Efnisyfirlit

Kosningastefna Pírata 2021 - Utanríkismál

   5. ágúst 2021     2 mín lestur

Ísland hefur sterka rödd á alþjóðasviðinu. Við Píratar viljum nýta hana til að fara fram með góðu fordæmi. Ísland á að beita sér fyrir eflingu og verndun mannréttinda í alþjóðasamstarfi og vera leiðandi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Píratar vilja tryggja að allir milliríkjasamningar séu opnir og aðgengilegir og beint lýðræði verði haft að leiðarljósi við meiriháttar ákvarðanir um utanríkismál.

Vinsamlegast sendið spurningar hingað: piratar@piratar.is

Nánar

  • Evrópusamstarf
  • NATO
  • Loftslagsmál
  • Ísland í alþjóðasamfélaginu
  • Mannréttindi á alþjóðavettvangi
  • Gagnsæi í utanríkismálum

Evrópusamstarf

EES-samningurinn hefur verið mikilvægur fyrir íslenska þjóð og efnahag landsins undanfarna áratugi og er árangursríkt áframhaldandi samstarf mikið hagsmunamál Íslands. Ísland á að taka sér allt það rými sem það getur á vettvangi EES til að tryggja stöðu og hagsmuni almennings. Aðildarviðræður við Evrópusambandið varða heildarhagsmuni allrar þjóðarinnar og því mikilvægt að stjórnvöld fylgi vilja almennings hvað varðar aðild að ESB. Hefjum hvorki hefja aðildarviðræður, né ljúkum þeim, án þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem fram fari hlutlaus og heildstæð kynning á kostum og göllum aðildar.

NATO

Mikilvægt er að rödd þjóðarinnar fái að heyrast hvað varðar áframhaldandi þátttöku Íslands í NATO og í öðru varnarsamstarfi. Á meðan Ísland er aðili að bandalaginu á það tala fyrir friði innan NATO og annars staðar á alþjóðavettvangi. Íslendingar eiga að beita sér gegn hvers kyns hernaðaruppbyggingu í Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum. \

Loftslagsmál

Ísland á að nota rödd sína á alþjóðavettvangi til að beita sér í þágu umhverfis- og loftslagsmála til að sporna gegn óafturkræfum skaða á vistkerfum heimsins. Stuðlum að auknu alþjóðlegu samstarfi til að ná kolefnishlutleysi og leggjum áherslu á ákvæði um loftslagsmál í öllum milliríkjasamningum Íslands. Höfum framgöngu um gerð nýrra alþjóðlegra árangursmælikvarða sem ráðast að rótum frekar en einkennum loftslagsvandans. Styðjum þróunarríki í aðgerðum sínum og öxlum þá ábyrgð sem fylgir stöðu okkar sem einu af auðugri ríkjum heims.

Ísland í alþjóðasamfélaginu

Ísland á að gerast aðili að Evrópsku geimvísindastofnuninni (ESA) og Kjarnrannsóknastofnun Evrópu (CERN). Setja skal á fót á Íslandi alþjóðlega miðstöð þekkingar, rannsókna, kennslu og nýsköpunar á sviði umhverfis- og loftslagsmála í samvinnu við alþjóðlegar stofnanir og fyrirtæki. Setjum á fót alþjóðlegan fjárfestingasjóð á sviði nýsköpunar í loftslags- og umhverfismálum. Byggjum upp skattalegt umhverfi sem hvetur erlenda aðila til þess að setja upp græna fjárfestingar- og nýsköpunarsjóði á Íslandi.

Mannréttindi á alþjóðavettvangi

Ísland verður að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir vernd mannréttinda, bæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í alþjóðlegum stofnunum sem það á aðild að og í milliríkjasamningum sem það undirritar. Aukum eftirlit með brotum gegn mannréttindaákvæðum í fríverslunarsamningum.

Gagnsæi í utanríkismálum

Við mótun stefnu Íslands um samskipti við önnur lönd, milliríkjasamninga, aðrar alþjóðlegar skuldbindingar og varnarmál Íslands á almenningur að hafa aðgengi að upplýsingum og ákvarðanatöku eins og hægt er. Birtum opinbera skrá yfir þá alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að, stöðu þeirra innan kerfisins og upplýsingar um ábyrgð fyrir framkvæmd og framfylgd alþjóðlegra skuldbindinga.

Stefnan byggir á: