Efnisyfirlit

Kosningastefna Pírata 2021 - Heilbrigðisstefna

   5. ágúst 2021     2 mín lestur

Við Píratar setjum forvarnir, fyrirbyggjandi aðgerðir, velferð sjúklinga og réttindi notenda heilbrigðisþjónustu í forgang. Við viljum að sjúklingurinn njóti vafans, ekki kerfi eða kostnaður. Langtíma heilbrigðisáætlun á að stuðla að mannúðlegu viðmóti og nærgætni í heilbrigðiskerfinu, lausu við fordóma. Við viljum stefna að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu og tryggja aðgengi okkar allra að fjölbreyttri hágæða þjónustu þar sem réttindi notenda eru sett í forgang.

Vinsamlegast sendið spurningar hingað: piratar@piratar.is

Nánar

  • Rekstrarform
  • Góð og örugg þjónusta um allt land
  • Sjúklingar beri ekki þyngstu byrðina
  • Stöndum vörð um réttindi sjúklinga

Rekstrarform

Við ætlum að standa vörð um opinbera heilbrigðisþjónustu og koma í veg fyrir einkavæðingu sem setur ofurgróða einkaaðila ofar heilsu landsmanna og veldur óskilvirkni í kerfinu. Einkarekstur í fjölbreyttum rekstrarformum á rétt á sér en þó með þeim skilyrðum að aðgengi allra sé tryggt og að efnahagur ákvarði ekki umfang og gæði þeirrar þjónustu sem hver einstaklingur á rétt á. Við viljum vinna að auknu gagnsæi og draga úr miðstýringu heilbrigðiskerfisins. Heilbrigðisáætlun skal ná til stoðaðila við heilbrigðisþjónustu, svo sem sjúkraflutninga, slökkviliðs, björgunarsveita, neyðarlínu, sjúkraflugs og þyrluþjónustu.

Góð og örugg þjónusta um allt land

Undirfjármagnað heilbrigðiskerfi bitnar á landsmönnum öllum, sérstaklega á landsbyggðinni. Við viljum bæta þjónustu og snúa við þeirri þróun sem hefur einkennst af fjársvelti og uppsöfnun viðhaldskostnaðar. Allir íbúar landsins eiga að hafa aðgengi að góðri alhliða heilbrigðisþjónustu sem stuðlar að andlegu og líkamlegu heilbrigði. Byggjum upp fjarheilbrigðisþjónustu sem raunhæfan kost og hvetjum til stöðugrar símenntunar og endurmenntunar allra sem starfa við heilbrigðisþjónustu.

Sjúklingar beri ekki þyngstu byrðina

Við viljum að opinber heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls. Aukum kostnaðarþátttöku ríkisins í meðferðarúrræðum og drögum úr lyfjakostnaði notenda, sérstaklega þegar kemur að langvarandi og dýrum lyfjameðferðum. Tryggjum niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu, tannlækningum, augnlækningum, sjúkraþjálfun, sérfræðilækningum og annarri heilbrigðisþjónustu óháð samningum við veitendur þjónustu.

Stöndum vörð um réttindi sjúklinga og aðstandenda

Við viljum stofna embætti umboðsmanns sjúklinga sem verður eftirlitsaðili og upplýsingamiðlari fyrir sjúklinga og aðstandendur, ásamt því að aðstoða og leiðbeina varðandi réttindi notenda og veita kerfinu aðhald fyrir hönd sjúklinga, aðstandenda og notenda heilbrigðisþjónustu. Stöndum vörð um réttindi sjúklinga með því að tryggja auðveldan aðgang notenda heilbrigðisþjónustu að eigin sjúkraskrá og upplýsingum um hvernig hún er notuð, ásamt því að tryggja vernd persónuupplýsinga þeirra. Gefum notendum aðgang að ákvarðanatöku og upplýsingum varðandi eigin meðferðarúrræði og leyfum þeim að vera þátttakendur í eigin heilbrigðisþjónustu.

Stefnan byggir á: Almenn heilbrigðisstefna