Efnisyfirlit

Kosningastefna Pírata 2021 - Fiskeldi

   5. ágúst 2021     3 mín lestur

Fiskeldi er áhættusöm atvinnugrein sem getur haft neikvæð áhrif á vistkerfi, og þá sérstaklega í sjókvíaeldi. Gæta þarf sérstaklega að áhrifum fiskeldis á umhverfið. Við viljum að ítrustu varúðar sé gætt, að eftirlit sé stóraukið og að strangar kröfur verði um aðbúnað fiska og að náttúran fái að njóta vafans. Fiskeldi er tímabundin lausn í matvælaframleiðslu þangað til kjötrækt verður samkeppnishæf. Við teljum ekki góðar forsendur fyrir því að auka fiskeldi í sjó og viljum að það sjókvíaeldi sem fyrir er fari fram í lokuðum kvíum.

Vinsamlegast sendið spurningar hingað: piratar@piratar.is

Nánar

  • Forsendur fyrir fiskeldi
  • Fiskeldi á landi
  • Fiskeldi í sjó
  • Upprunamerkingar eldisfisks
  • Framtíð matvælaframleiðslu á sjávarfangi

Forsendur fyrir fiskeldi

Við Píratar viljum að allt fiskeldi fylgi ströngum reglum um mengunarvarnir, heilbrigði dýra, sjúkdómavarnir og náttúruvernd. Leiki vafi á því hjá óháðum sérfræðingum hvort gætt sé fyllstu varúðar og reglum ber að grípa til aðgerða án tafa til að koma í veg fyrir umhverfistjón, útbreiðslu sjúkdóma eða önnur mögulega neikvæð áhrif fiskeldis. Við viljum hvetja til umhverfisvænni leiða við daglegan rekstur á fiskeldi. Reglur um stærð kvía og fjölda fiska skulu ráðast af velferð eldisfiska. Eftirlit með fiskeldi þarf að vera virkt og óháð fiskeldisfyrirtækjum. Ef fyrirtæki eru brotleg þarf að beita þau viðeigandi viðurlögum. Ítrekuðum og alvarlegum brotum ber að refsa með sviptingu starfsleyfis.

Við viljum lögbinda leyfisþak í fiskeldi, rétt eins og gert er með fiskveiðiheimildir, þannig að enginn einstaklingur eða tengdir aðilar ráði yfir of stórum hluta fiskeldis á Íslandi. Samþjöppun og einsleitni eru hvorki æskileg né þjóðinni til hagsbóta.

Við ætlum að tryggja gagnsæi og jafnræði við úthlutun tímabundinna heimilda í fiskeldi, ásamt því að innheimta fullt auðlindagjald. Samningar sveitarfélaga við fyrirtæki í fiskeldi skulu vera samfélaginu öllu til góða og byggja á sanngirni og fyrirsjáanleika fyrir alla aðila. Við ætlum einnig að sjá til þess að skilyrði leyfisveitinga séu fyrirsjáanleg og leyfisveitingar fari fram í gagnsæju og skilvirku ferli. Stjórnsýsla fiskeldismála þarf að vera leiðandi í faglegum og framsýnum vinnubrögðum. Við Píratar munum aldrei sætta okkur við að hagnaði af auðlindum Íslands sé komið úr landi í krafti þunnrar eiginfjármögnunar.

Fiskeldi á landi

Nýjustu rannsóknir sýna að fiskeldi á landi hefur lítil sem engin áhrif á lífríki í næsta nágrenni, svo lengi sem fráveitu- og skólpmál séu í lagi. Til þess að koma í veg fyrir mengun og áhrif á villta náttúru viljum við því frekar styðja við fiskeldi á landi svo lengi sem fæði fiskanna sé heilnæmt og umhverfisvænt. Markmið okkar er að hagkvæmara verði að stunda fiskeldi á landi en í sjó. Við munum tryggja að löggjöf um fiskeldi á landi verði einföld og skilvirk.

Fiskeldi í sjó

Fiskeldi í sjókvíum er hagkvæmt en einungis vegna þess að ekki er verið að greiða fyrir möguleg neikvæð umhverfisáhrif. Í samræmi við varúðarregluna viljum við því frekar beina fiskeldi upp á land.

Ljóst er þó að afkoma fjölmargra Íslendinga byggir á því sjókvíeldi sem nú þegar hefur byggst upp við landið. Við hyggjumst ekki kollvarpa fyrir þeim rekstri sem nú þegar er kominn á laggirnar, en gerum kröfu um að fiskeldið fari fram í lokuðum kvíum. Við munum einbeita okkur að því að gera fiskeldi á landi hagkvæmara en fiskeldi í sjó.

Til að tryggja að ekki verði óafturkræfur skaði á lífríki sjávar og lands skal veita heimildir til fiskeldis í sjó þrepaskipt eftir burðarþolsmati Hafrannsóknarstofnunar. Þannig væri aðeins hægt að veita rekstrarleyfi fyrir 25% af burðarþoli í fyrstu og ekki væri hægt að auka við það fyrr en eftir ítarlegar rannsóknir á áhrifum fiskeldisins á lífríki.

Upprunamerkingar eldisfisks

Við viljum standa vörð um hagsmuni neytenda þegar kemur að upplýsingagjöf og gagnsæi. Við gerum þá kröfu við merkingar matvæla að það komi fram hvort fiskurinn sé úr eldi eða villtur, af landi eða úr sjó.

Framtíð matvælaframleiðslu á sjávarfangi

Við Píratar teljum að fiskeldi, hvort sem er í sjó eða á landi, muni víkja á næstu árum og áratugum fyrir betri og umhverfisvænni valkostum. Við hvetjum til rannsókna og þróunar á matvælum án aðkomu dýra og teljum Íslandi vel til þess fallið að vera þar í fararbroddi á heimsvísu.

Smáþörungar eru ein af örfáum vannýttu auðlindum jarðar. Þar er tækifæri til sjálfbærrar og hagkvæmrar lausnar á fæðuvanda heimsins og mikil tækifæri til nýsköpunar. Að sama skapi er kjötrækt að vaxa ásmegin og mun ná stærðarhagkvæmni á við landbúnað og fiskeldi. Frekari rannsóknir þar munu verða til þess að fiskeldi og fiskveiðar verða óþarfi. Báðar þessar aðferðir til matvælaframleiðslu fara fram í lokuðum ræktunarbúnaði og hafa þannig ekki áhrif á náttúru og dýraríki.

Stefnan byggir á: Stefna um fiskeldi