Efnisyfirlit

Kosningastefna Pírata 2021 - Geðheilbrigðismál

   5. ágúst 2021     2 mín lestur

Við Píratar lítum á geðheilbrigði sem eina af grunnstoðum samfélagsins, málefni sem varðar ekki einungis heilsu og velferð einstaklingsins heldur er geðheilbrigði ákveðinn mælikvarði á heilbrigði samfélagsins sem við búum í. Geðheilbrigði snertir í raun öll svið samfélagsins, allt frá því hvernig búið er að velferð barna á heimilum og í skólakerfinu yfir í hvernig hugað er að jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs hjá fullorðnum. Hugum sérstaklega að geðheilbrigðismálum vegna Covid.

Vinsamlegast sendið spurningar hingað: piratar@piratar.is

Nánar

  • Fullfjármögnum og forgangsröðum -Valdefling, samþykki og samvinna
  • Niðurgreiðum sálfræðiþjónustu
  • Sálfræðiþjónusta fyrir nemendur
  • Stoppum í aðgengisgötin
  • Sérhæfð bráðaþjónusta
  • Búsetuúrræði við hæfi
  • Stuðningur og fræðsla fyrir aðstandendur

Fullfjármögnum og forgangsröðum

Geðheilbrigðiskerfið er ekki fullfjármagnað og að það verður að gefa í. Þetta á ekki síður við í kjölfar heimsfaraldurs. Við viljum líka tryggja að fjármagnið nýtist vel með því að sjá til þess að í geðheilbrigðisþjónustu sé lögð áhersla á forvarnir, fyrirbyggjandi aðgerðir og snemmtæka íhlutun. Horfa þarf heildrænt á stefnu og aðgerðir stjórnvalda með tilliti til áhrifa á geðheilsu almennings.

Valdefling, samþykki og samvinna

Við viljum draga úr þvingunum og sviptingum vegna geðrænna vandkvæða. Koma þarf upp meðferðarúrræðum sem byggjast á valdeflingu, samþykki og samvinnu. Tryggja þarf möguleika notenda til að leita réttar síns vegna ákvarðana um þvinganir og sviptingar. Notendur og fyrrum notendur skulu hafðir með í ráðum í stefnumótun á sviði geðheilbrigðisþjónustu og við útfærslu þjónustunnar.

Niðurgreiðum sálfræðiþjónustu

Við viljum niðurgreiða sálfræðiþjónustu og viðurkenndar samtalsmeðferðir. Tryggjum réttindi og fjárhagslegan stuðning einstaklinga til að fá bestu gagnreyndu þjónustu sem stendur til boða.

Sálfræðiþjónusta og fræðsla fyrir nemendur

Tryggjum aðgengi nemenda á öllum skólastigum að sálfræðiþjónustu. Útfæra ætti í aðalnámskrám hæfniviðmið um þekkingu á geðheilbrigði og einkennum algengra geðkvilla.

Stoppum í aðgengisgötin

Við viljum tryggja aðgengi allra að geðheilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Hugum sérstaklega að hópum sem falla á milli kerfa eða vantar sérhæfða þjónustu, svo sem fólk með tvígreiningu, einhverfa og fólk sem glímir við átröskun.

Sérhæfð bráðaþjónusta

Bráðaþjónusta við fólk sem á við geðrænar áskoranir að stríða er það sérhæft úrlausnarefni að eðlilegt er að hún sé aðskilin annarri bráðaþjónustu og aðgengileg allan sólarhringinn allt árið um kring. Heilbrigðismenntaðir viðbragðsaðilar bregðist við neyðarútköllum þar sem ætla má að geðræn veikindi séu til staðar.

Búsetuúrræði við hæfi

Tryggjum öllum sem eru með geðfötlunargreiningu búsetu við hæfi og notendastýrðri eftirfylgni eftir að formlegri meðferð lýkur.

Stuðningur og fræðsla fyrir aðstandendur

Tryggjum aðstandendum, sér í lagi börnum foreldra með geðrænan vanda, viðeigandi þjónustu og fræðslu.

Stefnan byggir á: Geðheilbrigðisstefna