Efnisyfirlit

Kosningastefna Pírata 2021 - Atvinna og nýsköpun í sjálfvirku og sjálfbæru samfélagi

   5. ágúst 2021     2 mín lestur

Við viljum sjálfbært samfélag sem getur tekist á við sjálfvirknivæðingu og fjórðu iðnbyltinguna. Þess vegna leggjum við höfuðáherslu á nýsköpunarlandið Ísland þar sem tækifærin er að finna hjá fólki út um allt land. Það þarf öfluga, sjálfbæra og græna, innviðauppbyggingu í öllum sveitarfélögum landsins til þess að koma til móts við áskoranir framtíðarinnar. Við viljum ná markmiðum um fleiri tækifæri fyrir framtíðarkynslóðir og sjálfbærni landsins með nýsköpun í opinberri starfsemi, með samstarfi við atvinnulífið og með því að gera Ísland að þekkingarmiðstöð fyrir framtíðarsamfélagið. Koma þarf í veg fyrir langtímaatvinnuleysi með því að bjóða upp á nýjar leiðir, efla nýsköpun og fjölga undirstöðum íslensk iðnaðar.

Vinsamlegast sendið spurningar hingað: piratar@piratar.is

Nánar

  • Nýsköpun
  • Grænir og öruggir innviðir
  • Ísland sem miðstöð þekkingar
  • Ferðamennska
  • Verkalýðsmál
  • Sjálfbær iðnaðarstefna

Nýsköpun

Meiri áhersla á nýsköpun er lykillinn að því að takast á við síbreytilegan heim. Við þurfum að byggja upp aðstöðu til nýsköpunar um allt land í náinni samvinnu við sveitarfélög og frumkvöðla. Það þarf að einfalda stofnun, skipulag og fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja. Það þarf að huga að nýsköpun á mun breiðari grunni en hingað til og setja þarf mun skýrari stefnu varðandi græna nýsköpun. Stórauka þarf styrki til nýsköpunar, með sérstaka áherslu á græna sprota. Áherslur nýsköpunar þurfa að ná inn í menntakerfið og allan opinberan rekstur til þess að ná hagræði með nýrri tækni og þekkingu.

Grænir og öruggir innviðir

Það þarf að ljúka ljósleiðaravæðingu allra byggðakjarna landsins og tryggja örugg fjarskipti á ferð um landið. Við viljum að dreifingu þriggja fasa raforku sé tryggð óháð veðurfari og að við notum umhverfisvæna orku í umhverfisvænan og sjálfbæran iðnað. Við viljum skilvirkar og umhverfisvænar samgöngur með öflugri og fullfjármagnaðri samgönguáætlun þar sem hver landshluti hefur miklu meiri áhrif á forgangsröðun samgangna á sínu svæði og þar sem almenningssamgöngur og virkir ferðamátar eru skilgreindar sem hluti af grunnneti samgangna. Við viljum umhverfisvæna uppfærslu í frárennslis-, endurvinnslu- og sorpmálum um allt land í samvinnu við sveitarfélögin. Styðja við bindingu og föngun gróðurhúsalofttegunda og stórátak í orkuskiptum.

Ísland sem miðstöð þekkingar

Við viljum að Ísland skapi sér forystu með stofnun alþjóðlegs þekkingar- og nýsköpunarseturs á sviði umhverfis og loftslagsmála. Þar yrði aukin samvinna við háskóla innan lands og utan með áherslu á kennslu, rannsóknir og nýsköpun. Samhliða þeirri starfsemi yrðu settir upp alþjóðlegir nýsköpunarhraðlar og fjárfestingarsjóðir í samvinnu við íslenskt og alþjóðlegt atvinnulíf.

Ferðamennska

Ferðamennskan er nýjasta efnahagsstoð Íslands og í henni felast mörg tækifæri. Tryggja þarf öfluga viðspyrnu í kjölfar heimsfaraldurs og mynda breiða samstöðu og samstarf um markaðssetningu Íslands á erlendri grund. Nauðsynlegt er að veita árlega auknu fjármagni til verndar, uppbyggingar og úrbóta á vinsælum áfangastöðum og ferðamannastöðum í náttúrunni óháð eignarhaldi.

Verkalýðsmál

Með aukinni sjálfvirknivæðingu og grænni umbyltingu hagkerfisins munu verkalýðsmál verða enn mikilvægari en áður. Við viljum styrkja stöðu og efla samráð við verkalýðsfélög um atvinnumál en þau eru lykillinn að því að við getum tekist á við áskoranirnar sem fylgja sjálfvirknivæddum heimi, til að tryggja réttlát umskipti og sanngjarna skiptingu auðs og gæða. Lýðræðisvæðum fyrirtæki eftir fyrirmyndum annarra Norðurlanda með fulltrúum starfsmanna í stjórn.

Sjálfbær iðnaðarstefna

Við ætlum að framfylgja ályktun Alþingis um heildstæða iðnaðarstefnu fyrir Ísland sem Píratar áttu frumkvæði að. Ný iðnaðarstefna okkar mun setja sjálfbæra þróun í forgang og taka tillit til fjölbreytilegra aðstæðna á Íslandi. Styðjum við margbreytilegan iðnað og fjölgum stoðum íslensks efnahags.

Stefnan byggir á: