Efnisyfirlit

Kosningastefna Pírata 2021 - Umhverfis- og loftslagsmál

   5. ágúst 2021     5 mín lestur

Loftslagsmálin eru án efa eitt af stærstu viðfangsefnum samtímans. Við Píratar erum tilbúin í þær aðgerðir sem þarf að ráðast í til að byggja upp græna og sjálfbæra framtíð. Á sama tíma vitum við að fram undan eru óumflýjanlegar umbreytingar á veröld okkar sem Íslendingar, eins og heimsbyggðin öll, þurfa að búa sig undir. Við sjáum fyrir okkur samfélag og lífríki sem blómstrar þrátt fyrir þau risavöxnu verkefni sem glíma þarf við.

Vinsamlegast sendið spurningar hingað: piratar@piratar.is

Nánar

  • Skýr stefna í átt að kolefnishlutleysi
  • Græn umbreyting í allra hag
  • Stjórnsýsla og stjórnvöld
  • Græn umbreyting atvinnulífsins
  • Náttúruvernd
  • Hringrásarsamfélag
  • Valdeflum almenning
  • Aðgerðir á alþjóðasviðinu
  • Loftslagsaðlögun Verndun hafsins

Skýr stefna í átt að kolefnishlutleysi Loftslagsváin kallar á miklar kerfisbreytingar. Ísland hefur alla burði til þess að vera í forystu þeirra ríkja sem berjast af alvöru gegn þessum breytingum með réttlátum og framsæknum aðgerðum. Lausnin er sjálfbært samfélag. Áskorunin framundan er tækifæri til að gera betur, bæði í stjórnmálum nútímans og fyrir komandi kynslóðir. Setjum metnaðarfulla aðgerðaráætlun sem bregst við yfirstandandi neyðarástandi í loftslagsmálum og hrindum henni í framkvæmd.

Græn umbreyting í allra hag Grænna samfélag er allra hagur og mikilvægt hagsmunamál komandi kynslóða. Meginábyrgð þess að draga úr mengun og losun gróðurhúsalofttegunda liggur hjá stjórnvöldum og fyrirtækjum en einstaklingar eiga að búa við aukið valfrelsi og fá skýrari og betri upplýsingar sem auðvelda þeim að velja umhverfisvæna kosti. Umhverfisvæni valkosturinn á að vera aðgengilegur öllum óháð efnahag. Við þurfum í sameiningu að búa okkur undir þær áskoranir sem fylgja loftslagsbreytingum, auka tækifæri með menntun starfsfólks í nýjum greinum og tryggja réttlát umskipti fyrir öll.

Stjórnsýsla og stjórnvöld Vangeta núverandi valdhafa til að bregðast með fullnægjandi hætti við loftslagsvánni einkennist af vanmáttugri stjórnsýslu þar sem veigamiklar ákvarðanir um baráttuna gegn loftslagsbreytingum eru teknar af öðrum en þeim sem bera ábyrgð á henni. Endurskipuleggjum alla stjórnsýsluna og hefjum samstarf við aðila vinnumarkaðarins um réttlátar og áhrifaríkar aðgerðir. Setjum metnaðarfulla, tímasetta og fullfjármagnaða aðgerðaráætlun sem verður endurskoðuð reglulega og setjum velsældarmælikvarða í forgrunn við áætlanagerð.

Græn umbreyting atvinnulífsins Á næstu árum verður að eiga sér stað bylting í grænni nýsköpun og framþróun. Með því að styrkja græna sprota og veita fjármunum til rannsókna í umhverfismálum tryggjum við ekki bara lífvænlega jörð fyrir komandi kynslóðir heldur er það skynsamlegasta fjárfestingin á komandi áratugum. Við þurfum líka að beita öflugum mótvægisaðgerðum sem ná til allra geira atvinnulífsins, búa til efnahagslega og skattalega hvata fyrir atvinnulíf að grænvæða, skapa hvata fyrir val á vörum sem menga minna og setja fjármálakerfinu nýjar leikreglur sem koma í veg fyrir stuðning við mengandi fyrirtæki og stóriðju. Mótum nýja langtímastefnu fyrir vistvæna og kolefnishlutlausa matvælaframleiðslu, auk þess að girða fyrir sjálfseftirlit mengandi fyrirtækja.

Náttúruvernd Óspillt náttúra þarf sterkan málsvara við stjórnvölinn. Við viljum vernd miðhálendisins í lýðræðislegt ferli svo hægt sé að tryggja vernd hálendisins í þágu komandi kynslóða. Stöndum vörð um almannaréttinn og frjálsa för fólks um landið, svo lengi sem viðkvæm vistkerfi eru varin. Rammaáætlun verður áfram matstæki fyrir heildarhagsmuni við raforkuframleiðslu en verður að þróast í samræmi við aukna áherslu á náttúruvernd. Notum orkuna í auknum mæli í græna nýsköpun og innviði frekar en í þágu mengandi stóriðju. Setjum náttúruvernd undir landsskipulag og verndum náttúruna á vinsælum áfangastöðum fyrir átroðningi. Verndum og endurheimtum landvistkerfi, eflum skógrækt og landgræðslu á landbúnaðarlandi og á örfoka landi og endurskoðum lög um villt dýr til að tryggja vernd þeirra, þ.m.t. sjávarspendýr.

Hringrásarsamfélag Að byggja upp hringrásarsamfélag er leiðin til að snúa frá ósjálfbæru hagkerfi sem er grundvallað á óendanlegum vexti. Við viljum setja skýra stefnu um hringrásarhagkerfi til að draga úr vistspori og sporna gegn ofneyslu og sóun. Látum mengandi starfsemi greiða sérstök gjöld og axla ábyrgð á myndun úrgangs. Innleiðum réttinn til viðgerða og stuðlum að vistvænu deilihagkerfi. Hefjum átak í fráveitumálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga og endurhugsum hið brotakennda kerfi úrgangsmála. Byggjum upp græna innviði um land allt fyrir vistvæna fararmáta og hefjum tilraunir með samgöngur framtíðarinnar.

Valdeflum almenning Stjórnvöld verða að axla þá ábyrgð sem fylgir valdasetu á tímum loftslagsbreytinga. Almenningur á að hafa skýra möguleika til að hafa aðhald og eftirlit með stjórnvöldum. Tryggjum aukið samráð við almenning á öllum stigum stefnumótunar. Verndum hagsmuni komandi kynslóða með því að meta allar aðgerðir og útgjöld ríkisins út frá velsældarmælikvörðum og áhrifum þeirra á umhverfi og loftslag. Vinnum saman og finnum lausnirnar sameiginlega á þjóðfundi um sjálfbærni og loftslagsmál sem haldinn verði í upphafi hvers kjörtímabils.

Aðgerðir á alþjóðasviðinu Víðtæk alþjóðleg samvinna er nauðsynleg ef nást á að halda hnattrænni hlýnun innan 1,5°C marka Parísarsamningsins. Margt bendir til þess að mörg þeirra ríkja sem eiga aðild að Parísarsamningnum muni ekki geta staðið við skuldbindingar sínar án þess að stórauka aðgerðir. Ísland á að nota rödd sína á alþjóðavettvangi til að beita sér í þágu umhverfis- og loftslagsmála til að sporna gegn óafturkræfum skaða á vistkerfum heimsins. Stuðlum að auknu alþjóðlegu samstarfi til að ná kolefnishlutleysi og leggjum áherslu á ákvæði um loftslagsmál í öllum milliríkjasamningum Íslands. Höfum framgöngu um gerð nýrra alþjóðlegra árangursmælikvarða sem ráðast að rótum frekar en einkennum loftslagsvandans. Styðjum þróunarríki í aðgerðum sínum og öxlum þá ábyrgð sem fylgir stöðu okkar sem eitt af auðugari ríkjum heims.

Loftslagsaðlögun Undirbúum okkur fyrir þær óhjákvæmilegu breytingar sem fylgja loftslagsbreytingum. Stjórnvöld verða að gera áætlun til að tryggja áframhaldandi tilveru Íslands og velferð og öryggi landsbúa, dýra og gróðurs á meðan afleiðingar loftslagshlýnunar ganga yfir. Slíkar áætlanir þurfa að taka mið af öllum sviðsmyndum, þannig að hlýnun geti orðið talsvert umfram markmið Parísarsáttmálans og innihalda áhættumat sem byggir á heildstæðu, ítarlegu mati færustu sérfræðinga á hlutaðeigandi þáttum eins og fæðuöryggi, birgðaflutninga, hækkun matvælaverðs, skorts á innfluttum nauðsynjavörum fyrir almenning og vörum til að viðhalda innviðum samfélagsins.

Slíkt viðbragð felur í sér að auka fæðuöryggi á Íslandi og hvetja til fjölbreyttrar og sjálfbærrar matvælaframleiðslu, að efla vísindalegar grunnrannsóknir og þróun á sjálfbærri innlendri framleiðslu, að efla rannsóknir er varða endurvinnslu, hringrásarhagkerfið og líftækni. Kanna verður hvernig hægt er að bregðast við breyttum sviðsmyndum á vöruflutningum til að tryggja velferð og öryggi landsbúa.

Verndun hafsins Verndum lífríki sjávar gegn ofveiði, ágangi og mengun. Nýtum bestu fáanlegu tækni og uppfyllum ákvæði alþjóðasamninga í öllum málum er varða hafið umhverfis Ísland og auðlindir þess. Eflum hagræna hvata til að minnka losun þrávirkra lífrænna efna og óniðurbrjótanlegra agna frá íbúabyggð og starfsemi í landi, svo sem plastagna. Skyldum umhverfismat fyrir starfsemi sem ógnar vernd hafsins og drögum úr umhverfismengun frá skipum í íslenskri landhelgi.

Tengjum skip sem leggjast við höfn á Íslandi við íslenskt rafmagn svo þau brenni ekki svartolíu. Stefnum að aukningu friðlýstra svæða og þjóðgarða á hafi til verndar hrygningarsvæðum og viðhalds líffræðilegrar fjölbreytni. Verndum hafsbotninn gegn mannvirkjum og veiðarfærum sem geta valdið þar óafturkræfum spjöllum. Bönnum olíuleit og nýja olíuvinnslu í íslenskri landhelgi.

Stefnan byggir á: Umhverfis- og loftslagsstefna