Efnisyfirlit

Kosningastefna Pírata 2021 - Skaðaminnkun

   5. ágúst 2021     2 mín lestur

Við eigum að koma fram við neytendur vímuefna sem manneskjur, ekki sem glæpamenn. Fólk með fíknivanda ber að nálgast af nærgætni, virðingu og með skaðaminnkun að leiðarljósi. Skaðaminnkun vísar til stefnu, úrræða og aðgerða sem vinna að því að minnka neikvæð heilsufarsleg, félagsleg og efnahagsleg áhrif af neyslu vímuefna í stað þess að reyna að leysa vandamálin með bönnum og refsingum. Píratar hafa frá upphafi barist fyrir skaðaminnkun, enda skilar hún árangri.

Vinsamlegast sendið spurningar hingað: piratar@piratar.is

Nánar

  • Afglæpavæðing neysluskammta
  • Fræðsla og forvarnir
  • Hugum að viðkvæmum hópum
  • Heilbrigðiskerfi allra
  • Tökum afstöðu til regluvæðingar

Afglæpavæðing neysluskammta

Núverandi refsistefna eykur á jaðarsetningu vímuefnaneytenda sem ýtir undir aukinn fíknivanda. Við viljum afglæpavæða neysluskammta vímuefna og endurskoða refsiramma gagnvart vímuefnabrotum á grundvelli mannréttinda, mannhelgi og mannúðar og í takt við nýjustu þekkingu. Viðurkennum að fíknisjúkdómar séu heilbrigðisvandi sem þarfnast meðhöndlunar sem slíkur, en einnig að taka þurfi tillit til nýrrar þekkingar um félagslegar aðstæður fíkla, að getan til heilbrigðrar tengslamyndunar sé ein af meginforsendum bata til lengri tíma. Búum til tækifæri fyrir fíkla í bata til að enduraðlagast samfélaginu.

Fræðsla og forvarnir

Drögum úr eftirspurn eftir vímuefnum með uppbyggilegum úrræðum á borð við gagnreyndar forvarnir, fræðslu, viðhalds- og meðferðarúrræði ásamt réttindavernd og réttindaaukningu vímuefnaneytenda. Mikilvægt er að huga að áhrifaþáttum fíknar, svo sem áfalla í æsku, hvernig hlúð er að börnum og félagslegum þáttum hvers konar. Setjum nýja og mannúðlega stefnu í áfengis- og vímuvörnum samhliða afglæpavæðingu neysluskammta, þar sem áhersla verður lögð á skaðaminnkun, fræðslu og forvarnir. Engin slík stefna er í gildi hjá stjórnvöldum sem stendur.

Hugum að viðkvæmum hópum

Jaðarhópar eru sérstaklega líklegir til þess að ofnota vímuefni og ánetjast þeim. Veitum jaðarhópum sérstaka athygli við stefnumótun í þessum málaflokki með fyrirbyggjandi úrræðum og meðferðarúrræðum. Í þeim hópi eru fangar, einstaklingar með geðröskun eða geðfötlun, þolendur mansals, fólk sem starfar í kynlífsiðnaði o.s.frv. Tryggjum lagalegan grundvöll fyrir rekstur neyslurýma og aukum aðgengi að öðrum skaðaminnkandi úrræðum á borð við nálaskiptaþjónustu. Gleymum því ekki að hanna skaðaminnkunarúrræði með þarfir ungs fólks sérstaklega í huga. Vinnum að því að draga úr einangrun jaðarsettra hópa, byggjum upp stuðningsnet fyrir fólk í vanda og veitum sálræna aðstoð til að vinna úr áföllum. Gerum átak í húsnæðismálum heimilislausra fíkla til að koma í veg fyrir það mikla öryggisleysi sem einkennir lífi þeirra.

Heilbrigðiskerfi allra

Afnemum alla mismunun gagnvart vímuefnanotendum í heilbrigðiskerfinu. Bjóðum upp á fleiri og fjölbreyttari meðferðarúrræði handa þeim sem á þurfa að halda vegna vímuefnaneyslu sinnar. Stuðla skal að frekari rannsóknum á fíkn og undirliggjandi vanda henni tengdri. Leggjum áherslu á að bæta hag þeirra sem eiga við tvíþættan eða margþættan vanda að stríða.

Tökum afstöðu til regluvæðingar

Meðal nágrannaþjóða okkar, ekki síst vestanhafs, hafa orðið stórstígar breytingar í átt að regluvæðingu vímuefna á undanförnum árum. Með regluvæðingu er átt við að svipað gildi um önnur vímuefni og nú gildir um t.d. áfengi og tóbak, að framleiðsla og sala verði leyfð samkvæmt ákveðnum skaðaminnkandi reglum. Íslensk stjórnvöld þurfa fyrr eða síðar að taka afstöðu til regluvæðingar og Píratar vilja undirbúa slíka ákvörðun með því að kanna kosti og galla mismunandi leiða með opnum huga.

Stefnan byggir á: Fíkni- og vímuefnastefna