aðrir hafi haft rangt fyrir sér.

Sýndarmennskan er mjög fjölbreytt form elítustjórnmála. Hún snýst ekki bara um að nota völd til þess að segja nei og koma í veg fyrir rannsóknir. Hún snýst líka um kappræður og framsetningu. Að ná nógu góðu skoti á andstæðinginn, að segja brandara sem gerir í raun lítið úr öðrum. Að gera öðrum upp skoðanir sem hægt er að ráðast á. Þetta er ákveðinn “morfís” elítismi og finnst í líka í flokkum utan fjórflokksins.

Að minu mati þurfum við að hafna elítustjórnmálum. Ekki bara þessum klassísku heldur líka morfís elítunni. PS. já, ég er með fordóma gagnvart morfís.